Allt miðhálendið verði gert að einum þjóðgarði.

Í skoðanakönnun í hitteðfyrra kom í ljós að meirihluti var fylgjandi því að gera allt miðhálendið að einum þjóðgarði.

Það myndi hafa það í för með sér að ekki yrði lagt svonefnt mannvirkjabelti norður yfir Kjöl og Sprengisand.

Að vísu er þegar búið að höggva skarð í hugsanlegt svæði við Sprengisandsleið, vegna þess að svonefnd Kvíslaveita truflar þá aðgerð dálítið. Og Blönduvirkjun og Blöndulón höggva skarð úr norðri suður á Kjöl.

Á sínum tíma lagði Hjörleifur Guttormsson fram þingsályktunartillögu um að stórjöklarnir þrír yrðu friðaðir og gerðir að þjóðgörðum og tillaga Vg um Hofsjökulsþjóðgarð er því skyld tillögu Hjörleifs.

Bæði er hægt að sjá kosti og galla við tillögu Vg. Kostirnir eru þeir, að haldið er áfram á svipaðri braut og vörðuð var með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og jafnframt skapaður þrýstingur á að tengja þessa tvo þjóðgarða saman.

En gallinn er sá að menn láti hér staðar numið og auðveldi þannig þá ætlan mannvirkjafíkla að búta hálendið niður í nokkra þjóðgarða umlukta hraðbrautum og neti háspennulína og virkjana, sem í raun munu eyðileggja heildar ásýnd hálendisins og ræna það kyrrð sinni og friði, sem verður æ dýrmætari auðlind.

Hjörleifur lagði sína tillögu fram á sínum tíma í þeim tilgangi að fá hreyfingu á málin og að bera fram tillögu sem ætti möguleika á að fá samþykki. Sem sagt: Realpolitik, raunsæisstjórnmál.

Kannski er ætlan Vg svipuð nú, en það breytir því ekki að nái fyrirætlanir virkjana- og stóriðjufíkla fram að ganga með virkjunum, vegum og háspennulínum sem falla undir orðið "mannvirkjabelti" verða unnin hervirki gegn því sem mikilvægast er í íslenskri náttúru, hinum eldvirka hluta landsins, sem að stærstum hluta er á miðhálendinu.


mbl.is Hofsjökulsþjóðgarður verði stofnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Shitt, ég verð víst strax að flytja moldargám til Danmerkur svo hægt verði að grafa mig í Íslenskri mold þegar allt hefur verið friðað og ekki má einu sinni horfa á Íslenskt grjót nema úr fjarlægð með sólgleraugum.

Hábeinn (IP-tala skráð) 18.11.2013 kl. 20:43

2 identicon

Hábeinn.  Þetta þarf ekki að vera alslæmt.  Það mætti hafa góðar tekjur af svona útflutningi, hugsaðu þér, yfir 300.000 íslendingar gætu þurft á svona þjónustu að halda.

Þráðbeinn (IP-tala skráð) 18.11.2013 kl. 20:58

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mannvirkjafíklar... það er nebblega það

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.11.2013 kl. 23:49

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar litið er yfir áhrifasvæði um 30 stórra virkjana og annarra mannvirkja á Íslandi er með engu móti hægt að segja að nokkurn tíma verði allt friðað. Þvert á móti hefur sá hluti landsins sem telst samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum vera "ósnortið víðerni" farið hratt minnkandi og verður ekki nema tætlur einar, ræmur og blettir ef haldið er áfram á sömu braut.

Ómar Ragnarsson, 19.11.2013 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband