28.11.2013 | 22:40
Hve margar hæðir er útvarpshúsið?
Þetta gæti verið ágæt spurning í Útsvari eða Gettu betur. Flestir sem sjá húsið sjaldan myndu giska á þrjár hæðir, af því þriðja hæðin, sem er neðst í skrifstofuturni hússins sést ekki í næsta nágrenni þess og fyrsta hæðin ekki þegar komið er vestan að húsinu.
En rétt svar er: Sex hæðir, já, 6 hæðir! Sumir skilgreina hæðina sem bílakjallarinn er í sem kjallara, en undir þeim kjallari er annar kjallari, ótrúlegt en satt, sem er nokkurs konar leynihæð.
Sá kjallari hýsir hið óhemju stóra og dýra loftræstikerfi hússins, sem einnig tekur að mestu yfir þriðju hæðina og tekur einnig mikið rými samtals á öllum hæðum!
Af hverju er loftræstikerfið svona mikið skrímsli? Af því að í húsinu er brotin eitt af elstu lögmálum arkitektúrs eða húsasmíðarlistar, sem er þess efnis, að sé breidd húss yfir ákveðnum mörkum, verða loftræstivandamálin óviðráðanleg.
Þess vegna eru til dæmis Pentagon fimm raðir mjórra húsa í fimmhyrningi, Lovre-safnið í París og byggingarnar við Thames í hjarta London mjóar og langar byggingar.
Loftræstikerfið safnar að sér óhreinindum. Þegar ég var með stíflugulu og ofsakláða í þrjá mánuði 2008 varð ég gersamlega viðþolslaus af kláðanum um leið og ég kom inn í þetta skelfilega hús.
Húsið var aldrei hannað sem allsherjar útvarpshús með hljóðvarpi, sjónvarpi og tækjadeild, heldur átti þetta hús að vera eingöngu fyrir hljóðvarpið, en annað hús við hliðina fyrir sjónvarp og þriðja húsið sem tækjahús!
Í stað þess að setjast niður þegar hætt var við að reisa öll þessi hús og hanna nýtt og smærra hús fyrir alla starfsemi RUV, var reynt að lappa upp á hljóðvarpshlutann með því að troða þar öllu inn!
Farið var um alla Evrópu til að finna fyrirmynd og útvarpshúsið í Dyflinni tekið sem helsta fyrirmynd.
Þegar hópur írskra blaðamanna kom í heimsókn til Íslands og var sagt frá þessu, fengu þeir hláturskast og spurðu hvernig í ósköpunum okkur hefði dottið í hug að taka misheppnaðasta útvarpshús Evrópu sem fyrirmynd.
Önnur spurning: Af hverju er húsið svona ofslega breitt og breiðir flatt þak út fyrir neðan skrifstofuturninn?
Írsku blaðamennirnir svoruðu: Af því að við hönnum útvarpshússin í Dyflinni var þetta haft svona svo að koma mætti fyrir vélbyssum umhverfis skrifstofuturninn til að verjast árás skæruliða !
Útvarpshúsið hefur kostað íslenska menningu milljarða sem betur hefði verið varið í að framleiða menningarefni. Því að það er laukrétt sem Hrafn Gunnlaugsson sagði: Útvarpshús er verksmiðja sem framleiðir menningarefni, en á ekki að vera fáránlega dýrt og óhagkvæmt montmusteri.
Það má kasta því fram að gott væri að geta selt útvarpshúsið. En hver væri svo vitlaus að kaupa svo afkáralegt rekstrarskrímsli ?
Líklega er það einsdæmi í veröldinni að starfsmannafélag stofnunar hafi einróma skorað á stjórnvöld að flytja ekki starfsemi hennar í splunkunýtt hús úr húsi, sem var hannað fyrir allt öðru vísi starfsemi (Bílasmiðjuhús).
En engu skipti þótt starfsmenn Sjónvarpsins grátbæðu stjórnvöld um þetta þegar til stóð að ana út í byggingu þessa fáránlega húss. Það var eins og að skvetta vatni á gæs.
Páll vill selja útvarpshúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Synd þegar peningar sem eiga að fara í menningu fara í of mikla steinsteypu utan um menningu. Nýjasta dæmið byrjar á H ...
Einar Karl, 28.11.2013 kl. 22:48
Því meira sem maður lærir um íslenskan arkítektúr, því minni virðingu ber maður fyrir honum.
Ég hef komið inn í þetta hús einu sinni. Það var eins maður lætur sér detta í hug að væri að koma inn í NORAD eða eitthvað þvílíkt.
Allar þessar dyr sem þarf að opna með spes korti. Til hvers? Við hverju búast menn eiginlega?
Ásgrímur Hartmannsson, 28.11.2013 kl. 22:51
Jú, Ásgrimur, það rölti uppdópaður vesalingur eitt sinn inn um opnar bílageymsludyrnar og viti menn, við hliðina á dyrunum, sem allra næst þeim, var rafmagnstafla, sem hann gat seilst í og kippt öllu húsinu úr rafmagnssambandi og stöðvað alla starfsemi þess á 10 sekúndum!
Ómar Ragnarsson, 28.11.2013 kl. 22:58
Af sýnilegu sambandsleysi útvarpsstjóra við hið fórnfúsa og hetjulega starf sem t.d. starfsfólk Rásar 1 hefur verið að vinna árum saman gæti manni samt sýnst að hæðirnar væru miklu fleiri en þessar sex.
Hallgrímur Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.11.2013 kl. 22:59
Komust menn út þegar rafmagnið fór af?
Ásgrímur Hartmannsson, 28.11.2013 kl. 23:51
Tja, þetta er nú alveg helvíti fínt kortakerfi !
Steingrímur Helgason, 28.11.2013 kl. 23:56
Mér finnst nú bara komin tími á smá koment frá Steina....
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 29.11.2013 kl. 10:11
Er nú illu ræðararnir að kenna árinni um?
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 29.11.2013 kl. 11:24
Takk Ómar fyrir athyglisverðar upplýsingar um þetta mikla hús. Nú hefur Björn Bjarnason stungið upp á að nota það undir lögregluna, það hljómar satt að segja ekki óvitlaust, ef húsið er þá yfirhöfuð nýtilegt!
Þó ég sé nú frekar til vinstri en hitt, og hafi alltaf talið Rás 1 vera konung íslenskra útvarpsrása þá hef ég nú lengi ekki getað varist þeirri hugsun að réttast sé að legga niður ríkisrekið útvarp/sjónvarp. Í staðinn sæi ég fyrir mér að framleiðsla menningarefnis ýmiskonar yrði styrkt af ríkisvaldinu, og að fréttastofur sjálfstæðra miðla fengju styrki að gefnum ákveðnum skilyrðum um útsendingartíma og dreifingu.
RÚV á að heita hlutlaust, og ekki efa ég að þeir sem þar starfa reyna eftir bestu getu að sinna því hlutleysi, en er það yfirhöfuð nokkurn tímann hægt? Væri ekki heiðarlegra að fjölmiðlar fylgdu hver sinni stefnu sem væri öllum opin? Enginn íslenskur fjömiðill getur talist hlutlaus, helsta hlutverk gagnrýnnar fréttastofu er að vera í stjórnarandstöðu - og hvar er þá hlutleysið?
Annars klórar maður sig í hausnum yfir þessari ríkisstjórn - sjaldan virðist nokkur hópur stjórnmálamanna hafa skapað jafn mikla óánægju á jafn skömmum tíma. Þetta er sannkölluð sjálfseyðingarstjórn.
Brynjólfur Þorvarðsson, 29.11.2013 kl. 12:23
"uppdópaður vesalingur"?
Var það ekki Pétur Jóhann Sigfússon í beinni útsendingu þáttarins DING DONG í stjórn Péturs og Dodda litla á stöðinni Radio X?
Gerði svo Sverrir Þór Sverrisson ekki aðra tilraun í 70mínútum og átti svo í vandræðum vegna þess að öryggið hefði verið hert eftir Pétur árinu áður?
Ég finn ekkert um þetta á internetinu, er mig að minna svona ofboðslega vitlaust eða varst þú að kalla Pétur og Sveppa uppdópaða vesalinga?
Guðfinnur Ýmir (IP-tala skráð) 29.11.2013 kl. 14:16
Ja hérna þetta er sérkennilegt hús sem betur hefði verið byggt með einfaldari og hagkvæmari hætti. Kannski það hafi þurft að hygla svo mörgum við byggingu hússins, sbr. þetta ofurmikla loftræstikerfi.
En hvaða ástæður Björn Bjarnason telur þetta hús vera betur hæft undir lögreglustöð væri fróðlegt að vita um. Kannski mætti breyta fyrirhugaðri fangelsisbyggingu á Hólmsheiði í útvarpshús og hafa gæsluvarðhald o.s.frv. í núverandi útvarpshúsi auk lögreglustöðvar.
Guðjón Sigþór Jensson, 30.11.2013 kl. 07:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.