30.12.2013 | 22:17
"Enginn má sköpum renna..."
Kappakstur hefur alla tíð haft yfir sér blæ gríðarlegrar lífshættu. Og hnefaleikar hafa haft á sér blæ glæfraspils, jafnvel ólympískir áhugamannahnefaleikar með öllum sínum varúðaratriðum, hjálmum og stífum reglum.
Þó er það svo að hér um árið þegar ég lýsti í tvær nætur heimsmeistaramóti í áhugamannahnefaleikum meiddist enginn, en kvöldið á undan fóru nokkrar handboltakonur meiddar af velli í íslenskum handboltaleik og önnur þeirra meira að segja rotuð.
Þegar Michael Schumacher var upp á sitt besta snerist snilld hans meðal annars um hárfínt mat með hnífskörpum og nákvæmum viðbrögðum upp á sekúndubrot á ofurhraða.
Reiknað hefur verið út að af 500 matsatriðum/ákvörðunum í bílaíþróttum séu 2 að meðaltali rangar og þess vegna er það heppnin ein sem skilur milli grímmrar refsingar og afleiðinga mistakanna eða hins að sleppa með skrekkinn.
En þetta á líka við um svo margt annað eins og bara hina ósköp fjölskylduvænu og heilnæmu skíðaíþrótt , þótt það virki eins og fjarstæða að kappi sem spilað hefur árum saman áhættuspil á ystu nöf, skuli hrasa á skíðum á víðavangi og vera svo óheppinn að höfuðið lenti á kletti.
"Enginn má sköpum renna..."
Hættulegasta atvik sem mig hefur hent á bíl og bílbeltið bjargaði mér, gerðist á..., ja, hvað haldið þið miklum hraða?
Svar: Á minna en eins kílómetra hraða! Já, þið lásuð þetta rétt: Á minna en eins kílómetra hraða, kannski 0,8 km/klst.
Ég var að bakka bíl upp á ísskör við Reykjarfjarðará í Ísafjarðardjúpi klukkan hálf sjö að morgni í febrúarbyrjun, þegar skörin brotnaði og bíllinn valt heila veltu og fór á bólakaf á hvolf ofan í djúpan hyl í ánni, sem var í miklum vexti krapaflóðs.
Já, eins kílómetra hraða og beltin björguðu mér frá því að lenda allur ofan í ísköldu vatninu.
Davíð Helgason, æskuvinur minn, féll fram á morgunverðardiskinn örendur í hjartaáfalli.
Við jarðarför hans gerðist það, að þegar presturinn ætlaði að hefja moldunina, féll maður á fremsta bekk í kirkjunni fram yfir sig í hjartaáfalli.
Stöðva varð athöfnina á meðan beðið var eftir sjúkraliði til að sinna hinum sjúka manni og fara með hann.
Þetta var óskaplega magnað atvik, því að einhvern veginn hafði manni fundist það fjarstæða, að svona gæti gerst við jarðarför.
Á meðan þetta gerðist varð til í huga mér upphaf af sálmi, sem hljóðar svona og felur í sér eðli þessarra tveggja atvika:
Ljúfur Drotinn lífið gefur, -
líka misjöfn kjör -
og í sinni hendi hefur
happ á tæpri skör.
Feigðin grimm um fjörið krefur,
fátt er oft um svör.
Enginn veit hver annan grefur,
örlög ráða för.
Handleggir hans kipptust til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrir óskiljanleg mistök sló ég rangt nafn inn varðandi andlát Davíðs Helgasonar og hef leiðrétt það. Má segja um hið ranga nafn hið sama og sagt var fyrir öld um svipað atvik, að fréttir af andláti þess manns hafi verið stórlega ýktar.
En mistök mín voru reyndar í samræmi við staðreyndina um 500 gjörðir, þar sem að meðaltali tvær eru rangar.
Ómar Ragnarsson, 31.12.2013 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.