3.11.2013 | 01:29
Staða hlutlausra þjóða er oft erfið.
Það getur verið vandasamt fyrir ríki að stunda hlutleysisstefnu og Svíar hafa ekki farið varhluta af því.
Þegar Rússar réðust á Finna í vetrarstríðinu 1939-40 hugðust Bretar og Frakkar ráðast inn í Norður-Noreg og Norður-Svíþjóð og leggja undir sig leiðina frá Narvik til Kirjálabotns, þannig að Þjóðverjar fengju ekki nauðsynlegt járn frá námunum í Kiruna og Gellivara.
Þetta yrði gert án þess að Norðmönnum eða Svíum yrði sagt stríð á hendur og vonast til að þessar þjóðir sættu sig við gerðan hlut, enda var yfirvarpið það að senda herlið til Finnlands til að hjálpa Finnum í stríðinu við Rússa.
Fram að þessu höfðu Norðmenn og Svíar ekki tekið í mál annað en að selja hverjum, sem vildi, járnið og flytja það til hafnanna, þar sem það yrði flutt til Þýskalands.
Bretar og Frakkar urðu of seinir til að framkvæma áætlanir sínar vegna þess að Finnar gáfust upp fyrir Rússum og sömdu við þá frið.
Eftir að Þjóðverjar fóru í stríð við Rússa kröfðust þeir þess að fá að flytja herlið frá Noregi til Finnlands í gegnum Svíþjóð. Svíar voru í vonlausri stöðu til að neita þessu, vegna þess að land þeirra var umkringt af löndum, sem Þjóðverjar ýmist réðu yfir eða voru í bandalagi við Þjóðverja.
Komið hefur í ljós að ákveðin samvinna var á milli NATO og Svía á árum Kalda stríðsins, sem hefur sett hlutleysi þeirra á þeim árum í sérstætt ljós.
Svisslendingar áttu erfitt á stríðsárunum og í Þýskalandi var sagt í háði að ef Sviss ætti tvo fána, þennan venjulega og síðan annan fána, sem væri með hvítum krossi á hvítum fleti, og Svisslendingar myndu nota ef Þjóðverjar færu í hart við þá.
Á árum Kalda stríðsins urðu Finnar, lengst af undir forsæti Kekkonens, að sæta mikilli þvingun Rússa og fékk slík eftirlátsstefna hlutlausra þjóða alþjóðlega nafnið "Finnlandisering".
Bandaríkjamenn stunduðu sérkennilega hlutleysisstefnu á árunum 1939-1941 þangað til Þjóðverjar sögðu þeim stríð á hendur. Bandarískt hernám Íslands sumarið 1941 var í augum Hitlers ögrun, sem hann kvað Roosevelt hafa sýnt til þess eins að efna til ófriðar, en Þjóðverjar ekki látið freistast til að bregðast gegn.
Þetta mat Hitlers kom fram í ræðunni sem hann hélt þegar hann sagði Bandaríkjamönnum stríð á hendur 11. desember 1941.
Mýkjast í afstöðu sinni gagnvart NATO | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sænska ríkið getur alltaf reitt sig á "Evrópusambandsher" Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Briem, 3.11.2013 kl. 02:11
Frakkar höfðu enga aðstöðu eða flota til að aðstoða Norðmenn í striði þeirra við Hitlers-Þþýskaland.Bretar gerðu það sem hægt var á þeirri stundu.Það tókst ekki.Hrájarnið hélt áfram að streyma frá Svíþjóð til Þýskalands í gegnum Narvík allt til loka stríðsins.
Sigurgeir Jónsson, 3.11.2013 kl. 03:51
Rikissjórn íslands bað Bandaríkin að að koma til Íslands sumarið 1941, til að verja landið.Þýskland sagði ekki Bandaríkjunum stríð á hendur fyrr en eftir árás Japana á Havai.
Sigurgeir Jónsson, 3.11.2013 kl. 03:58
Á þeirri stundu ákváðu Rússar að færa sinn meginherstyrk frá Asíu vestur fyrir Ural.Það vita allir hvernig fór.
Sigurgeir Jónsson, 3.11.2013 kl. 04:24
Í Sörlaskjólinu eru Breimakettir algjörlega varnarlausir fyrir reglugerðarfargani ESB.
Sigurgeir Jónsson, 3.11.2013 kl. 04:37
„Hlutlausar“ þjóðir eru yfirleitt allt annað og sérstaklega Svíar með allt sitt stál, dýnamít og síðar herþotur og önnur vopn. Varla taldist staðan „erfið“ sem Svíar völdu sér, að sjá Þjóðverjum fyrir hergögnum vel inn í stríðið og síðan um allan hinn stríðandi heim allar götur síðan. Framsal fólks til Þjóðverja var algengt.
Sviss sem leynibankaland varð almennilega þannig á Nasistagulli eins og þeir viðurkenndu löngu síðar og er alls ekki vorkunn um erfiða stöðu.
Ívar Pálsson, 3.11.2013 kl. 11:38
Sigurgeir Jónsson hefur enn ekki fundið Enter-takkann.
Ísland er nú þegar 80% í Evrópusambandinu.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru ánægðir með reglugerðir Evrópusambandsins og samþykkja reglugerðirnar án þess að taka þátt í að semja þær.
Og hafa engan áhuga á að segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu frekar en aðrir flokkar sem sæti eiga á Alþingi.
Þorsteinn Briem, 3.11.2013 kl. 12:43
Það er rétt að íslenska ríkisstjórnin bað Bandaríkjamenn um að leysa Breta af með ýmsum skilyrðum, meðal annars að virða vopnleysi og hlutleysi Íslendinga og stuðla að sjálfstæði eftir stríð.
En ég var aðeins að lýsa því hvernig Hitler leit á málið, því að, eins og hann hugsaði, flaug honum ekki annað í hug en að Íslendingar hefðu verið þvingaðir til að biðja um Kanann.
Ómar Ragnarsson, 3.11.2013 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.