Samt er trúað á ónýtan ferðamannavetur.

Í ferð til suðvesturhluta Írlands 1993 sanfærðist ég um það að hægt væri að lokka hundruð þúsunda ferðamanna til Íslands eins og til suðvesturhluta Írlands til að upplifa umhleypinga og rysjótt veður. Um þetta gerði ég sjónvarpsfréttir en engu varð haggað um gróna trú Íslendinga á hið íslenska fráhrindandi veður. Það eru tuttugu ár síðan.

Sama ár skrifaði breskur blaðamaður hástemmda grein í Sunday Times um ógleymanlega upplifun sína af íslenska óveðurshamnum yfir jól og áramót. Ekki haggaði það neinum Íslendingi í trúnni á, hvað slíkt veður hefði mikinn fælingarmátt.  

Í ferð til Norður-Finnlands fyrir tíu árum sá ég að hægt væri að lokka hundruð þúsunda ferðamanna til Íslands rétt eins og gert í Lapplandi. En trúin á ómöguleika þess var meiri en nokkru sinni fyrr hér á landi og hafði aukist frekar en hitt.

Í sérstakri ferð um allt Lappland í febrúar 2005, - en þangað komu þá fleiri erlendir ferðamenn á veturna en allt árið á Íslandi,  - sannfærðist ég enn frekar um mikla möguleika Íslands á að bjóða enn betur en Lappland. Gerði um þetta sjónvarpsfréttir en söngurinn hér heima um hið gagnstæða færðist bara í aukana og trúin á fælingarmátt íslenskrar náttúru í vetrarham jókst bara.

Nú fjölgar erlendum ferðamönnum hér um fjórðung í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra, en lítið lát virðist á rótgróinni trú okkar á það, í hve ómögulegu landi við búum varðandi það að dreifa fjölgun ferðamanna meira um árið í stað þess að allir skuli fara Gullna hringinn í júlí.

Sú staðreynd hefur nefnilega alveg gleymst, að þeim erlendu ferðamönnum fjölgar jafnvel mest, sem hafa komið áður til Íslands og vilja fara eitthvað annað en Gullna hringinn og upplifa eitthvað annað en hann.

En á sama tíma er það orðið höfuðatriði í stefnu stjórnvalda að skrúfa fyrir þrjá stórfossa í Efri-Þjórsá og auka sókn í eyðileggingu jarðvarmasvæða og þar með að eyðileggja möguleika á því að dreifa ferðamönnum meira um landið en verið hefur.    


mbl.is Ferðamönnum fjölgaði um 25,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Allir nema einhverjir íslendingar skilja að ef fólk vill hlýju og sól, fer það í sólarlandaferðir. Evrópubúar eru þar ekkert öðruvísi en íslendingar. Þeir fara ekki til Íslands, Lapplands, Írlands eða Bretlands til að liggja í sólinni og sötra kokkteila. Ferðamenn sem koma til Íslands eru að leita að öðru. Veðurham þar með talið.

Einhvern daginn skilur fólk þetta kannski, en þá eflaust of seint.

Villi Asgeirsson, 7.12.2013 kl. 15:15

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hef einmitt gagnrýnt Grænlendinga fyrir að markaðsetja Grænland nánast eingöngu sem "sumarland". Grænland er bara alls ekki jafn athyglisvert og áhrifarikt á sumrin. Þegar þú ákveður ferð til grænlands þá hefur þú í huga snjóbreiður, ís og hundasleða. Afkomu folks við aðstæður á mörkum hins mannlega og þá menningu og hugarfar sem það einkennir. Sumrin eru lyktarsynfónía grútar og ýldu, mýflugnafaraldurs, drykkju og hauga af rusli sem koma undan snjónum.

Ég hugsa að í hugum flestra sem hyggja á ferð til lands sem heitir Ísland sé einmitt sama og þessar væntingar og hugmyndir um grænland.

Gefum fólki kost á því sem það býst við að fá og er í raun að sækjast eftir. Þessa mánuði má gera meira af því að markaðsetja okkur sem einhverskonar Jólaland og þá helst með landsbyggðina í huga. Er viss um að margir væru til í að búa í prótótýpísku jólakorti yfir hátíðirnar.

Allavega er ég sammála þér hérna.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2013 kl. 16:20

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Erlendir ferðamenn koma að sjálfsögðu ekki hingað til Íslands til að liggja í sólbaði og við Íslendingar seljum þeim ekki sólskin, heldur einmitt rok og rigningu, hressandi og svalandi veður miðað við sterkt sólskin og gríðarlegan hita á sumrin í þeirra heimalöndum.

Einnig að sjálfsögðu íslenska náttúru
en ekki heljarinnar raflínustaura úti um allar koppagrundir.

Mun fleiri erlendir ferðamenn koma hingað til Íslands en áður og þeir dreifast um allt landið. Þannig heimsækja margir þeirra til að mynda Vestfirði og ferðaþjónusta er í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Stóriðja er og verður hins vegar á örfáum stöðum hér á Íslandi.

Norræna kemur til Seyðisfjarðar
og þaðan fara margir erlendir ferðamenn um Austfirðina.

Og fjölmargir erlendir ferðamenn koma hingað til að sækja ráðstefnur, til að mynda í Hörpu, en þeir ferðast einnig um landið.

Íslenskir ferðamenn fara
hins vegar margir hverjir þangað sem sólskin er hverju sinni á sumrin, níu af hverjum tíu Íslendingum ferðast hér innanlands ár hvert og eru að meðaltali hálfan mánuð á þessum ferðalögum.

Og að sjálfsögðu
þarf að byggja upp aðstöðu fyrir bæði íslenska og erlenda ferðamenn um allt landið, reisa til að mynda hótel og gistiheimili, ráða starfsfólk, stækka bílastæði, bæta salernisaðstöðu og leggja fleiri göngustíga.

Það er nú ekki langt síðan andstæðingar stóraukinnar ferðaþjónustu hérlendis stögluðust á "fjallagrasatínslu" og enn bölva þeir ferðaþjónustunni í sand og ösku, eins og dæmin sanna.

Þorsteinn Briem, 7.12.2013 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband