19.12.2013 | 22:41
Kverkfjöll eru virk eldstöð.
Kverkfjöll hafa löngum verið dularfull og duttlungarfullt náttúrufyrirbæri. Af gögnum frá fyrri tímum má ráða að vafi hafi á stundum leikið á því hvort gosið hafi þar eða ekki.
Um 1960 varð mikil sprenging þar sem dreifði gjósku, en engin vitni voru um hvers eðlis þessi uppákoma hefði verið.
Öld fyrr var velt vöngum yfir því hvort gosið hefði þar, en dular- og efablær var yfir því.
Fjöllin eru afar afskekkt en sjást þó víða að á norðausturhálendinu í góðu veðri.
Hins vegar er hin dreifða umferð um það svæði seinni áratuga fyrirbæri, því að fyrir seinni heimsstyrjöld komu til dæmis aðeins smalamenn inn á þetta stóra hálendissvæði um mánaðamótin september-október.
Kverkfjöll eru þriðja hæsta fjall landsins, næst á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu, sem bæði eru virk eldfjöll og að sjálfsögðu þetta há og stór vegna mikillar eldvirkni.
Fyrir áratug hvarf annað af tveimur lónum í Kverkfjöllum, blátt á litinn á mynd, sem ég hyggst láta inn á síðuna, en kom síðan aftur fyrir nokkrum árum eins og ekkert hefði í skorist.
Enga skýringu hef ég heyrt vísindamenn getað fært fram á óyggjandi hátt um þessa dynti.
Eystra lónið er kallað Gengissig og eftir að vatn í því hafði hækkað undanfarin ár, fór svo, að eitthvað brast undir því, svo að stór hluti af vatnsmagni þess hljóp niður undir Kverkjökli, kom fram í ánni Volgu og fór í henni út í Jökulsá á Fjöllum.
Vegna þess að ekki hefur gosið í Kverkfjöllum eftir að jarðskjálftamælingar komu til skjalanna er afar erfitt að ráða í merkingu einstakra skjálfta eða skjálftahrina í Kverkfjöllum.
Fyrir gosin í Surtsey og Heimaey var því kastað fram að Helgafell og eyjarnar væru útbrunnar eldstöðvar en annað kom á daginn.
Og enginn skyldi bóka að Kverkfjöll væru óvirk eldstöð heldur þvert á móti.
Þegar ég innti Sigurð heitinn Þórarinsson jarðfræðing eftir því hvaða stað ég ætti að setja efst á forgangslista yfir viðfangsefni í náttúru Íslands svaraði hann hiklaust: Kverkfjöll.
Öll kynni mín af þeim síðan hafa styrkt þetta álit, og ég hef kallað Kverkfjöll "djásnið í kórónu landsins" þar sem Vatnajökull er kórónan.
Í samræmi við það skipa Kverkfjöll verðugan sess í tveimur af þeim 15 Stikluþáttum, sem nú hafa verið gefnir út í síðari hluta heildarútgáfu þeirra þátta.
Jarðskjálfti í Kverkfjöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3906982
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3910019
Pétur Þorleifsson , 19.12.2013 kl. 23:45
Ómar oft þar tyllti tá,
á tinda hárra fjalla,
líður þar um loftin blá,
á landi fékk þó skalla.
Þorsteinn Briem, 20.12.2013 kl. 02:16
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3904982
Pétur Þorleifsson , 20.12.2013 kl. 05:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.