27.2.2007 | 13:58
ÍSLAND OF LÍTIÐ?
Mörgum finnst Ísland enn land hinnar miklu víðáttu og að af nóg sé að taka fyrir mannvirki hvers konar. Um miðbik síðustu aldar fannst bændum líka vera nær óendanlega mikið af íslensku votlendi og þjóðþrifaverk væri að ræsta mýrarnar fram. Þegar Nóbelsskáldið spáði því 1970 að sú tíð myndi koma að mokað yrði ofan í skurðina var hlegið að því sem tómu rugli.
Spásýn Laxness hefur samt ræst. Sú stund kom að menn sáu að votlendið íslenska hafði ekki verið eins stórt og það sýndist. Á Suðurlandi eru aðeins örfá prósent eftir af votlendinu og menn sjá nú að allt of langt var gengið.
Svipað kann að verða uppi á teningnum varðandi íslenska víðernið og hálendið. Það þarf ekki annað en líta á heimskort til að sjá að Ísland er lítið land, - ekki stórt. Ferðamenn á Íslandi eru með mjög mismunandi kröfur.
Sumir vilja heilsárvegi um landið þvert og endilangt. Sumir vilja fara í gönguferðir í kyrrð öræfanna. Dæmi um sambýli sem þurfti að setja reglur um er í Bláfjöllum þar sem verður á veturna að skipta útivistarfólki og úthluta leyfðum svæðum til umferðar eftir því hvort það er á skíðum eða vélsleðum. Búið er að friða Öræfajökul fyrir jeppaferðum.
Eftir því sem umferð ferðamanna með mjög ólíkar kröfur eykst eiga menn eftir að komast að því að óbyggðir Íslands eru ekki óendanlega stórar heldur mun koma í ljós að landið er of lítið fyrir allt það sem fólki dettur í hug að framkvæmda og gera.
Í eftirminnilegri ferð um Banff þjóðgarðinn í Kanada í leiðsögn forstöðumanns þjóðgarðsins lýsti hann vel mismunandi nýtingu og kröfum um hana. Þjóðgarðurinn skiptist í mismunandi svæði eftir eðli umferðar og mannvirkja. Efsta stig friðunar var á svæðum sem hann taldi síst of stór.
Þar sagði hann að væru til staðir þar sem aðeins 5 til 10 manns kæmu á ári. Samt væri gildi þeirra talið gríðarlegt en það væri ekki fólgið í gróða sem umferð ferðamanna skapaði heldur eingöngu í vitneskju manna um það að þeir væru til. Þetta getur verið til umhugsunar fyrir okkur hér á Íslandi.
Athugasemdir
Þegar ég var lítill á sjöunda áratugnum tóku foreldrarnir mig með í ferðalög um landið m.a. upp á hálendi. Síðan hef ég lítið komið þangað upp en mér hefur þótt gott að vita af óbyggðunum í friði.
Pétur Þorleifsson , 27.2.2007 kl. 14:51
Ísland er seint lítið, miklu frekar stjórveldi miðað við höfðatölu. Allavega þættu mörg önnur lönd lítil fyrr en Ísland.
Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 19:40
Íslandið okkar er STÓRT
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 27.2.2007 kl. 20:05
Hvernig er með þetta mögulega framboð?? Á það bara að fara huldu höfði eða má fara að draga þetta fram í dagsljósið og leyfa okkur "hinum" græningjunum að vera með?
Baldvin Jónsson, 27.2.2007 kl. 21:43
Spurt er um framboðið. Ég hef líkt því við flugvél sem verið er að setja saman og eftir er að raða áhöfn um borð til að fljúga. Sumt af því fólki sem yrði með í þessu framboði hefur verið erlendis og var að koma til landsins um helgina.
Það er ekkert áhlaupaverk að setja saman framboð. Það miðar samt hægt í áttina þótt enn sé ekki ljóst hvort flugvélin geti flogið. Meira get ég ekki sagt.
Milli Reykjavíkur og Egilsstaða eru 378 km í beinni loftlínu. Stysta landleið sveigir suður fyrir Ingólfsfjall og fer síðan norðaustur við Búrfellsvirkjun, þarf eftir það að krækja norður fyrir Tungnafellsjökul og Bárðarbungu og fer þar upp í 1100 metra hæð yfir sjó.
Þetta er augljóslega mun lengri leið en 400 km þótt menn láti sig dreyma um annað. Gæsavatnaleið er nokkurn veginn síðasta svæðið þar sem mér finnst að menn ættu að leggja um trukkahraðbraut. Með henni hefðu "hófsemdarmenn" í mannvirkjagerð endanlega valtað yfir umhverfis"öfgafólkið."
Ef ég verð lifandi þegar byrjað verður að leggja hraðbraut um Gæsavatnaleið verður sá vegur lagður "over my dead body". Þið fyrirgefið, en ég held að ég myndi leggjast fyrir jarðýturnar og segja eins og Ingjaldur í Hergilsey: "Ég hef vond klæði og hryggir mig eigi þótt ég slíti þeim eigi gerr."
Ómar Ragnarsson, 27.2.2007 kl. 23:52
Frá Reykjavík til Egilsstaða um Norðurland eru 654 km. Um Suðurland og Öxi 637. Ekki 702 eins og sagt er í athugasemd Guðlaugs Hermannssonar.
Ómar Ragnarsson, 27.2.2007 kl. 23:59
aldrei of mikið til af óspilltri náttúru
Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 01:39
Ég er sammála Ómari, ekki á allt að leggja undir þægindin. Það er hins vegar í mínum huga kominn tími til, og það fyrir löngu, að byggja upp hraðbrautir hringinn í kring um landið. Þjóðvegurinn núverandi yrði þá eins kona B-vegur, fyrir þá sem vilja fara sér hægar og hraðbrautir með 2-3 akgreinum í hvora átt fyrir hina.
Eins finnst mér það mál sem mætti hugleiða, að koma upp neðanjarðarlestakerfi á stór-Reykjavíkur-svæðinu, þá færir fólk kanski að leggja einkabílnum innan Borgarinnar. Það er napurt að bíða úti við eftri stætó á veturna.
Ekki framkvæmanlegt og of stórtækt þykir kanski mörgum, en til framtíðar góð fjárfesting. Minni mengun, færri slys í umferðinni og hálendið ósnert.
G.Helga Ingadóttir, 28.2.2007 kl. 09:21
Öxi er mjög lítið keyrð yfir vetrarmánuðina. Heilsársvegur þar yfir eða göng undir væru mikil samgöngubót. Eins langar mig að benda á úr því talað er um styttingu leiða að heilsársvegur yfir Þórdalsheiði yrði frábær. (liggur frá botni Reyðarfj. og yfir á þjóðv. 1 í Skriðdal) Þetta er ein athyglisverðasta fjallabaksleið landsins. Fjölbreytt og hrikalegt landslag með ótrúlegri litasinfóníu. Eitt best varðveitta leyndarmál austfjarða. Þeir sem láta háspennulínur fara mikið í taugarnar á sér munu sjálfsagt segja að þessi leið hafi verið eyðilögð fyrir Alcoa. Fólk þarf ekki að stara á möstrin, það er gott pláss á milli þeirra. Skora á fólk að kíkja þessa 20 km. leið að sumarlagi. Fær öllum bílum í dag eftir línuframkvæmdirnar en áður bara 4x4 bílum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 10:20
Við þurfum að gera heildarútekt á hinum ýmsu svæðum í náttúru Íslands,hvers konar umferð og umgegni við leyfum.Á næstu árum verða hundruð þús.útlendinga,sem heimsækja þjóðgarðana okkar og aðra gróðurfarslega viðkvæma staði.Það þarf mikla og vandaða þjónustu og eftirlit við ferðamenn á svona svæðum til að halda landinu hreinu og vernda fyrir hvers konar ágangi.Þakka þér er enn og aftur Ómar góðar greinar um náttúru landsins .
Kristján Pétursson, 28.2.2007 kl. 16:02
Það þarf ekki að moka ofan í skurðina, þeir skreppa sjálfir saman með tímanum. Framræsluskurðir í ræktuðu landi þurfa upphreinsun á ca. 25 ára fresti. Á minni jörð er skurður frá árunum 1845-50, grafin af Framskurðarfélagi Hraungerðishrepps, stofnuðu 1845. Hann hefur kannske aldrei verið djúpur, það mótar fyrir honum á köflum en sumsstaðar markar ekki fyrir honum.
hppt://blog.central.is//gummiste
Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.