31.12.2013 | 10:22
Húsið, sem aldrei hefur fengið að njóta sín.
Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, mat Þjóðleikhúsið umfram öll önnur sköpunarverk sín, sem voru þó fjöldamörg og merkileg.
Því miður var húsinu holað niður í þrengslum innan um aðrar byggingar í stað þess að það hefði þurft að standa þannig að það blasti við úr öllum áttum.
Guðjón vildi að búið yrði til nokkurs konar "menningartorg" á milli Laugavegar og Hverfisgötu gegnt Þjóðleikhúsinu en af því hefur því miður ekki orðið.
Þjóðleikhúsið hlaut verstu meðferð, sem nokkur íslensk stórbygging hefur fengið, þegar það stóð autt, óupphitað og óklárað í meira en áratug á meðan bygging þess stöðvaðist vegna stríðsins og fjársveltis.
Verr er ekki hægt að fara með hús við íslenskar veðuraðstæður að mati Ragnars Ómarssonar, byggingarfræðings, sem nam sín fræði vegna reynslu sinnar af viðgerðum á íslenskum húsum sem ungur maður og áttaði sig eftir þá reynslu á því hve mikið skorti á þekkingu á þeim efnum.
Hann telur, að það skásta, sem hefði verið hægt að gera varðandi húsið í kringum 1990, þegar litið hefði verið til framtíðar, hefði verið að finna því annan og betri stað, þar sem það fengi að njóta sín, til dæmis nálægt Elliðaárdal eða höfninni, og reisa það að nýju í nákvæmri eftirmynd hússins við Hverfisgötu, sem jafnvel mætti síðan rífa og nýta það svæði á annan hátt.
Þörf viðbygging við Þjóðleikhúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Árni Johnsen hefði þá getað flutt heim til sín allt Þjóðleikhúsið.
Þorsteinn Briem, 31.12.2013 kl. 10:38
Ssuuuusss...ekki segja svona Steini!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 31.12.2013 kl. 11:38
Byggingalist og leikhús er sitthvað. Stóri gámurinn við Þjóðleikhúsið er tákn um nútíma vinnubrögð, hraða og lausn sem byggingameistarinn sá ekki fyrir. Sá sem ætlar að njóta byggingalistar og leiklistar í sömu ferð kemur venjulega í myrkvi og sér bara innviði og sjónleik. Ef leikhússtykkið veldur vonbrigðum er hægt að halla sér að byggingarlist Guðjóns.
Sigurður Antonsson, 31.12.2013 kl. 16:11
Á sínum tíma hefði verið hyggilegt að slá á frest bygging Þjóðleikhússins. Þegar í upphafi voru uppi efasemdir um að það væri byggt á æskilegum stað, í húsasundi milli Safnahússins og glæsibyggingar sem einn af broddborgurnunum lét byggja og síðar var aðsetur Menningarsjóðs og enn síðar Prentarafélagsins. En Hriflon réð nánast öllu á Íslandi og Þjóðleikhússið skyldi verða byggt.
Flest Þjóðleikhús eru byggð á stökum lóðum oft við torg eða enda breiðgötu. Lóðin var mjög illa valin og ætti það að vera næg aðvörun til þeirra sem vilja ráða að þröngsýni getur verið ansi afdrifarík.
Guðjón Sigþór Jensson, 1.1.2014 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.