Best flugtækni- og flugveðurslega, en mörg ljón í veginum.

Um 1960 var uppi mikil umræða um flugvöll á Álftanesi. Aðalástæðan var gott rými og það að þetta var og er flugtæknilega og flugveðurslega séð besta flugvallastæði á landinu.

Hannibal Valdimarsson samgönguráðherra 1971 til 1974 sló þessa hugmynd út af borðinu.

2001 fjallaði ég um þennan möguleika og fékk leyfi forseta til að lenda FRÚnni á hugsanlegu brautarstæði, túni, og fara aftur í loftið. Er það eina skiptið sem vitað er til að flugvél hafi verið lent á Bessastöðum.

Það var reyndar í samræmi við það að hafa sagt að í hugsanlegu framboði til forseta gæti ég gefið kjósendum það loforð að ef ég næði kjöri gæti ég orðið eini forsetinn í heiminum, sem gæti farið á forsetaFRÚnni um allt land og lent henni við forsetabústaðinn.

En mörg ljón yrðu í veginum. Aðflug og fráflug frá n-s braut yrði yfir byggðina í Garðabæ. Sem er svipað fyrirbæri og það að langalgengasta aðflug að aðalbraut Hólmsheiðarflugvallar yrði yfir Vogahverfi og Grafarholtsbyggðina.

Aðflug og fráflug frá na-sv braut Bessastaðanesflugvallar yrði rétt fyrir vestan forsetasetrið, en þó ekki nær því en núverandi aðalbraut Reykjavíkurflugvallar er frá Hótel Sögu.

Á flugvallarstæðinu er eitthvert mesta fuglalíf á suðvesturhorninu og fjaran er hluti af friðun Skerjafjarðar. Samþykki fjögurra sveitarfélaga þarf til að aflétta henni.

Auk þess myndi flugvöllurinn kalla á vegtengingar yfir Skerjafjörð og líka snerta friðunarsvæðið og samþykki margra sveitarfélaga.  

Ef sjúkrahús yrði sett niður fyrir vestan flugvöllinn yrði vegalengdin þaðan að þungamiðju íbúðabyggðar og atvinmuhúsnæðisbyggðar á höfuðborgarsvæðinu 12 kílómetrar.

En ef á annað borð á að skoða öll flugvallarstæði á auðvitað að skoða þetta líka.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

3.10.2013:

"Í skýrslu sem innanríkisráðuneytið lét gera árið 2007 var lagt mat á nokkur möguleg flugvallarstæði fyrir innanlandsflug.

Þar þótti Hólmsheiði vera þjóðhagslega hagkvæmasti kosturinn, umfram flutning til Keflavíkur og uppbyggingu á Lönguskerjum.

Einnig var lagt mat á kosti þess að færa flugbrautirnar til á Vatnsmýrarsvæðinu.

Tillaga A2 gengur út á að færa austur-vestur brautina suður fyrir byggðina í Skerjafirði og út í sjó. Þannig væri hægt að losa 50 hektara lands undir íbúða- og atvinnuhúsnæði.

Í tillögu A3 er austur-vestur brautin færð eins og í hinni, auk þess sem norður-suður brautin er færð út í Skerjafjörð. Þannig fengist 51 hektari byggingarlands."

Samið um skammtímalausn fyrir flugvöll

Þorsteinn Briem, 24.11.2013 kl. 17:46

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef áður birt hugmyndina um T-laga völl í stað X-laga vallar, en í henni, eins og öllum alvöru tillögum um flugvöll á núverandi stæði, er a-v-brautin lengd og gerð að aðalbraut vallarins.

Styttir hornrétt braut gæti þjónað í miklum sunnan- og norðanvindi og unnið upp missi na-sv-neyðarbrautarinnar, en rýmið, sem núverandi n-s-braut tekur, myndi nýtast undir nýja byggð.  

Ómar Ragnarsson, 24.11.2013 kl. 21:03

3 identicon

Það eru tveir stórir kostir við Löngusker. Það kostar einhverja 10 miljarða að fylla upp undir flugvöll þar skv. skýrslu. Sá "kostnaður" fæst greiddur af söluverði núverandi lands undir flugvelli (metið á 18-24) og svo er hitt. Þegar / ef flug þangað leggst af, þá stendur uppfyllingin eftir og verð mæti hennar sem byggingalands er líklega svipað og kostnaðurinn. Persónulega hef ég trú á að vélar svipaðar AW609 taki yfir sjúkraflug innanlands eftir nokkur ár. Svo er hálendisvegur líkelga væntanlegur. Sá var tími að menn flugu á stórum Fokkerum á bæði Eyjar og Höfn. Ef vegasamband batnar enn meira við Ísafjörð, má búast við sömu breytingum þar.

Þriðji kosturinn við Löngusker er væntanlega sá að flugbrautir þar mætti lengja ansi mikið ... ef þörf er á.

Ég hef enga trú á "Íslensku lausninni", þ.e. nota skrúfuþotur í sjúkraflug. Hún hefur gefist mjög vel fyrir Akureyri, og fyrir akureyringa, svo lengi sem þeir halda sig heimavið. Ekki virkað sem skyldi fyrir aðra.

Guðmudnur R Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.11.2013 kl. 22:02

4 identicon

Það er byrjað að ryðja út og byggja upp veg í Gálgahrauni, þar sem að framkvæmdir eru hafnar væri þá ekki alveg upplagt að koma sátt á málið og breyta framkvæmdununum úr vegaframkvæmd í flugvallaframkvæmd.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.11.2013 kl. 22:17

5 identicon

Hæhæ.

Ég get ekki séð hvaða vandamál Flugvöllur á Lönguskerjum á að leysa. Er ekki allveg kristalljóst að það landssvæði verður undir eins jafn verðmætt og það sem flugvöllurinn stendur á núna???? 

Ég sé ekki muninn. nokkrir hundruðir metra frá??? Má ekki allveg eins hugsa sér byggðina þarna útá Lönguskerjum eins og flugvöllinn???

Kveðja Halldór

Halldór Heiðar Agnarsson (IP-tala skráð) 24.11.2013 kl. 22:17

6 identicon

Nei Halldór. Það sem ég er að segja er að Löngusker er fjárfesting, ekki útgjöld. Eins og sást í skemmtilegri bíómynd um þennan möguleika breytist aðflug og fráflug. Það gjör breytir hvernig má byggja í borginni og opnar fyrir hærri hús. Persónulega mundi ég vilja taka hluta af mýrinni undir framhald Tjarnarinnar og byggja svo hærra á takmarkaðra svæði, með bílakjöllurum undir. Hér hjá mér í Neðra Breiðholti er gríðarleg hávaðamengun frá flugvellinum. Fyrir utan það "ávkeður" flugvöllurinn hæð bygginga á ansi stóru svæði. Við þurfum að taka ákvörðun. "Miðbærinn" er að flytjast suður í Kópavog...

Guðmudnur R Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.11.2013 kl. 22:52

7 identicon

Sæll Guðmundur.

Ekki bætir þetta innlegg þitt við minn skilning á málinu. Að rífa niður flugvöll og byggja annan akkúrrat og bara á Lönguskerjum er fjárfesting en ekki útgjöld??

Núverandi að og fráflug er bara yfir mjög lítinn hluta Lönguskerja. Sjá bara Google myndir. Miðbærinn, Kópavogur og Fossvogurinn munu eftir sem áður þurfa að þola þetta hvort sem völlurinn er þar sem hann er eða færist út á Löngusker.

Síðan,,,, HVER VILL endilega hærri hús?? ekki ég. 

Það er akkúrat enginn munur á hvort byggðin eða flugvöllurinn verði á Lönguskerjum... Aðeins hver borgar...

Þess vegna á að stroka þetta út sem valmöguleiki strax. Það eru bara tveir möguleikar í stöðinni: Sætta sig við flugvöllinn þar sem hann er eða flytja innanlandflugið til Keflavíkur með þeim afleiðingum sem því mun fylgja.

Kveðjur bestar

halldór heiðar agnarsson (IP-tala skráð) 24.11.2013 kl. 23:17

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flugvöllur á Lönguskerjum þýðir þrjá gerninga á sama svæðinu, því að aðeins einn kílómetri er frá vesturenda framtíðar a-v-flugbrautar og Lönguskerja:

1. Flugvöllur er reistur á Lönguskerjum.

2. Núverandi Reykjavíkurflugvöllur er rifinn og starfsemin þar flutt annað.

3. Ný íbúðabyggð er reist á gamla flugvallarstæðinu.

Íbúðabyggð á Lönguskerjum kostar hins vegar bara einn gerning í stað þriggja:

1. Íbúðabyggð er reist á Lönguskerjum. Málið dautt.

Ómar Ragnarsson, 24.11.2013 kl. 23:35

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Reykjavíkurborg og einkaaðilar eiga meirihlutann af Vatnsmýrarsvæðinu og harla ólíklegt að Reykjavíkurborg hafi áhuga á að gera landfyllingu í Skerjafirði undir íbúðarhúsnæði fyrir um tólf milljarða króna á núvirði.

Og flugvöllur á Lönguskerjum yrði um tvisvar sinnum dýrari en flugvöllur á Hólmsheiði, sem myndi kosta um fimmtán milljarða króna á núvirði.

Apríl 2007: Úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar, bls. 56

Þorsteinn Briem, 24.11.2013 kl. 23:40

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hefur Geldinganes aldrei verið skoðað sem mögulegt flugvallarstæði?

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.11.2013 kl. 09:39

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mér þykir spurning Gunnars vera mjög áleitin enda er engin starfsemi þar sem gæti keppt við rekstur flugvallar. Spurning hvort meiri nálægð við Esuna geti skipt máli en á Geldingarnesi er oft mun hvassara en í Reykjavík. Það gæti verið góður kostur, komast mætti með styttri flugbrautir.

Þá myndi flugvöllur á Geldingarnesi ýta undir gerð Sundabrautar sem upphaflega átti að vera fullbúin ekki seinna en 2006!

Loksins getum við Gunnar verið sammála í einhverju!

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 25.11.2013 kl. 12:14

13 identicon

Geldinganes er lítið.  Þar er gífurlegur hæðarmunur.  Það liggur mjög illa við samgöngum.  Í norðanátturm er þar mikil ókyrrð.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 25.11.2013 kl. 14:57

14 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Geldinganesflugvöllur er stórkostleg hugmynd og fengur að henni í umræðuna. Og það er vissulega spurning hvort nálægðin við Esjuna geti skipt máli, t.d sé ég fyrir mér að flugtak í hvassri norðanátt gæti orðið ógleymanlegt ævintýri öllum sem þátt tækju. Á sama hátt yrði aðflug í sunnanátt og lágskýjuðu yfir Esjuna og steypiflug niður að Kollafirði mikið upplifelsi.

Athyglivert er að nota mætti styttri flugbrautir vegna þess hve hvasst er á Geldinganesi, það myndi að vísu þýða að oft yrði að bíða byrs, en hvað um það, fólki liggur oftastnær ekki svo mikið á.

 Spái því að Geldinganes komi sterkt inn sem valkostur í flugvallarstæðisleitinni.

Hólmgeir Guðmundsson, 25.11.2013 kl. 15:07

15 identicon

Fram hefur komið sú hugmynd að reisa alþjóðaflugvöll á Skógasandi, og eldri er hugmyndin um flugvöll á Rangárvöllum.
Svolítið sérstakt hvernig landsbyggðarbúar líta þetta öðrum augum en SUMIR höfuðborgarbúar.
En þetta var góður punktur þarna með löngusker, því það að færa flugvöll með öllu til að ryðja til fyrir íbúðarbyggð er auðvitað miklu minna mál en hitt. Og ekki er maður svo sem heldur að sjá knýjandi þörf til að vaða í þetta, þegar býsnin öll er til af hálfköruðum húsum á höfuðborgarsvæðinu, - bara ekki í 101.
Hverjir eru annars að fjölga sér svona mikið þarna? Hver er barnafjöldinn í skuggahverfinu? 0?

Jón Logi (IP-tala skráð) 25.11.2013 kl. 15:40

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands fjölgar þeim sem búa hér á Íslandi um 16 þúsund, eða 5%, á 5 árum frá síðustu áramótum en þá bjuggu hér um 322 þúsund manns.

Um 64% Íslendinga búa á höfuðborgarsvæðinu, frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar, og 64% af 16 þúsund eru 10.240 manns.

Og 10.240 manns á höfuðborgarsvæðinu búa í 3.400 íbúðum, miðað við að þrír búi að meðaltali í hverri íbúð, eins og í Hafnarfirði árið 2006.

Um 205.700 manns bjuggu á höfuðborgarsvæðinu um síðustu áramót og þar af 120 þúsund í Reykjavík, eða 58% af þeim sem þar búa.

Og 58% af 3.400 eru um tvö þúsund íbúðir í Reykjavík.

Lítið hefur
hins vegar verið byggt af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu frá haustinu 2008 en íbúum þar fjölgaði um 4.500 á árunum 2009-2012.

Þeir íbúar þurfa um 1.500 íbúðir, sem bætast við ofangreindar 3.400 íbúðir á árunum 2013-2017, eða samtals 4.900 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.

Og 58% af 4.900 íbúðum eru um 2.840 íbúðir í Reykjavík, jafn margar öllum íbúðum í 107 Reykjavík, Vesturbæ sunnan Hringbrautar.

Samtök iðnaðarins hafa bent á skort á litlum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar eru vísbendingar um að sveitarfélög séu farin að breyta deiliskipulagi til að koma til móts við þörf markaðarins á minni íbúðum.

Þorsteinn Briem, 25.11.2013 kl. 18:35

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um síðustu áramót áttu lögheimili í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar samtals 7.915 börn (sautján ára og yngri eru skilgreindir sem börn), þar af 2.659 í 101 Reykjavík, 3.203 í 105 Reykjavík og 2.053 í 107 Reykjavík, samkvæmt Hagstofu Íslands.

Og fjöldinn allur af grunnskólum og leikskólum er vestan Kringlumýrarbrautar.

Alls eiga 40.295 lögheimili í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar
, rúmlega þriðjungur Reykvíkinga, þar af 15.708 í 101 Reykjavík, 16.067 í 105 Reykjavík og 8.520 í 107 Reykjavík.

Þar að auki leigja fjölmargir nemendur í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík íbúðarhúsnæði vestan Kringlumýrarbrautar en eiga lögheimili á landsbyggðinni.

Vestan Kringlumýrarbrautar eru til að mynda framhaldsskólarnir Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Tækniskólinn á Skólavörðuholti, svo og Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík.

Á Landspítala-háskólasjúkrahúsi starfa um 4.700 manns og mikilvægt er að sem flestir þeirra búi nálægt sjúkrahúsinu, meðal annars til að minnka bensínkaup, slit á götum og bílum.

Nú býr um helmingur
þessara 4.700 starfsmanna í minna en fjórtán mínútna hjólafjarlægð frá sjúkrahúsinu.

Og ákveðið hefur verið að Landspítali-háskólasjúkrahús verði áfram við Hringbraut.

Nýir stúdentagarðar
fyrir um þrjú hundruð manns við Sæmundargötu verða tilbúnir nú um áramótin, skammt frá húsi Íslenskrar erfðagreiningar.

Á því svæði er einnig verið að reisa hátæknisetur lyfjafyrirtækisins Alvogen fyrir sex milljarða króna og þar munu um tvö hundruð manns starfa.

Og stúdentagarðar verða einnig reistir á milli Nauthólsvegar og Öskjuhlíðar í nágrenni Háskólans í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 25.11.2013 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband