9.10.2013 | 08:27
Bakkafjörður, heimsókn til eftirminnilegs staðar.
Þegar Emil Björnsson þáverandi yfirmaður frétta- og fræðsludeildar Sjónvarpsins fól mér að gera nokkra þætti undir samheitinu "Heimsókn" ákvað ég að einn þeirra skyldi fjalla um eins ólíka byggð og Reykjavík og kostur væri.
Bakkafjörður varð fyrir valinu, lítið sjávarþorp hinum megin á landinu sem aldrei komst í fréttirnar vegna nálægðarinnar við stærra þorp, Vopnafjörð. Þátturinn hlaut heitið "Blíðudagur á Bakkafirði" og var það réttnefni.
Þegar við hófum myndatökur við höfnina var enga hreyfingu að sjá í þorpinu og hélst það svo frameftir degi. Eina sálan á ferli var gamall maður sem var að dunda við höfnina í þeim mestu rólegheitum sem ég hef séð, færa nokkra fiska til og frá í mestu makindum.
Þegar ég spurði hann hvert hans starf væri í plássinu svaraði hann: "Ég geri ekki neitt". Það var næstum því komið fram á varirnar á mér a spyrja: "Og er það mikið starf?" því að þetta var þó eini maðurinn sem við sáum á ferli fram eftir degi.
Maður heyrði útundan sér í Vopnafirði að Bakkfirðingar væru sérkennilegt fólk.
"Veistu af hverju Bakkfirðingar eiga enga kodda" var maður spurður, og svarið var auðvitað "nei".
"Það er vegna þess að þeir sofa á peningunum sínum" var svarið.
Samkomustaðurinn var hrörlegt hús við aðalgötuna. Þar vakti athygli að neðst á hliðinni sem sneri að götunni var byrðingurinn dálítið trosnaður og einn Vopnfirðingur kom með skýinguna.
"Þegar haldin eru böll síðsumars og í skammdeginu skreppa karlarnir út og míga utan í húsið á þessum stað. Nú er húsið orðið það trosnað þarna neðst að taumarnir renna stundum inn í húsið".
Já, heimsóknin til Bakkafjarðar varð eftirminnileg og auðvitað færðist smá hreyfing í lífið við höfnina þegar bátur kom þar inn síðdegis.
Þrautseigja einkennir bæjarbúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki lengur ber sitt barr,
á Bakkafirði margur mé,
allt þar vit og þróttur þvarr,
þegar fór hann Kristinn P.
Þorsteinn Briem, 9.10.2013 kl. 09:14
Gaman að horfa á þennan þátt í dag en við ásamt fleirum Bakkfirðingum keyptum hann á diskum hjá Rúv fyrir nokkrum árum. Dásamlegt að sjá gömlu góðu Bakkfirðingana. Fallegt nafn á þættinum en lýsingar þáttastjórnanda ekki mjög uppibyggilegar "hér er ekkert líf, hvorki ofan sjávar né neðan", allt í þessa áttina... en við höfum húmor fyrir þessu ;)
Hilma Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2013 kl. 08:11
....og "enginn á ferli nema nokkrar hljóðlátar hænur". Óborganlegar lýsingar og heimild um yndislegt fólk. Hvað liggur að baki ummælum Vopnfirðinga verður hver og einn að geta sér til um. Með kveðju frá tímabundið brottfluttum Bakkfirðingi
Gunnþórunn Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2013 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.