8.12.2013 | 23:09
Ósætti í vinstri stjórn um NATO er 57 ára gamalt fyrirbæri.
Það er orðin afar löng hefð, raunar 57 ára gömul hefð, fyrir ósætti um utanríkismál í þeim ríkisstjórnum hér á landi, þar sem Sósíalistaflokkurinn, Alþýðubandalagið og loks Vinstri grænir hafa átt ráðherra.
1956 sprakk þáverandi ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar á því að Framsókn stóð að þingsályktun á útmánuðum þess efnis að senda skyldi varnarliðið úr landi vegna þíðu, sem væri komin í samskiptum risaveldanna.
Mynduð var vinstri stjórn eftir kosningar um sumarið 1956 þar sem krati (Guðmundur Í. Guðmundsson) varð utanríkisráðherra, sem var að miklu leyti sambærilegt við það að Össur varð utanríkisráðherra í síðustu vinstri stjórn.
Lúðvík Jósepsson var hins vegar sjávarútvegsráðherra og þar með var kominn núningsflötur í stjórninni varðandi utanríkismál, einkum vegna útfærslu landhelginnar 1. sept 1958, sem var á borði Lúðvíks.
Kratar og Framsókn drógu hins vegar lappirnar varðandi brottför hersins strax eftir átökin í Ungverjalandi og Súezdeiluna haustið 1956 og notuðu aukna spennu í heimsmálum sem ástæðu fyrir því að herinn yrði kyrr.
Í vinstri stjórninni 1971-74 var aftur á stefnuskrá stjórnarinnar að reka herinn í áföngum, en Framsókn með utanríkisráðherrann Einar Ágústsson og Allaballar með Lúðvík sem sjávarútvegsráðherra endurtóku leikinn frá því 1956-58, landhelgin var færð út en herinn varð kyrr.
Í vinstri stjórninni 1978-79 datt málið upp fyrir þótt bullandi ágreiningur væri sem fyrr á milli ráðherra Allaballa og ráðherra hinna flokkanna.
Enn var vinstri stjórn 1988-91 og nú var ekki minnst á herinn, enda Jón Baldvin utanríkisráðherra og Ólafur Ragnar var heldur ekkert á því herinn færi, - lagði meira að segja til fyrir réttum 20 árum að Íslendingar tækju þátt í þeim aðgerðum á vegum NATO, sem NATO væri falið á vegum Sameinuðu þjóðanna til að stilla til friðar eða skakka leik þar sem alþjóðlegt hervald þyrfti til.
Harðir hernámsandstæðingar í flokknum voru þá, eins og nú, í andstöðu við NATO aðild en fengu engu um ráðið.
Svona breytast stjórnmálin stundum lítið, jafnvel á löngum tíma.
Tillagan flutt af pólitískri skemmdarfýsn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sá sem helst bar ábyrgð á því að Björn spillingarkóngur Bjarnason komst í ráðherrastóla var langt leiddur af pólitískri skemmdarfýsn.
corvus corax, 9.12.2013 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.