1.11.2013 | 10:09
Hreinskilnisleg játning.
Algengustu viðbrögð fólks við Hruninu hvað snerti hegðun þess sjálfs í aðdraganda þess, eru þau að það hafi verið fórnarlömb græðgi annarra en ekki sjálfs sín. Orðið "forsendubrestur" hefur líka verið mikið notað um það þegar farið var út á ystu nöf og jafnvel lengra við skuldasöfnun en síðan hefðu allar forsendurnar breyst.
Megin forsendan fyrir glæfralegustu fjárfestingunum var óheyrilega hátt gengi krónunnar, sem flestum mátti vera ljóst að gæti ekki staðist til lengdar, þótt engan óraði fyrir því hve langt hafði verið gengið við að spenna upp ósjálfbæra þenslubólu með bókhaldskúnstum af áður óþekktri stærð.
Hið háa gengi krónunnar, allt að 30-40% hærra en raunhæft var, skapaði langstærsta neyslufyllerí allra tíma hér á landi ásamt þvílíkri skuldasöfnun, að skuldir heimilanna fjórfölduðust á nokkrum árum og sömuleiðis skuldir fyrirtækjanna.
Það var fullkomlega óeðlilegt að slíkt skuldafyllerí ætti sér stað í því sem virtist vera mesta góðæri (gróðæri) allra tíma. Þvert á móti hefði þessi tekjuaukning átt að nýtast til að greiða skuldir niður.
Þeir, sem tóku stærstu lánin og fjárfestu mest, tóku mjög mikla áhættu, en á þessum tíma var blásið á alla gagnrýni og ábendingar þess efnis að verið væri að byggja spilaborg eða blása upp efnahagslega sápukúlu sem hlyti að springa.
Játning Runólfs Ágústssonar er óvenjuleg þessi misseri sem allir reyna að sverja af sér þátttöku í því, sem skóp Hrunið. Að sönnu eru tugþúsundir Íslendinga sem urðu fyrir "forsendubresti" og tóku ekki þátt í dansinum um gullkálfinn, en hinir eru líklega fleiri sem létu græðgina blinda sig.
Viðskipti gerð í anda græðgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Heildarskuldir íslenskra fyrirtækja í árslok 2008 voru að sögn Ríkisskattstjóra 22.675 milljarðar króna, andvirði 170 Kárahnjúkavirkjana.
Þorsteinn Briem, 1.11.2013 kl. 10:22
20.8.2009:
"Skuldir íslenskra heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum voru 272% um síðustu áramót [í árslok 2008] en til samanburðar var þetta hlutfall 178% árið 2000 og hefur því hækkað um 94%."
Skuldir íslenskra heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum tvöfalt meiri en spænskra heimila
Þorsteinn Briem, 1.11.2013 kl. 10:30
Segjum að laun hjúkrunarfræðings á Íslandi og í Noregi hafi verið þau sömu fyrir hrun en eftir hrun hafi laun þess norska verið 50% hærri en þess íslenska.
Segjum svo að fyrir hrun hafi maður nokkur tekiðverðtryggt íslenskt lán að andvirði 20.þúsund vinnustunda hjúkrunarfræðings.
Hversu hátt er þá lánið eftir hrun? Er það 20.þúsund vinnustundir íslensks hjúkrunarfærðings, eða 30 þúsund vinnustundir? (þ.e. 20þ vinnustundir norsks)
Hér hefur verðtryggingarvítisvélin verið látin virka svo að sá sem lánar hefur allt sitt á þurru þó að hagkerfið hafi skroppið saman. Eðlilegast hefði kanski verið að meta lánið sem hutfall af hagkerfinu.
Sá sem hagaði sér þó af einhverri skynsemi fyrir hrun og tók íslenskt verðtryggt án fremur en gengistryggt lán, er í verri málum en margur sem tók gengistryggt. Það kom í ljós að ólöglegt var að binda lán við aðra mynt en samt viðgengst það á einhvern undarlegan hátt í sambandi við verðtryggðu krónuna.
Sá sem fer á neyslufyllerí og getur ekki greitt af sínum lánum á auðvitað að fara á hausinn. En er ekki eitthvað bogið við þá hagspeki að ætla að velta samdrætti hagkerfisins eingöngu á skuldara?
Eðlilegast er að leiðrétta stökkbreytinguna og láta menn svo sigla sinn sjó, í stað þess að gera menn fyrst að aumingjum og ætla svo að hjálpa,kanski.
Ps. Runólfur Ágústsson skuldar mér enn tíkall frá því við vorum saman í menntaskóla fyrir um 30 arum, spurning hvort þetta sé verðtryggt og með hvaða vöxtum:-)
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.11.2013 kl. 11:05
Játning og viðbrögð Runólfs voru all ólík bullinu og "self-deception"Vilhjálms nokkurs Þorsteinssonar fyrir fáeinum dögum varðandi stöðutöku gegn krónunni. Sjá "link".
http://blog.pressan.is/vthorsteinsson/
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.11.2013 kl. 11:07
Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð búa milljónir manna í hverju landi fyrir sig og þessi ríki eru með sterka gjaldmiðla. Danska krónan er bundin gengi evrunnar og Finnland er á evrusvæðinu, þar sem um 330 milljónir manna búa, fleiri en í Bandaríkjunum.
Íslenska ríkið er hins vegar með mjög veikan gjaldmiðil.
Stýrivextir eru nú 1% í Svíþjóð, 1,5% í Noregi en 6% hér á Íslandi.
Og nú í september mældist tólf mánaða verðbólga 0,1% í Svíþjóð og 1,7% í Noregi en 3,9% hér á Íslandi.
Stýrivextir á evrusvæðinu eru nú 0,5% og verðbólga 0,7%.
Við Íslendingar flytjum mest af okkar vörum til evrusvæðisins og kaupum einnig mest þaðan.
Við eigum því að fá greidd laun okkar hér á Íslandi í evrum og greiða hér fyrir vörur og þjónustu í evrum, rétt eins og erlendir ferðamenn hér á Íslandi, sem búa á evrusvæðinu.
Við Íslendingar höfum enga góða ástæðu til að skipta hér evrum í íslenskar krónur og þeim svo aftur í evrur með tilheyrandi gríðarlegum kostnaði.
Euro coins - National sides
Þorsteinn Briem, 1.11.2013 kl. 11:24
Hlutfall evrusvæðisins í útflutningsvog Seðlabanka Íslands árið 2010, byggðri á vöruviðskiptum árið 2009, var 60% og hlutfall allra Evrópusambandsríkjanna er að sjálfsögðu hærra.
Árið 2009 komu 65% af innflutningi okkar Íslendinga frá Evrópska efnahagssvæðinu og þá fóru um 84% af útflutningi okkar þangað.
Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu er Ísland nú þegar 80% í Evrópusambandinu og kjör íslenskra bænda væru ekki verri ef Ísland væri að öllu leyti í sambandinu.
Of langan tíma tæki að flytja mjólk frá öðrum Evrópulöndum hingað til Íslands með skipum og of dýrt að flytja mjólkina hingað með flugvélum.
Ostar frá Evrópusambandsríkjunum yrðu hins vegar ódýrari í verslunum hér en þeir eru nú en tollar féllu niður á öllum íslenskum vörum í Evrópusambandsríkjunum, til að mynda lambakjöti og skyri.
Verð á kjúklingum frá Evrópusambandsríkjunum myndi einnig lækka í íslenskum verslunum en kjúklingar og egg eru hins vegar framleidd hér í verksmiðjum.
Tollar á öllum vörum frá Evrópusambandsríkjunum féllu niður hérlendis, til að mynda 30% tollur á kjúklingum og eggjum, 20% á sætabrauði og kexi, 15% á fatnaði og 7,5% á heimilistækjum.
Þar af leiðandi myndi rekstrarkostnaður íslenskra heimila lækka verulega, einnig heimila íslenskra bænda.
Vextir myndu einnig lækka verulega hérlendis og þar með kostnaður íslenskra bænda, bæði vegna lána sem tekin eru vegna búrekstrarins og íbúðarhúsnæðis.
Þorsteinn Briem, 1.11.2013 kl. 11:29
Á sínum tíma kom eg með tillögu á aðalfundum og hluthafafundum nokkurra fyrirtækja sem eg átti hlut í en eru nú einskis virði:
Eg vildi takmarka atkvæðarétt við tvö mjög einföld skilyrði:
1. að hlutafé hefði verið greitt raunverulega til fyrirtækis, og:
2. að hlutafé hafi ekki verið veðsett.
Í öllum hlutafélögunum var tillagan kolfelld! Braskaranir sáu sæng sína útbreidda!
Eg gleymi því aldrei þegar eg bar þetta mál undir Árna Vilhjálmsson heitinn stjórnarformann HBGranda og fyrrum prófessor við Viðskiptafræðideild HÍ. Augu hans ljómuðu bæði og tjáði mér að ef þetta væri í samþykktum hlutafélaga, þá yrði ekkert brask á ferðinni. Síðar sagði hann mér á hluthafafundi í HBGranda að ef þessi hugmynd mín hefði verið viðurkennd, hefði aldrei komið til kollsteypunnar.
Eg hefi kynnt og „agítérað“ mikið fyrir þessari tillögu en hvarvetna hefi eg mætt tortryggni og andúð. Hún hefur fallið í grýtta jörð.
Á einum hluthafafundi las eg upp úr „Bréfi til Láru“ eftir Þórberg Þórðarson. Það var á einum síðasta hluthafafundi Atorku sem gleypt var af bröskurum. Kaflinn sem upp var lesinn fjallaði um skósmiðinn sem þjóðfélagið krefur 4ra ára skólagöngu áður en honum sé treyst fyrir skósólum landsmanna. En engar kröfur eru gerðar til þeirra sem reka togaraútgerðir eða banka, þar gilda önnur viðhorf. Enda fara slíkar forréttin gar auðveldlega á hausinn. Þessi kafli er einn af hápunktunum í „Bréfi til Láru“, einni merkustu bók íslenskra bókmennta sem eg þarf að lesa mér til skemmtunar öðru hverju.
Þessi bók „Bréf til Láru“ ásamt „Orð skulu standa“ ævisaga Páls Jónssonar vegfræðings sem Jón Helgason færði í letur að vera skyldulesning allra þeirra sem láta sér detta í hug að bjóða sig fram við kosningar til Alþingis ellegar sveitarstjórna.
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 1.11.2013 kl. 18:59
Smáviðbót:
Þeir bræður sem kenna sig við Bakka hafa verið ákærðir og er mál þeirra núna fyrir dómstólum akkúrat vegna fyrra skilyrðisins sem eg vildi setja fyrir virkum atkvæðisrétti.
Þeir juku hlutafé Exista um 50 milljarða án þess að ein einasta króna væri greidd til félagsins!
Guðjón Sigþór Jensson, 1.11.2013 kl. 19:10
Góður pistill, Guðjón Sigþór.
Sömuleiðis, góðar stundir og kveðja frá Hellas.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.11.2013 kl. 19:11
Takk fyrir góðan pistil Ómar og sömuleiðis takk Steini Briem fyrir snögga tölfræði á umræddum stærðum og staðreindum. Að lokum takk fyrir Guðjón fyrir heiðarlega baráttu.
Gunnar Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.11.2013 kl. 23:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.