21.12.2013 | 10:23
Þetta og fleira var ekki á blaði 2001.
Aðeins lítill hluti af þeim óheyrilegu náttúruspjöllum, sem Kárahnjúkavirkjun hafði í för með sér, er að koma í ljós, kannski örfá prósent. Eitt af því er ógnarhröð færsla óss Lagarfljóts.
Það verður varla seinna en í lok þessarar aldar sem miðlunargeta Hálslóns verður þorrin miklu fyrr en reiknað var með vegna stórum meiri framburðar aurs í það en reiknað var með, en þetta sást greinilega á vorin strax eftir fulla myndun lónsins 2008.
Stuðlagáttin, gilið, sem Kringilsá rann um niður i Hjalladal, hafði þá þegar fyllst upp af auri og breyst í sléttar leirur.
Fullyrt var við ferðamenn fyrir 2007 að Töfrafoss myndi ekki hverfa, nema þá aðeins neðri helmingur hans í september. Hið rétta er að lónið nær kílómetra upp fyrir fossinn þegar það er fullt og fossinn hverfur strax í júlí.
Menn skelltu skolleyrum við því að Lagarfljót myndi kólna og deyja.
Ekki var minnst á hröðun á færslu óss Lagarfljóts og þaðan af síður á "mótvægisaðgerðir" vegna þess.
Fyrir liggja orð forstjóra Landsvirkjunar að arðsemi virkjunarinnar sé óviðunandi og því verður vafalaust ekkert gert til að breyta ósnum enda er það hvergi á blaði.
Landeigendur sáu hilla undir milljarða gróða vegna vatnsréttinda en með dómi og grimmu bréfi lögfræðings Landsvirkjunar um það hve þessi virkjun væri áhættusöm og erfið voru þeir dollaradraumar drepnir snarlega.
Fullyrt var að leirfok í lónstæðinu fram eftir sumri yrði vel viðráðanlegt þótt það blasti við að útilokað væri að koma í veg fyrir það að bestu veðurdagana fram eftir júlí yrði ólíft fyrir þeim á svæðinu.
Fullyrt var að dýrleg og fjölsótt ferðamannaparadís myndi opnast við lónið í góðviðrum sumarsins með tjaldbúðum, stífluklifri, siglingum og gönguferðum.
Lónið var á mynd Landsvirkjunar sýnt svo blátært, að það sæist til botns.
Hið rétta er að lónið er kúkbrún drullusúpa með aðeins 5 sm skyggni!
Þegar ekki sjást handa skil fyrir leirfoki við lónið í hlýjum hnjúkaþeynum og mestu hitunum snemmsumars eru myndir Landsvirkjunar af "ferðamannaparadísinni" aðhlátursefni eða öllu heldur grátlegar.
Þeir, sem ekki voru blindaðir af græðgi og auðtrúa fyrir 2008 voru kallaðir "óvinir Austurlands" og sá sem þetta skrifar var þegar árið 1999 kallaður "óvinur Austurlands númer eitt" bara fyrir það eitt að sýna báðar hliðar þessa máls í stað þess að stunda einhliða kranablaðamennsku og þöggun.
Ós Lagarfljóts fluttur til suðurs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þá má gera ráð fyrir að sjórinn brjóti smám saman landið og að allstórt svæði við mynni flóans verði að líflausri saltmýri eftir einhverja áratugi. Aurinn sem óbeisluð Jökla bar með sér hefur minnkað umtalsvert og því brýtur sjórinn sér leið inn í landið.
asi (IP-tala skráð) 21.12.2013 kl. 12:35
20.3.2013:
"Aðspurð hvort hún sé ennþá ánægð með Kárahnjúkavirkjun og þær ákvarðanir sem hún tók sem iðnaðarráðherra á sínum tíma segir Valgerður Sverrisdóttir:
"Ég ætla ekki að svara því, er löngu hætt í pólitík."
Valgerður var þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1987-2009, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1999-2006, utanríkisráðherra 2006-2007 og formaður Framsóknarflokksins 2008-2009."
Valgerður Sverrisdóttir: "Ég ætla ekki að svara því, er löngu hætt í pólitík"
Þorsteinn Briem, 21.12.2013 kl. 12:53
Minnist þess enn þegar Valgerður Sverrisdóttir á fjölmennum fundi norður á Húsavík í fylgd með fríðu föruneyti frá Alcoa hrópaði í hrifningarvímu yfir "þingheim" allan; af hverju eru þið ekki glöð?
En þá sýndist mörgum risaálver á Bakka á næsta leiti.
Þá varð mér endanlega ljóst að kellingar greyið gekk ekki á öllum kertum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.12.2013 kl. 13:38
"Landsvirkjun getur ekki annast orkuöflun fyrir álver í Helguvík nema að litlu leyti, að sögn forstjórans.
Álverð þyrfti að hækka um 30 til 40 prósent svo að hægt yrði að ljúka samningum."
Landsvirkjun getur ekki aflað orku fyrir álver í Helguvík
Þorsteinn Briem, 21.12.2013 kl. 13:50
Åtti ekki heidargaesin líka ad deygja út?
"Fullyrt var að leirfok í lónstæðinu fram eftir sumri yrði vel viðráðanlegt þótt það blasti við að útilokað væri að koma í veg fyrir það að bestu veðurdagana fram eftir júlí yrði ólíft fyrir þeim á svæðinu." Man ekki betur en ad fyrir virkjun hafi alltaf thurft ad smúla húsin til thess ad ná burtu sandinum(sem seinna lenti undir vatni), eftir ad virkjunin var byggd thúrfti ekki lengur ad thrífa burtu sand í jafn miklu maeli og ádur. Einnig man ég eftir sandrokunum sem komu fyrir byggingu virkjuninar, thau voru milku verri en sandrokin sem komu eftir virkjun. Tú átt víst ekki svar vid thessu Ómar er thad nokkud?
Brynjar Þór Guðmundsson, 21.12.2013 kl. 16:31
Ósinn ummræddi, Lagarfljóts og Jökulsár á Dal, hefur flakkað um ströndina austur og norður síðan land byggðist.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 21.12.2013 kl. 19:07
Ég á þau svör við þessu, Brynjar Þór, að ég kem á þetta svæði nokkrum sinnum og sumri og dvel þar stundum 2-3 daga í einu þegar nánast engir eru þar á ferð.
Leirfoksmyndin, sem fylgir þessum pistli er tekinn nokkra kílómetra fyrir innan Kárahnjúka í eindæma góðu veðri, heiðskírum himni og 14 stiga hita í sunnan hnjúkaþey.
Fyrir virkjun var þarna hið fegursta veður í þessum skilyrðum.
En um fimm milljónir tonna af nýsestum jökulleir, fíngerðum eins og hveiti, sem sest þar til á hverju vori, býr til alveg nýja tegund af leirstormum, einmitt þegar þarna eru best veður og hlýjust fram eftir sumri.
Þá er meirihluti lónstæðisins þurr, því að vatnsborðssveiflan er sú mesta og hraðasta sem þekkist, 50 metrar lóðréttir eða meira og allt að 40 ferkílómetrar af leiryfirborðinu tilbúið til hreyfings í sunnanvindinum.
Niðri á Egilsstöðum, í 80 kílómetra fjarlægð í loftlínu, fimbulfamba síðan menn og þykjast allt vita um ástandið þarna innfrá, sem sést á þessari mynd á því, að það grillir ekki einu sinni í stíflurnar eða Kárahnjúka í örfárra kílómetra fjarlægð.
En það þýðir ekki að rökræða neitt við þessa menn. Þeir telja sig sjá í boga yfir Fljótsdalsheiði hvað sé að gerast við Hálslón.
Ómar Ragnarsson, 22.12.2013 kl. 22:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.