1.11.2013 | 17:11
Tjörueðjan dregur úr hemlunar- og stýrigetu.
Enn hafa ekki fundist ráð til að framleiða hjólbarða sem hafa jafn mikið grip á hálu svelli og negld dekk. En í öðrum skilyrðum eru ýmis ónegld dekk jafn góð eða jafnvel betri.
Í upptalningu vegna neikvæðra áhrifa naglanna á götur Reykjavíkurborgar gleymist að geta þess, að þegar naglarnir rífa malbikið upp, sem að mestu leyti er því að kenna að ekki er nógu gott efni í götunum, myndast sleip tjörueðja á götunum sem einnig sest á dekkin.
Það veldur því að grip dekkjanna minnkar og dregur úr stýrigetu og hemlun auk þess sem eðjan sest á rúður og rúðuþurrkur og dregur úr útsýni.
Þegar jöklajeppum er ekið í jöklaferðalög, stansa menn oft þar sem bundna slitlagið endar og þvo dekkin með spritti til að auka gripgetuna.
Miðað við saltaustur á götur borgarinnar ættu negld dekk að vera óþörf innan borgarmarkanna.
Ég hef fengið orð í eyra fyrir að eiga jöklajeppa sem eru með neglda hjólbarða og sagt að ég sé ósamkvæmur sjálfum mér. Þessa jeppa nota ég hins vegar aðeins í jöklaferðir sem hafa undanfarinn áratug verið að meðaltali ein á ári.
Þess utan ek ég þessum bílum nokkra kílómetra einu sinni í mánuði til að halda þeim við.
Akstur minn á negldum dekkjum á götum borgarinnar er því varla meira en 200 kílómetra á ári af þeim um það bil 25 þúsund kílómetrum sem ég ek, eða 1 % af árlegum akstri, því að alla jafna ek ég á ónegldum hjólbörðum á örbílum mínum.
Tveir jöklajeppar sem ég ók á árum áður fuku á hálu svelli eftir og eyðilögðust eftir að þeir voru seldir og oft eru svell hálust og blautust neðst á jöklunum á vorin og snemmsumars.
Þess vegna fer ég oftast í slíkar ferðir á negldum dekkjum, þó ekki alltaf. Síðustu jöklaferð fór ég til dæmis á ónegldum 33ja tommu dekkjum á minnstu og léttustu gerð af Suzuki Vitara.
Nagladekk leyfileg en óæskileg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Allt er hér nú tjaran tóm,
tvistið margt á svelli,
góðan öll við gerum róm,
að gömlum ellismelli.
Þorsteinn Briem, 1.11.2013 kl. 17:36
Ég á einn bíl og hann er á ónegldum heilsársdekkjum. Ég ek 0km á negldum dekkjum innan sem utan borgarinnar. Ég framleiði 200km minna svifrik en hinn umhverfisvæni Ómar Ragnarson innan borgarinnar, en utan borgarinnar framleiði ég óendanlega minna svifrik en Ómar Ragnarson.
Á 33 tommu dekki
Í svif og reykjar mekki
Þar Ómar Ragnarson ég þekki.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.11.2013 kl. 23:52
Ómar, það er sjálfsagt að jöklajeppi sé á negldum dekkjum. Líka kjósa nagladekk á veturna við heimskautsbaug, eins og annan viðeigandi öryggisbúnað. Hver og einn á ekki að þurfa að lenda í slysi til þess að sannfærast, af nægum dæmum er að taka.
Þvottur dekkja með White Spirit er hið besta mál og gott væri að kenna nýjum kynslóðum þetta svo að athöfnin falli ekki í gleymsku.
Svifryk ber að hreinsa almennilega og reglulega af stofnbrautum, en ekki gefast upp fyrir því, eins og gerist gjarnan. Margar eru orsakirnar og síðustu árin bættist flugbeitt eldjallarykið í hauginn. Stórir flutningabílar hafa sín áhrif og varla markar fisléttur Vitara bíllinn þinn mikið í malbikið hvort eð er, nema það sé blandað með lýsi eins og olíumölin í Húnavatnssýslunni um árið.
Vel má lágmarka neikvæð áhrif nagladekkjanotkunar en hámarka öryggi með notkun þeirra dekkja. Úthverfi eru ekki í tísku hjá (vonandi) fráfarandi borgarmeirihluta, en þar er nauðsynlegt að vera á nagladekkjum til þess að komast af.
Ívar Pálsson, 2.11.2013 kl. 12:50
Allir í úthverfum Reykjavíkur eru sem sagt á nagladekkjum.
Þorsteinn Briem, 2.11.2013 kl. 14:04
Samkvæmt skilningi Rafns Haraldar ætti ég ekki að fara öðruvísi út úr húsi en gangandi eða hjólandi. Því að um leið og ég ek af stað, hvernig sem bíllinn er dekkjaður, þyrla ég upp svifryki og hætti að vera umhverfisvænn.
Hvað snertir 200 kílómetrana í, eða um 1% af akstri mínum í borginni, gildir gamla máltækið: "Það er lítið sem hundstungan finnur ekki."
Ómar Ragnarsson, 2.11.2013 kl. 14:05
30.10.2013:
Harðkornadekk gera naglana óþarfa
Þorsteinn Briem, 2.11.2013 kl. 15:18
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.11.2013 kl. 16:17
"Harðkornadekk eru reynd og rannsökuð við allar aðstæður og hafa staðist ströngustu gæðapróf.
Starfshópur samgönguráðs komst að þeirri niðurstöðu árið 2009 að harðkornadekk væru bestu vetrardekkin fyrir aðstæður á SV-horninu.
Ráðið hvatti til þess að unnið yrði að því með fræðslu og áróðri að harðkornadekk kæmu í stað nagladekkja.
Vegslit af völdum harðkornadekkja er 14 sinnum minna en af nagladekkjum."
Harðkornadekk gera naglana óþarfa
Þorsteinn Briem, 5.11.2013 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.