Nauðsynlegar tímaskekkjur ?

Þótt hægt sé að rökstyðja það sem öryggislega nauðsyn að María hafi hjálm í leikriti byggðu á jólaguðspjallinu þar sem hún situr á asna, er í þessu fólgin mótsögn sem æpir orðið "tímaskekkja."

Tímaskekkjurnar eru fleiri þessar vikurnar fyrir jól. Í jólalagi um hin fyrstu jól segir í lok ljóðsins um einn hjarðmanninn, sem kemur til Jesúbarnsins: "Svo gerir hann krossmark, krýpur fram  /  og kyssir barnið vangann."

Þetta gerir hann sem sé, þótt minnst 30 ár séu þangað til Jesús verður krossfestur, meira en öld þar til krossinn verður smám saman að tákni kristninnar og enn lengra þar til það að gera krossmark verður að blessun eða helgun..

Ljóst er að enginn gerði krossmark á þessum tíma, einfaldlega vegna þess að sá tími var ekki kominn sem það var gert, enda var krossinn þá hryllilegt aftökutæki og ekkert annað.

En það má leita að skýringu byggða á því að hjarðmaðurinn hafi verið skyggn og forspár og séð fyrir að krossinn og krossmarkið yrðu löngu síðar að merki um blessun og helgi.

Sem reyndar rímar ekki við það að það hefði frekar átt að vera einn af vitringunum sem hefði slíka spádómsgáfu. 

Þrátt fyrir fegurð þessara síðustu ljóðlína hefur mér alltaf fundist þessi setning örlítið truflandi í þessum annars afar fallega og hugljúfa jólasálmi, jafnvel þótt höfundinum hafi fundist þessi tímaskekkja vera nauðsynleg.  


mbl.is María mey þarf að vera með hjálm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Krossfestan þar Sigmund sá,
sýndist ekki glaður,
bústinn var með bólgna tá,
býsna útvatnaður.

Þorsteinn Briem, 9.12.2013 kl. 18:30

2 identicon

Sæll Ómar,

Þegar ljóðið "Hin fyrstu jól" eftir Kristján frá Djúpalæk er skoðað má leiða að því líkum að það sé staðsett á norðurslóðum en ekki fyrir botni Miðjarðarhafs.

Í fyrsta erindi er talað um að öll jörðin sé þakin jólanjó.

Ég held að ljóðið sé um fyrstu jól þess barns sem kveðið er um, ekki fyrstu jólin almennt.

Hjarðmaðurinn gæti verið pabbi barnsins að koma inn eftir gegningar. Móðirin sofnuð við hlið barnsins.

Hann beygir sig fram og kyssir barnið eftir að hafa gert yfir því krossmark.

Ég held að ljóðið gerist á 20. öld, á norðanverðu Íslandi.

HIN FYRSTU JÓL

Það dimmir og hljóðnar í Davíðsborg,

í dvala sig strætin þagga.

Í bæn hlýtur svölun brotleg sál

frá brunni himneskra dagga.

Öll jörðin er sveipuð jólasnjó

og jatan er ungbarns vagga.

Og stjarna skín gegnum skýjahjúp

með skærum lýsandi bjarma.

Og inn í fjárhúsið birtan berst

og barnið réttir út arma,

en móðirin, sælasti svanni heims

hún sefur með bros um hvarma.

Og hjarðmaður birtist, um húsið allt

ber höfga reykelsisangan.

Í huga flytur hann himni þökk

og hjalar við reifarstrangann.

Svo gerir hann krossmark, krýpur fram

og kyssir barnið á vangann.

Kveðja.

Ragnar Torfi (IP-tala skráð) 9.12.2013 kl. 19:26

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Dimmir og hljóðnar um Davíðsborg, segir í upphafi Ragnar Torfi. Það er Jerúsalem. Ef það er sögusviðið, þá hefur skaldið ekki alveg kynnt sér guðspjall Lúkasar, sem er jú eina Guðspjallið sem segir söguna.

Þetta er óskiljanlegt kvæði á rökrænu forsendu, ef hægt er að tala um Rökrænu.

Sýnt hefur verið fram á að hvorki Betlehem né Nasaret voru til á umræddum tíma, svo kannski er þetta bara sæt skáldsaga eftir allt.

Allavega er ólíklegt að Jósep hafi hossast með kasólétta konu ríflega 200 kílómetra leið til að þjóna manntali sem aldrei var gert til svæðis sem ekki var undir romverjum af vísikóngi sem hafði verið dauður í fjögur ár og framkvæmt af landstjóra sem kom ekki í embætti fyrr en tíu árum seinna.

Kannski er skáldið réttlætt af þessum sökum að fara með efnið eins og honum þótti henta undir blessun skáldaleyfisins.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.12.2013 kl. 19:39

4 identicon

Voru ekki fréttir nokkuð lengi að berast á þessum tíma, og bæta má svo við svarfi tímans til skráningar sögunnar.
En þetta með betlehem og nasaret, - það hef ég ekki heyrt áður.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.12.2013 kl. 09:50

5 identicon

Stemningsljóð þarf aðeins að hrífa hugann en hvorki vera sagnfræði né sósíalrealismi. Kristján frá Djúpalæk sleppur með skáldaleyfið. Metsöluhöfundurinn Arnaldur fellur líka í tímaskekkjugildru í nýjustu bók sinni, Skuggasundi, þar sem hann leggur ungum stúdent í munn þau orð árið 1950 um álfatrú fyrri tíma að hún hafi verið "birtingarmynd samfélagsgerðar." Slík orð voru ekki notuð fyrr en kjaftafög póstmódernismans lögðu undir sig háskólana hálfri öld síðar.

Bjarni Sigtryggsson (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband