23.12.2013 | 10:38
Þegar fyrirsögnin getur gefið skakka mynd.
Fyrirsagnir á viðtölum og fréttum eru vandmeðfarnar. Þær þurfa að vera lýsandi fyrir heildarinnihald fréttar eða viðtals en jafnframt áhugaverðar og laða lesendur eða áhorfendur að.
Hið síðastnefnda vill stundum bera hið fyrra ofurliði. Indriði G. Þorsteinsson, ritstjóri Tímans,sagði: "Góð frétt má aldrei líða fyrir sannleikann."
Hefði kannski getað bætt við: "...má aldrei líða fyrir hálfsannleikann."
Fyrirsögnin á yndislegu viðtali við Ragnheiði Elínu Clausen er þess eðlis, að þessi fyrirsögn getur gefið ranga mynd af heildarinnilhaldi viðtalsins. Faðir hennar og föðurbróðir höfðu dásamlegan og stundum hæðinn og hálfkæringslegan húmor sem kemur fram í tilvitnun Ragnheiðar Elínar í lok viðtalsins.
En sá sem aðeins les fyrirsögnina gæti fengið þá hugmynd að allt viðtalið sé af Ragnheiðar Elínar hálfu í einhverri fýlu eða ólund en það er alveg þveröfugt.
Allt annað kemur í ljós með því að lesa viðtalið allt og ég sendi Ragnheiði Elínu og hennar fólk mínar bestu jólakveðjur.
Ég vil ekkert í jólagjöf, ég vil bara spark í rassinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þjóðverjar segja að fréttin eigi ætíð að segja einungis frá staðreyndum, fréttin er „heilög“ og ekki má hnika neinu sem máli kann að skipta. Hins vegar er fréttaskýringin frjáls. Þar geta allir túlkað fréttina eftir sínu höfði. En í fréttinni skal vera það sem er sannleikanum samkvæmt!
Guðjón Sigþór Jensson, 23.12.2013 kl. 15:30
Eitt sinn skrifaði ég veitingahúsagagnrýni í Morgunblaðið og fyrirsögnin var svona:
Súpan og sósan til mikillar fyrirmyndar.
Illugi Jökulsson var mjög hrifinn af þessari gagnrýni.
Veitingastaðnum var lokað viku síðar.
Þorsteinn Briem, 23.12.2013 kl. 19:29
Einu sinni var fyrirsögn á íþróttasíðu: "Boltinn sprakk og Fram vann." En þótt leitað væri með logandi ljósi í fréttinni kom það hvergi fram í henni sjálfri að þetta hefði gerst.
Ómar Ragnarsson, 23.12.2013 kl. 22:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.