ÓTTI VIÐ HREYFINGU Á KJÓSENDUM

Allir þættir með forystumönnum stjórnmálaflokkanna á ljósvakamiðlum 1999 enduðu á því að umsjónarmenn sögðu: "Ætlunin var að fjalla um umhverfismál en tímans vegna verður það ekki hægt." 2003 var þetta lítið skárra en nú virðist von um að hægt verði að knýja fram löngu tímabærar umræður og kosningar um þetta.

Það er komin hreyfing inn í alla flokka út af umhverfismálunum enda hefur undanfarnar vikur vofað yfir að nýtt framboð grænna liti dagsins ljós.

Kristinn H. Gunnarsson, - einn af þeim sem samþykkti Kárahnjúkavirkjun ef ég man rétt, - les út úr orðum Steingríms J. Sigfússonar í Morgunblaðsviðtali undanslátt frá stefnu Vinstri Grænna í stóriðjumálum. Sleggjan kastar úr dálitlu glerhúsi, sýnist mér, - en kannski er Kristinn tilbúinn til að viðurkenna að Kárahnjúkavirkjun hafi verið mistök og að rétt sé að biðja um stóriðjuhlé, hver veit?

Guðjón Arnar Kristjánsson dró á dögunum í þingræðu í land frá þeim ummælum sínum á landsþingi Frjálslynda flokksins að stefna flokksins væri "hófleg stóriðja" með álverum. Frambjóðendur flokksins hafa tekið upp græna úðabrúsa til að úða á sig.

Raunar er samt svo að sjá hjá bæði frjálslyhndum og Samfylkingunni að haldið sé opnu fyrir álver á Húsavík.

Ótti við hreyfingu á kjósendum skín út úr viðleitni sumra Sjálfstæðismanna eins og Guðlaugs Þ. Þórðarsonar og Illuga Gunnarssonar til að byrja að setja græna slikju á bláa litinn sinn.

Svonefnd "lítil" ný framboð, jafnvel ófædd, geta haft áhrif. Dæmi: Þjóðvarnarflokkurinn fékk tvo þingmenn 1953 og 10,5 prósent í bæjarstjórnarkosningum 1954. Vinstri flokkarnir urðu hræddir og samþykktu í mars 1956 að senda herinn úr landi, - stjórnin féll í framhaldinu.

Þjóðvarnarflokkurinn missti bitið við þetta, það var búið að stela stefnunni frá honum og hann rann inn í Alþýðubandalagið áratug seinna.

Vinstri stjórnin heyktist samt á því að reka herinn og bar fyrir sig versnandi horfur í alþjóðamálum, innrásir í Ungverjaland og Egyptaland.

Klofhingsframboðið Samtök frjálslyndra og vinstri manna felldu viðreisnarstjórnina 1971 á landhelgismálinu. Landhelgin var færð út en Sjálfstæðismenn tóku síðan landhelgismálið upp á sína arma og færðu landhelgina enn meira út í þorskastríði númer tvö.

Lærdómur: 1. Lítil ný framboð geta haft áhrif. 2. Gömlu flokkarnir bregðast þá við með því að taka mál þeirra upp á sína arma, - if you can´t beat them, join them.  3. En gömlu flokkarnir sitja um tækifæri til að svíkjast undan merkjum ef mögulegt er.

Nú er spuringin: Hreyfist einhver í Framsóknarflokknum? Einu sinni hafði sá flokkur á sér grænan lit með Eystein Jónsson formann framarlega í sveit íslenskra umhverfisverndarmanna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það virðist vera þannig að þegar fylgi fer að hrynja af flokkunum þá fyrst fara þeir að athuga hvað geti verið að. Varðandi stóriðjustefnuna, þá eru landsmenn búnir að sjá að þessi Kárahnjúkavirkjunina hefði aldrei átt að fara í. Landsspjöllin eru þvílík.

Atvinnustefna þaf ekki að vera slæm þó um stóryðju geti verið að ræða samanber hugsanlegt álver á Húsavík. Frjálslyndir og Samfylkingin halda þeim möguleika opnum að reisa þar álver vegna þess að þetta yrði gufuaflsvirkjun þar sem stöðvarhúsin eru sett ofáná borholurnar. Og línulögnin er á bilinu 30-50 kílótrar. Þar er ekki tugum kílómetrum af landssvæði sökkt í uppistöðulóni. Og gufuaflið er nýtt sem er bara jákvætt.

klakinn (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 22:37

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Það er gott að lesa athugasemd Kristinns hér að ofan. Virkilega gott að sjá hvað skilningsleysið er algert hjá þessum hópi þegar kemur að umhverfismálum.

Hvernig er hægt að segja að Kjalvegir væri umhverfisvænn? Jafnvel bót fyrir umhverfið?  Hvað um ferðamennsku? Kyrrð? Óbyggt umhverfi? Hvernig samræmist það umhverfisvernd að byggja uppbyggðan veg, a.m.k. 20 metra breiðan yfir allan Kjöl??

Fásinna......  "Er umhverfið eitthvað án mannsins"??  Er eitthvað að njóta Kristinn á hraðbraut annað en hávaði, mengun og lífshætta??

Baldvin Jónsson, 25.2.2007 kl. 22:52

3 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ómar, haltu ótrauður áfram. Þessar hræðsluraddir sem eru að verða háværari eru einungis merki um að þú sért á réttri leið.

Ég mun kjósa hægri græna eða jafnaðar græna og mjög margir í kringum mig. Ef vantar aðstoð þá er ég boðinn og búinn....

Baldvin Jónsson, 25.2.2007 kl. 22:57

4 identicon

Völdin eru ekki frátekin fyrir neinn - og alls ekki fyrir þær örfáu hræður sem stjórna flokkunum sem nú sitja á Alþingi.

Því er mjög haldið á lofti að ný framboð séu til einskis, einmitt af núverandi flokkum. Þeir reyna af öllum mætti að ýta undir aðgerðarleysi almennings og gera stjórnmál að áhorfendaíþrótt; "við keppum og þið klappið".  

Flokkarnir og flokkseigendur eru teknir að búa um sig á fulltrúasamkomunni og leitast við að halda öðrum frá. Lög um fjármál flokkanna bera því vitni. Hugmyndin var að opna bókhald flokkanna. Það varð svona frekar í skötulíki, en í forbifarten kræktu flokkarnir sér í 136 milljónir til viðbótar þeim 300 sem þeir höfðu áður. - Þeir hafa ekkert við almenning að tala meir því þeir þurfa ekkert á fólki að halda. Formaður og varaformaður nefndar sem undirbjó lagafrumvarpið gátu ekki svarað því hvers vegna sú upphæð varð fyrir valinu. Þeir bara notuðu tækifærið og tóku eina lúku fyrst þeir voru með hana í vasa almennings.

Áður höfðu flokkarnir þó komið því þannig fyrir að formenn stjórnmálaflokka sem ekki eru jafnframt ráðherrar fengju 50% álag á þingfararkaup. Þar með voru formenn stjórnarandstöðuflokka komnir á framfæri almennings. Sú ráðsnilld var reyndar hluti af alræmdu frumvarpi um eftirlaun sem varð að lögum á fyrsta þingi eftir síðustu alþingiskosningar. Lögum sem til stóð að almenningur væri búinn að gleyma þann 12. maí næstkomandi.

Nýliðinn landsfundur VG lagði sitt af mörkum til þeirrar gleymsku undir kjörorðinu "Allt annað líf". Nær hefði verið að hafa yfirskriftina "Allt annað lífeyriskerfi" í ljósi þess að flokkurinn ætlar að hylma yfir með sínum dýrlega formanni, fremur en að skera upp herör gegn spillingu og forréttindahyggju. Slíkur flokkur er ótrúverðugur, sama með hvaða lit hann vill skreyta sig.

Nýtt framboð er hið besta mál.  

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 00:08

5 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég er sammála Kristni um ,að hálendisvegur um Kjöl og Spengisand er umhverfisvæn framkvæmd.Það styttir vegalengdirnar,losar okkur við ryk  og drullu,en mest um vert er að koma þungaflutningum af hringveginum á hálendisvegina.Þar á ég við,að stórir hlutar af hringveginum eru stórskemmdir v/þungaflutninga (50-70 tonna) og breydd veganna er ekki nægjanleg og veldur fjölda slysa árlega.Viðgerðir á hringveginum eru taldar nema tugum miljarða,auk þess eru undirbygging vegarins víðast hvar er ekki miðuð við svona þungaumferð.Menn ættu að forðast öfgvar og reyna að horfa rökrænt á málin,þannig náum við best saman um úrlausnir í umhverfismálum.

Kristján Pétursson, 26.2.2007 kl. 00:18

6 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ómar (ásamt mörgum öðrum) hefur þegar bent á að það væri fyrir minna fé og án þess að hreinlega gefa einkaaðilum Kjalveg, hægt að stytta núverandi veg norður svo að ekki myndi muna nema um 20 km. frá styttingunni sem Kjalvegur gæfi.

Ég skil vel að norðanmenn langi að vera eitthvað fljótari í bæinn, en myndu Akureyringar samþykkja að setja veg í gegnum skrúðgarðinn af því að það myndi stytta svo gríðarlega vegalengdina til "hvert sem er" og draga þar með úr útblæstri Co2??

Það eru margir þættir sem spila saman í umhverfismálum. Losun koltvíoxíðs og flúors eru vissulega stór mál, en það að leyfa náttúrunni og hálendinu að vera einmitt það, náttúra og hálendi en ekki autobahn sem sker í sundur þessa dásamlegu ferðamannaparadís, er líka afar stór þáttur í umhverfismálum.

Ég er ekki öfgaverndarsinni eins og þú Kristinn ert að vísa til. Ég er þvert á móti á móti því að friðlýsa hálendið eins og margar raddir heyrast um núna og það m.a.s. í öllum flokkum. Ég hins vegar veit að t.d. mjög stór hluti ferðamanna sem koma hingað koma eingöngu vegna allrar þessarar tiltölulega óspilltu náttúru. Mjög stór hluti.  Og þeir skapa að sjálfsögðu miklar tekjur í þjóðarbúið, að sjálfsögðu mun heilbrigðari tekjur en stóriðjan.

Það er búin að vera þvílík gullöld fyrir verktaka landsins, er ekki kominn tími á að staldra aðeins við og þó ekki nema skipuleggja heildstætt hvað gerist næst?

Þó að það sé vissulega afturhvarf fyrir marga, þá vilja flest okkar stórflutningana af þjóðveginum sem mest má vera. Að leggja niður strandsiglingarnar á sínum tíma voru virkilega stór mistök og mun dýrari þjóðarbúinu heldur en ég held að nokkur hafi gert sér grein fyrir á þeim tíma.  Þjóðvegur 1 hefur verið nánast ókeyrandi á köflum undanfarin ár og stöðugt viðhald virðist litlu skila til úrbóta.

Út frá umhverfissjónarmiðum þá er því miður mikill útblástur spilliefna frá skipaumferð. En á móti væri hægt að draga verulega úr bæði loft- og hljóðmengun sem og sliti ásamt kostnaði vegna vegagerðar. Það er nefnilega líka mjög umhverfisvænt að draga úr bruðli.

Baldvin Jónsson, 26.2.2007 kl. 08:44

7 identicon

Að gera Kjalveg og Sprengisandsleið að heilsárs uppbyggðum vegum og með bundnu slitlagi er að mínu mati eins og hver önnur stórvirkjun á hálendinu.

Þegar nánast öll þungaumferð til stærri byggðakjarnanna á norður og austurlandi er komin á þannig vegi þá er öræfakyrrð og tign hálendins endanlega rofin og eyðilögð.

40 - 60 tonna flutningatrukkar rymjandi allan sólarhringinn á hálendinu þar sem hávaðinn berst tugi kílómetra er vægast sagt ekki það sem sóst er eftir fyrir utan sjónmengunina sem verður á landslaginu. Olíustybba og mengun leggst yfir öræfin.

Í fyrstu einfaldir vegir með bundnu slitlagi og síðan síauknar kröfur um fullkomnari hraðbrautir o.s.frv. 

Menn tala um að þetta verði umhverfisvænna þar sem vegalengdir styttist. Það er nú einusinni svo að þegar eitthvað verður auðveldara og ódýrara þá leiðir það til aukningar á neyslunni,umferðin eykst en minnkar ekki.

Látum hálendið í friði það er meira en nóg komið af mannanna raski þar. 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 10:21

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er misskilningur að ég hafi hafnað alfarið með "öfgum" vegagerð yfir Kjöl. Ég fellst á vegagerð í svipuðum dúr og við norðanverða Þingvelli, malbikaðan ferðamannaveg.

Norðurvegur gerir ráð fyrir að aðeins hluti þungaumferðar muni fara um Kjöl. Það leysir því engan veginn þann vanda sem blasir við að lagfæra verður hringveginn á stórum köflum hvort eð er. Í leiðinni er hægt að stytta hann svo mikið að styttingin yfir Kjöl yrði í raun aðeins um 20 kílómetrar.

Þegar menn tala um álver á Húsavík er horft fram hjá því að Þeystareykir plús núverandi borsvæði nægja hvergi nærri heldur verður að fara í ný borsvæði og allt mun þetta stórauka umhverfisröskun á svæði sem hefur í sér gríðarlega möguleika sem einstætt skoðunar - og upplifunarsvæði þar sem fólk getur upplifað eldgos og ferðir til mars.

Það þarf ekki annað en heyra hræðsluáróðurinn sem nú er hafður uppi um álverið í Straumsvík til að sjá í hvað muni stefna á Húsavík: Stefnt verður að risaálveri sem mun þurfa alla jarðhita og vatnsorku Norðurlands þegar upp verður staðið.

Ef djúpboranir gefa þann árangur sem vonast er til yrði hins vegar hægt að ná orkunni með margfalt minni umhverfisröskun. Þess vegna er skynsamlegt að bíða eftir útkomu þeirra, - orkuverðið getur ekkert gert nema hækka á meðan.  

Ómar Ragnarsson, 26.2.2007 kl. 10:21

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er sammála Kristni Péturssyni.

Það er ekkert óeðlilegt að "gömlu" flokkarnir séu hræddir við ný framboð. Mér finnst að almenningur ætti að vera það líka.  Ef þessi framboð ná, þó ekki nema 2-3 þingmönnum inn þá geta þau verið í lykilaðstöðu hvað stjórnarmyndun varðar. Þegar stofnuð eru samtök um jafn huglæg málefni og umhverfismál, þá er hætt við að ekki einu sinni umhverfisverndin, (sem þó er eini samnefnari þessa fólks) sé í raun að endurspegla skoðunn fólksins á umhverfismálum. Umhverfisvernd er ekki sama og umhvefisvernd. Þeir sem eru í forsvari fyirr svona samtök nýta sér að sjálfsögðu alla þá tækni og þekkingu sem til er í að matreiða hið "huglæga" mat, svo það falli sem flestum kjósendum í geð. Hættan er að þeim takist að klæða úlfinn í sauðagæruna og að kjósendur vakni svo upp við vondan draum þegar lagðarnir fara að týnast úr henni.

Tilfellið er að margir fá óbragð í munninn þegar umhverfissamtök, eins göfug og þau annars ættu að vera, beita sér í hinum ýmsu málum. Það sem knýr alþjóðleg umhverfissamtök, t.d. Greenpeace er gjarnan örvæntingafullt kapphlaup um fjármagn til að viðhalda tilvist sinni. Þeim verður ekkert heilagt í þeirri viðleitni og beita oft vafasömum aðferðum til þess. Tilgangurinn helgar meðalið. Í tifelli stjórmálasamtaka er það ekki leit að fjármagni sem knýr það áfram heldur leit að kjósendum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.2.2007 kl. 10:48

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er sammála Kristni Péturssyni.

Það er ekkert óeðlilegt að "gömlu" flokkarnir séu hræddir við ný framboð. Mér finnst að almenningur ætti að vera það líka.  Ef þessi framboð ná, þó ekki nema 2-3 þingmönnum inn þá geta þau verið í lykilaðstöðu hvað stjórnarmyndun varðar. Þegar stofnuð eru samtök um jafn huglæg málefni og umhverfismál, þá er hætt við að ekki einu sinni umhverfisverndin, (sem þó er eini samnefnari þessa fólks) sé í raun að endurspegla skoðunn fólksins á umhverfismálum. Umhverfisvernd er ekki sama og umhvefisvernd. Þeir sem eru í forsvari fyirr svona samtök nýta sér að sjálfsögðu alla þá tækni og þekkingu sem til er í að matreiða hið "huglæga" mat, svo það falli sem flestum kjósendum í geð. Hættan er að þeim takist að klæða úlfinn í sauðagæruna og að kjósendur vakni svo upp við vondan draum þegar lagðarnir fara að týnast úr henni.

Tilfellið er að margir fá óbragð í munninn þegar umhverfissamtök, eins göfug og þau annars ættu að vera, beita sér í hinum ýmsu málum. Það sem knýr alþjóðleg umhverfissamtök, t.d. Greenpeace er gjarnan örvæntingafullt kapphlaup um fjármagn til að viðhalda tilvist sinni. Þeim verður ekkert heilagt í þeirri viðleitni og beita oft vafasömum aðferðum til þess. Tilgangurinn helgar meðalið. Í tifelli stjórmálasamtaka er það ekki leit að fjármagni sem knýr það áfram heldur leit að kjósendum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.2.2007 kl. 10:48

11 identicon

Örlitlar leiðréttingar hjá þér Ómar.  Vinstri stjórn 1956 féll ekki vegna vanefnda að senda herinn burt, heldur að Alþýðusambandið samþykkti ekki stórfellda kjaraskerðingu sem Hermann Jónasson þá forsætisráðherra fór fram á, en var ekki samþykkt. Einnig má geta þess og oft gleymist að í þessari stjórn fór Lúðvík Jósepsson með sjávarútvegsmál, og fór fyrir stækkun landhelginar úr 3 í 12 mílur við litla hrifningu Sjálfstæðisflokksins, m.a. vegna NATÓ aðidar okkar. Nokkrum árum seinna var Lúðvík einnig í forsvari stækkunar landhelgi okkar í 50 mílur. Og 1971 er Viðreisnarstjórnin illræmda féll þar sem vinstri kratar voru orðnir þreyttir á þjónkun við íhaldið stofnuðu þeir Samtök frjálslyndra og vinstrimanna eins og þú réttilega segir frá . Aðeins 256 atkvæði færri og Alþýðuflokkurinn hefði horfið af þingi. Þannig fer fyrir þeim sem þjóna íhaldinu of lengi.(sbr, framsókn í dag ). En það er allt önnur Ella eins og sagt er. Get fyllilega verið sammála þér Ómar og segi eins og spakmælið greinir; Oft veltir lítil þúa þungu hlassi.  Með vinsemd og virðingu.

Þorkell Sigurjónsson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 11:02

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta með hávaðamengun og Kjalveg er einfaldlega rangt. Hávaðinn berst ekki tugi kílómetra. Í guðanna bænum hættið þessu bulli. Ég sá danskan fræðsluþátt um helgina þar sem fjallað var um þrumur og eldingar.  Þruma frá eldingu sem er væntanlega þó nokkrum desibelum hávaðasamari  en flutningabíll heyrist að hámarki 15 km. leið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.2.2007 kl. 11:04

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Gunnar, berst ekki hljóð eldingar 15 km. til allra átta?  Það þýðir sem sagt til að einfalda þetta 15 km. til hvorrar áttar sem gera þá 30 km. í heildina sem útleggst þá sem tugir kílómetra hefði ég haldið.

18 hjóla trukkur með 40-50 tonna lestun skapar alveg gríðarlegan hávaða.  Skiptir einhverju máli hvort að hávaðinn berst 20 eða 30 kílómetra?  Það er engu að síður mikil röskun.

Mér finnst annars samanburðurinn við Kvennalistann á sínum tíma sá eðlilegasti. Kvennalistinn þurfti að koma fram á sínum tíma til að þau málefni fengju alvöru umfjöllun í samfélaginu. Nú er svo komið að umhverfismálin þurfa virkilega á því að halda að hljóta almenna umfjöllun án þess að við hægri menn og/eða jafnaðarmenn afgreiðum það alltaf sem vinstra bull og lopapeysur.

Baldvin Jónsson, 26.2.2007 kl. 12:06

14 identicon

Það getur verið gaman að þessu. Ekki veit ég hvort Gunnar hafi reynslu af útivist á hálendinu bæði að vetri og sumri eða einhverja tilfinningu fyrir kyrrð öræfanna, utan bíldyra. Sennilega ekki miðað við viðbrögðin.

Bílalestir eins og við þekkjum þær bara nú þegar í dag á þjóðvegi 1  sem hvað þungaumferð snerti myndi ekki verða svona einn og einn bíll með tugi kílómetra millibili þarna á hálendinu. Á löngum tímabilum yrðu á ferðinni þessir risatrukkar í löngum lestum. Sennilega yrðu hundruð ferkílómetrar undirlagðir þessari hávaða og Co2 mengun ef grannt er hugleitt.

Höfnum þessum vegastórvirkjunum yfir hálendi Íslands um aldur og ævi. 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 12:36

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bóndi nokkur skrifaði athugasemd við blogg Ómars um Kjalveg fyrir nokkru. Hann sagðist búa í um 3gja km. fjarlægð frá þjóðvegi 1 og sagði að það raskaði ekki sveitakyrrðinni hjá sér. Í einstaka veðurskilyrðum heyrði hann þó veikan óm frá veginum. Þetta með samanburðinum á eldingu og flutningabíl átti að sýna hversu fjarstæðukenndar fullyrðingar ykkar eru? Tókst það virkilega ekki?

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.2.2007 kl. 12:46

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það vill nú svo til að ég hef töluverða reynslu af göngutúrum í náttúrinni, til fjalla og heiða. Einu skiptin sem ég hef pirrast yfir hávaða á þeim göngutúrum að vetrarlagi eru snjósleðamenn, sem sjálfsagt vilja láta kalla sig náttúruunnendur. En þá hafa þeir líka verið full nálægt mér, svona fyrir minn smekk. Með því að breyta stefnu minni í átt frá þeim hefur mér tekist að eyða þeim pirringi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.2.2007 kl. 12:55

17 identicon

Örlítil leiðrétting um eigin skrif vegna þúfunar góðu, en rétt skal vera rétt. Spakmælið góða skal vera: oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.

Þorkell Sigurjónsson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 13:04

18 identicon

Um leið og ljóst verður að ekkert nýtt framboð sé í burðarliðnum, þá munu flokkarnir hefja útsölu á stefnu sinni í umhverfismálum eða bjóða góðan afslátt. Sérstaklega framsókn og stjórnarandstöðuflokkarnir. Þeir færu að hafa sig til fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Þótt ætla mætti að nýtt framboð væri á einhvern hátt óviðeigandi dónaskapur, þá er það ekki svo. Öllum er frjálst að bjóða fram til Alþingis - og vonandi er stöðnunin ekki orðin svo rótföst að enginn þori að láta verða af því. Þá væri illa komið fyrir landsmönnum.  - Núverandi flokkar eiga ekki kjósendur nema tiltölulega fámennan hóp flokkshesta og trúfífla. Kjósendur eiga sig sjálfir.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 14:29

19 identicon

Sæll Ómar

Af hverju segir þú "hræðsluáróðurinn" þegar þú talar um Straumsvík.  Þú veist að það var leiðrétt sem Jón Baldvin hélt fram um að raforkusamningar í Straumsvík væru bundnir til 2024.   

Þú veist að það er árið 2014 sem raforkuverð í Straumsvík verður endurskoðað.

Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson

Starfsmaður Alcan

Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 21:37

20 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Verðum við á endanum náttúrulausir Ómar??

Jón Sigurgeirsson , 26.2.2007 kl. 23:38

21 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Vegurinn yfir Kjöl hefur ekki það eina markmið að stytta leiðina til Reykjavíkur sú hugmynd fjallar líka um að tengja dreifbýlið á Norður og Suðurlandi. Það er dálítið langt að þurfa að aka hálfann hringinn í kringum landið til að komast á áfangastað. Það eru ekki alltaf allir á leið til Reykjavíkur.

Hvað varðar Þeistareyki og nýtingu orkunnar þar sem vegna misskilnings fólk tengir við Kárahnjúkavirkjun er líka til aðgerðaráætlun til mótvægis. Ég skil höfuðborgarbúa ágætlega sem sjá fyrir sér þann nálapúða sem Hellisheiðin er en það má ekki gleyma því að það eru uppi áætlanir um háhitasvæðin í kringum höfuðborgina. Menn hafa "gleymt" bakgarði höfuðborgarinnar þar sem er ægifögur náttúra rétt við höfuðborgarsvæði sem er afar mikilvægt að varðveita. Reykjavík hefur verið sérstök vegna nálægðar sinnar við náttúruna en þetta er óðum að hverfa. Hrópin og köllin eru yfirleitt um svæði sem eru langt í burtu en menn sofa á verðinum við sitt eigið umhverfi og hafa menn stundum notað rökin að það hafi "ekki verið tími til" að sinna þeim. Hvernig væri að menn gæfu sér tíma til þess?

Hvað varðar ný framboð þá má minna menn á að allir stjórnarandstöðuflokkarnir eru til þess að gera "ný framboð" á Alþingi sem aldrei hafa náð þar völdum. Það má vel vera að mönnum finnist full ástæða til að fjölga stjórnarandstöðuflokkum á þingi og það henti best að vera á móti ein væri nú ekki ráð að fara að koma einhverju öðru en Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til valda?

Lára Stefánsdóttir, 26.2.2007 kl. 23:40

22 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðrétting vegna leiðréttingar. Ég sagði aldrei að vinstri stjórnin hefði fallið vegna vanefnda í hermálinu heldur að stjórnin hefði heykst á því að reka herinn. Árangurslaus ferð Hermanns Jónassonar forsætisráðherra á ASÍ-þing haustið 1958 varð banabiti stjórnarinnar.

"Engin samstaða er um ráðstafanir í efnahagsmálum" sagði Hermann þegar hann sagði af sér og minnihlutastjórn Emils Jónssonar tók síðan við rétt fyrir jól.

Hermálið felldi hins vegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vorið 1956 eftir að Framsóknarflokkurinn hafði í mars 1956 í samvinnu við vinstri flokkana samþykkt að reka herinn í mars.  

Ómar Ragnarsson, 27.2.2007 kl. 00:07

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er nú frekar ógeðfellt innlegg frá Agli Ibsen. Allir eiga að fá að segja sína skoðun án þess að vera brygslað um að vera að "gelta fyrir yfirmenn sína". Þið andstæðingar stækkunarinnar ættuð frekar að fagna sjónarmiðum frá "innanbúðarmanni".  Ber ekki  að líta á það sem fræðandi og upplýsandi innleg?

Ekki taka orð mín svo að ég sé á móti nýjum framboðum, ég fagna þeim. En hafa ber í huga að þegar stofnuð eru eins máls flokkar, þá eru gjarnan of ólíkar skoðanir um önnur mál til þess að þetta virki. Niðurstaðan verður pólitískt ábyrgðarleysi. Og hvað varðar umhverfismál þá er náttúruvernd skilgreiningar og smekksatriði hverju sinni. Að mínu mati má skipta umhverfisverndarfólki upp svipað og með grænmetisætur. Mig minnir að það séu til 5 flokkar grænmetisætna. Í harðasta flokknum er fólk sem borðar einungis grænmeti og þá bara þannig að viðkomandi planta lifir nýtinguna af. Svo stig mildast öfgarnar upp í "semi" grænmetisætur, fólk sem borðar kjúkling, fisk og mjólkurvörur, en megin uppistaðan þó grænmeti. Ekki bara það að fólk í svona einsmálsflokkum geti haft mismunandi áherslur í eigin málaflokki, heldur Guð hjálpi okkur þegar kemur að öðrum málefnum.

Og hvað varðar þessi nýju framboð Ómar, eins og Samfó og VG þá eru þetta auðvitað bara gömlu flokkarnir, Alþýðufl. og Aðþýðubandalag. Þegar tilvistarkreppa þeirra náði nýjum hæðum, þá var farið í einhverskonar "BOTOX" aðgerðir og sumir eru bara ekki gleggri en það að þeir þekkja þá ekki aftur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.2.2007 kl. 10:52

24 identicon

Sæll Ómar 

Ég ætla aðeins að ræða annað mál, en það er loftmengun í Reykjavík, enda er þetta eitt stærsta umhverfismál höfuðborgarsvæðis. Í raun ótrúlegt hvað lítið hefur verið rætt og gert hingað til, en menn frekar verið að amast við nýtingu hreinna orkugjafa. En það veit á gott þegar stjórnmálamenn eru byrjaðir að skoða þetta mál líka ! Nú þarf alvöru aðgerðir, banna nagladekk eða að viðkomandi borgi ríflega fyrir notkun. Ókeypis í strætó, t.d. í ár sem einskonar tilraun, eða ókeypis fyrir börn og eldri borgara til að minnka skutlið. Það sem snýr að samgöngum beint þarf að leggja fleiri hjólreiðastíga, þétta byggð (flugvöllinn til Keflavíkur þar sem næg aðstaða er nú þegar), sleppa öllum mislægum gatnamótum sem til stendur að leggja o.fl. Nú er spurning hvort pólitíkusar og umhverfisverndarmenn hafi það þor og þann dug til að láta hendur standa fram úr ermum í þessu einu mesta hagsmunamáli borgarbúa. Nú segja margir að umhverfismál brenna á þjóðinni, því ætti það að vera létt verk að fá fólk til að samþykkja þessar aðgerðir.

Eru þessar tillögur eitthvað sem fólk/kjósendur geta samþykkt? 

Það merkilega er að ég hef minnst á þetta á bloggsíðum Vinstri-græna fleiri góðra umhverfismanna en aldrei fengið neinar undirtektir. Það er eins og öllum tímanum er alltaf eytt í það sama, virkjanamál og stóriðju, nú síðast arðsemi Kárahnjúka !!! 

Með bestu kveðju, Gísli Tryggvason, íbúi í Kópavogi

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 11:43

25 identicon

Umhverfisverndarsamtök hafa ekki síður barist fyrir verndun náttúru í nágrenni Reykjavíkur. Skemmst að minnast baráttu sem enn stendur yfir vegna ásælni Orkuveitunnar í lítt röskuð svæði. Þannig hefur verið tekist á um Blikastaðakró/Leiruvog sem er yndislegt svæði innan Reykjavíkur, á náttúruminjaskrá. Margir fundir hafa verið haldnir til að vekja athygli á þeim miklu möguleikum sem felast í eldfjallagarði á Reykjanesskaga og hvergi slegið af. Verið er að berjast við að koma Hitaveitu Suðurnesja burtu frá Krísuvík þar sem þeir eru að fara að hefja "rannsóknarboranir" - ályktanir og áskoranir um háspennulínur, náttúruminjar.... Lára það er slæmt að fréttaflutningur á Akureyri skuli bara snúast um aðgerðir sem snúa að NA kjördæmi eða er heyrn og sjón bara tekin að litast af framboðsfíkn?

Ásta (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 22:15

26 Smámynd: Stefán Stefánsson

Ég tek undir það að innleggið frá Agli Ibsen er ógeðfellt.
Málflutningur Tryggva L. Skjaldarsonar er góður og hann fjallar um staðreindir málsins af þekkingu. Það er nefnilega nauðsynlegt að báðar hliðar málsins fái að koma fram og það þarf ekkert að fela. Fólk á að fá réttar upplýsingar.


Gísli segir að flugvöllurinn eigi að fara til Keflavíkur. En ef svo verður mun innanlandsflugið hreinlega leggjast af. Það er nú ekki flóknara en svo.

Já, það er undarlegt hvað "umhverfissinnar" hafa sofið á verðinum varðandi náttúruna í nágrenni Reykjavíkur..... ég verð að segja það.. eins og maðurinn sagði..   

Stefán Stefánsson, 28.2.2007 kl. 00:24

27 identicon

Sæl Ásta og þið öll. 

Ég þakka fyrir að hér sé vakin athygli á því að lengi hefur verið barist fyrir umhverfisvernd í nágrenni höfðuborgarinnar og á Suð-Vestur horni landsins.  Það  hefur ekki gleymst, en því miður hafa margir gleymt að hlusta.  Að rannsóknum og ályktunum hafi margir sérfræðingar og unnendur óspilltrar náttúru komið.  Það er hins vegar staðreynd að sú barátta og mikla vinna sem lögð hefur verið í að vekja athygli á merkum stöðum svæðisins hefur fallið í skuggan af umfjöllun um þau stórfelldu skemmdarverk sem unnin hafa verið fyrir stóriðju Alcoa á Reyðarfirði.

Vissulega má taka undir orð þín Stefán um að margir hafi sofið á verðinum, og við það má bæta að stundum hefur umræða um auðlyndanýtingu og verndargildi óspilltar náttúru verið á frekar "lágu plani".

Þá langar mig að koma því að enn og aftur að hagsmundir landsbyggðar og höfuðborgarbúa um blómlega byggð og gott mannlíf um allt land ætti að vera sameiginlegt baráttumál okkar allra.  Okkur kemur við  hvernig farið er með manngildi, auðlyndir og náttúru Íslands, hvar sem við búum.

Aðeins að Reykjavíkurflugvelli.  Á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega  í Reykjavík, virðist hafa náðst einhverri stemming fyrir því að nauðsynlegt sé að flytja flugvöllin burt en hvert virðist ekki á hreinu.  Þrátt fyrir þessa "stemmingu" hef ég það einhvernvegin á tilfinningunni að þeir sem hafi gengið í þennan "kór" geri sér ekki grein fyrir mikilvægi þess flugvöllurinn verði áfram sem næst þjónustunni, hátæknisjúkrahúsum og stjórnsýslu.  Farþegafjöldi um flugvöllinn segir sína sögu.

Satt að segja finnst mér að þeir sem hafa hagsmuna gæta í þessu sambandi ættu  að láta meira til sín heyra.  Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og Reykjavíkurflugvöllur ekki einkamál Reykvíkinga frekar en að víðerni Snæfells séu einkamál Austfirðinga.            

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband