12.11.2013 | 12:40
Einn af síðustu "ávölu" nýju bílunum 1957.
Dante Giacosa hét bílahönnuðurinn, sem hannaði Fiat bíla frá 1936 til 1972. Hann var snillingur í að hanna minnstu bíla fyrirtækisins eins og Fiat Topolino 500 frá 1936 ber vitni um.
Síðan komu bílar eins og Fiat 1400 árið 1950 og Fiat 600 árið 1956.
Um það leyti voru bílar í örri breytingu útlitslega í þá átt að vera kantaðir, og Bandaríkjamenn réðu þar ferðinni, en einnig kom við sögu ítalski hönnuðurinn Pinin Farina, sem hannaði meðal annars Nash 1952, sem var fyrsti fjöldaframleiddi fólksbílinn, þar sem "frambrettin" voru hærri en vélarhlífin.
Það kom því dálítið á óvart að Fiat 500, sem kom fram 1957, skyldi vera með ávalari línum en Fiat 600 og þeir bílar, sem þá voru nýir á markaðnum. Fiat 500 var eini nýi bíllinn á þessum tíma sem var alls ekki með framljósin skagandi fram úr framhornum bílsins, heldur með ávalt bogadregnar línur í ávölum framenda.
Eina eftirgjöfin var fólgin í örlítið framstandandi framljósum, en sú "villa" var síðan leiðrétt í nýja Fiat 500 sem er reyndar svo miklu stærri en fyrirrennarinn að við liggur að það sé um of.
Ávalar línur voru einfaldlega komnar úr tísku 1955, enda leið ekki nema rúmur áratugur þar til Fiatverksmiðjurnar neyddust til að láta breyta útliti minnasta bíls verksmiðjanna á róttækan hátt, svo púkalegur og úreltur í útliti þótti Fiat 500 vera.
Undirvagn, vél og driflína Fiat 126 voru hin sömu og á Fiat 500, en útlitið gerbreytt til að þjóna tískunni, enda entist Fiat 126 í 28 ár, eða tvöfalt lengur en Fiat 500.
En síðustu tvo áratugi hefur tískan sveiflast alla leið til baka og vel það, svo að núna þykja hinn upprunalegi Fiat 500 og ekki síður hinn nýi vera einhverjir allra fallegustu bílar allra tíma, - sá eldri meira að segja valinn kynþokkafyllsti bíll heims!
En Fiat 126 þykir hins vegar úreltur í útliti, og 3-4 faldur verðmunur er jafngömlum Fiat 500 og Fiat 126 frá 1972-1975, þeim eldri í vil.
Agnarsmátt listaverk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég bý í Austurríki og hér eru bílaáhugamenn mjög stoltir af "sinni" útgáfu af Fiat 500 en hér var hann framleiddur af Steyr-Daimler-Puch og seldur sem Puch 500. Þeir keyptu boddíinn af Fiat en settu sína eigin drifrás í bílinn og hér vilja menn halda því fram að Puch 500 sé miklu betri og skemmtilegri bíll heldur en orginalin. Vélin var líka 500cc en boxer í stað línu. Þeir smíðuðu líka í lokinn 126 bílinn með sömu drifrás.
http://de.wikipedia.org/wiki/Puch_500_(Kleinwagen)
Einar Steinsson, 13.11.2013 kl. 19:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.