Mikilvægt menningarhlutverk í heila öld.

Það má ekki minna vera en að lesandi Morgunblaðsins í 66 ár óski blaðinu til hamingju með aldarafmæli sitt og þakki fyrir sig, svo stóran þátt hefur það átt í því að halda uppi fréttaflutningi, skoðanaskiptum og umfjöllun um hvaðeina sem getur aukið þá þekkingu sem nauðsynleg er fyrir gróandi þjóðlíf og lýðræði.

Lengst af á þessari aldar vegferð sinni hefur Mogginn borið höfuð og herðar yfir aðra prentmiðla og stundum svo mjög, að til varð fyrirbæri sem kalla mætti Moggaheilkennið og fólst í því að það skipti öllu máli fyrir afar marga, líka á samkeppnismiðlunum, hvort eða hvernig Morgunblaðið hefði fjallað um ákveðin málefni.

Stundum var reyndar sagt að það segði meira um hagsmunina að baki Morgunblaðinu um hvað blaðið þegði en hvað það segði.

Ritstjórarnir hafa verið öflugir svo lengi sem ég man. Eyjólfur Konráð Jónsson var merkilegur hugsjónamaður sem barðist fyrir dreifingu eignarhalds í formi almenningshlutafélaga, en því miður gerðist hið gagnstæða of víða í þjóðfélagi okkar svo að efnt var í bálköstinn sem brann til grunna í Hruninu.

En ég tel á enga hallað þótt sagt sé að Styrmir Gunnarsson og Matthías Jóhannessen hafi átt stærstan þátt í þeirri blómaöld Morgunblaðsins sem mestur ljómi leikur um.

Nefna má sem dæmi skrif þeirra og viðtöl sem mörg hver voru hafin upp fyrir flokkapólitík, sem þá tröllreið íslenskum blöðum og að þeir stigu það skref að skera á bein tengsl blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. 

Mest munaði þó um það að blaðið var opnað upp á gátt fyrir þjóðmálaumræðuna og þarf ekki annað en nefna einhverja áhrifamestu blaðagrein okkar tíma "Hernaðinn gegn landinu" árið 1970 eftir Halldór Laxness til að sjá hve miklu þetta skipti.

En dökkir skuggar finnast líka í sögu blaðsins varðandi beitingu þess í flokkspólitískun tilgangi, eins og til dæmis þegar Bjarni Benediktsson, annars öflugur ritstjóri og einn af merkustu stjórmálamönnum og lögspekingum þjóðarinnar, freistaðist til að beita því svo harkalega gegn vinstri stjórninni 1956 til 1959 að Ólafur Thors hafði síðar orð á því að heldur langt hefði verið gengið.

En Bjarna var vorkunn að því leyti að á þessum tíma var dagblöðunum, Alþýðublaðinu, Þjóðviljanum, Tímanum, Morgunblaðinu og Vísi , sem voru öll þá öll flokkspólitísk, beitt af mikilli hörku í stjórnmáladeilum.

Um leið og ég, ungur drengur, eignaðist smá peninga með blaðaútburði og blaðasölu gerðist ég áskrifandi að Þjóðviljanum til þess að ég gæti lesið mismunandi sjónarmið á heimili foreldra minna, sem tóku virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og voru auðvitað voru áskrifendur að Morgunblaðinu.

Þetta gerði ég ekki vegna þess að aðhylltist kommúnismann heldur til að kynnast gagnstæðum sjónarmiðum.

Ég tel að eitt varasamasta tímabilið í íslenska blaðaheiminum hafi verið í kringum síðustu aldamót, þegar Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn höfðu gefist upp og bæði DV og Morgunblaðið, sem eftir voru, voru í höndum ráðandi valdaafla í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Í lýðræðisríki verða gagnstæð sjónarmið að fá að birtast í fjölmiðlum, og að því leyti var tilkoma Fréttablaðsins nauðsynleg.

Að sama skapi er tilvera Morgunblaðsins nauðsynleg nú þegar Fréttablaðið hefur hvað magn og útbreiðslu snertir komist í svipaða aðstöðu og Morgunblaðið hafði áður.

Rétt eins og mér fannst það ekki skipta máli hverjir ættu og rækju Þjóðviljann þegar hann var öndverður póll við Morgunblaðið og Vísi, skiptir álit mitt á eignarhaldi Morgunblaðsins ekki máli varðandi tilvist þess, heldur vegur nauðsynin á framsetningu mismunandi skoðana þyngra.

Við þurfum minnst tvö eða þrjú dagblöð með ólíka sýn og skoðanir til þess að lýðræðið eigi lífsvon og þess vegna óska ég Morgunblaðinu, sem og keppinautum þess, velfarnaðar og þakka gamla Mogganum fyrir ómetanlegt framlag til íslenskra þjóðmála í heila öld.   

 


mbl.is Morgunblaðið 100 ára í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 13.11.2013 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband