12.10.2013 | 17:40
Örlagavaldur Skaftfellinga um aldir.
Eldgos og óáran hafa verið örlagavöldur Skaftfellinga allt frá landnámstíð þótt sjaldnast hafi það verið fest á bókfell, svo sem Eldgjárgosið mikla 934, sem er stærsta hraungos sem komið hefur á sögulegum tíma mannkyns, stærra en sjálfir Skaftáreldarnir.
Kötlugosið 1918 kom miklu róti á mannlíf í nærsveitum þess á sínum tíma og sömuleiðis stríðsárin og kreppan 1917, sem varð dýpri en nokkur kreppa hefur orðið hér á landi í meira en heila öld.
Meðal þeirra sem fóru að austan til Reykjavíkur var Þorfinnur Guðbrandsson frá Hörgslandi og Síðu og Ólöf Runólfsdóttir frá Hólmi í Landbroti, sem hafði verið í fóstri í Svínafelli í Öræfum.
Hann var fæddur 1890 en hún 1896 og ég hef áður sagt frá kjörum þeirra, sem mótuðu lífshlaup þeirra og lífsviðhorf.
Þau felldu hugi saman og eignuðust tvö börn, annað þeirra síðar móðir mín. Ég minnist þess í æsku hve mikið mark Kötlugos og ekki síður Móðurharðindin settu á Skaftfellinga og viðhorf þeirra.
Ég rek þetta meðal annars nánar þessar vikur í Landnámssetrinu í Borgarnesi þar sem ég reyni að leiða fram sérstætt fólk sem ég kynntist ungur bæði beint og í gegnum ættmenni mín og foreldri, fólk sem ég hefði, ef ég hefði verið 30-40 árum eldri þá, gert að viðfangsefni í sjónvarpi ef það hefði þá verið komið til skjalanna.
Þetta fólk hafði að sjálfsögðu afar mikil áhrif á mig á þessum uppvaxtar- og mótunarárum og ég lærði mikið af því.
95 ár frá síðasta Kötlugosi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Ef þú átt leið um Meðallandið ættir þú að banka upp á Hnausum hjá frænda og spyrja hann út í þetta gos. Þó svo að hann hafi ekki verið kominn undir á þeim tíma, voru miklar munnmælasögur þar niðurfrá og á Síðunni löngu eftir gosið. Vilhjálmur veit aðeins meir en nef hans nær, þannig er nú það.
Sindri Karl Sigurðsson, 12.10.2013 kl. 18:38
Já Villi er flottur persónuleiki eins og margir samlanda okkar eru þar á meðal þú Ómar Ragnarsson.
Sigurður Haraldsson, 12.10.2013 kl. 21:33
Ég spjallaði á sínum tíma við Eirík í Svínadal, sem mundi eftir gosinu, og gerði um hann smá viðtalsþátt. Ég hef því miður gefið mér allt of lítinn tíma um dagana til að huga að frændfólki mínu þarna fyrir austan.
Ómar Ragnarsson, 13.10.2013 kl. 00:44
Þetta er eins og venjulega, allt of langt í frændgarðinn. Ég held því dálítið pent fram að þú þurfir að kíkja á kallinn og spyrja einnar spurningar: Hvaðan eru Kúðar?
Sindri Karl Sigurðsson, 13.10.2013 kl. 01:49
Angurvær horfir á erfingja sinn Eyjólfur bóndi á Hnausum
og sv. framv. Þeir eru viða Skaftfellingar.Hver öðrum skyldir.Hann er stór frændgarðurinn.
Sigurgeir Jónsson, 13.10.2013 kl. 04:23
Vonandi fá skaftfellingar í Skaftafellssýslum að fá frábæran sögumann Ómar Ragnarsson í heimssókn.
Sigurgeir Jónsson, 13.10.2013 kl. 04:35
það er vissulega góður skaftfellingur sem stjórnar í Borgarnesi Hann hlýtur aða fara á heiimaslóðir með söguna um stórbóndann í Svínafelli.Hann er þaðann.
Sigurgeir Jónsson, 13.10.2013 kl. 06:17
Hér er áhugaverð frásögn af því þegar fjölskylda langafa míns þurfti að flýja bæ sinn í Meðallandi sökum gosins i Kötlu 1918. Langafi minn var þegar flóttinn átti sér stað tepptur í Vík í Mýrdal og komst ekki yfir sandinn sökum flóða undan jöklinum.
Þessi frásögn er úr viðtalsbók sem heitir Í húsi náungans rituð af Guðmundi Daníelssyni og gefin út 1959.
https://docs.google.com/file/d/0By6IaXULt2OPRWxrbmFXckt4dGs/edit?usp=sharing
Birkir R (IP-tala skráð) 13.10.2013 kl. 11:07
Hefur sögum og munnmælum um þennan tíma, verið safnað saman?
Ef ekki þá sting ég upp á því að þú, Ómar gangir í það að slíkt verði gert. Þetta eru heimildir sem verður að varðveita og ná þeim hjá því fólki sem enn man þennan tíma.
Jóhannes (IP-tala skráð) 13.10.2013 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.