2.1.2014 | 13:41
Kaflinn sem allir þurfi alltaf að fara.
Langidalur skiptist nokkurn veginn í tvennt, veðurfarslega séð. Fyrir utan Geitaskarð og Fremstagil nær hvass vindur á bilinu milli norðan og norðaustanáttar sér á strik með mikilli hríðarblindu og ofsaveðri á veturna og verður einn illræmdasti vegarkaflinn á hringveginum.
Fyrir sunnan Fremstagil er hins vegar mun skárra veður eins og til dæmis er núna á sama tíma og kolófært er norðar í dalnum og menn verða fyrir óhöppum.
Ef hagkvæmasta vegagerð á Íslandi, svonefndur Húnavallavegur, sem styttir hringveginn um land Blönduósbæjar um 14 kílómetra, væri komin til framkvæmda, væri þessu vandamáli eytt.
Húnavallavegurinn myndi auk þess gegna því hlutverki að skapa færa leið fyrir Blönduósinga sjálfa ef þeir þyrftu að aka fram í Langadal, því að þá gætu þeir ekið um Húnavallaleiðina meðan á óveðrinu stendur.
Húnavallaleiðin myndi líka opna nýja leið innan héraðs á milli Langadals og Bakása og Svínadals.
Andstaðan við hina miklu vegabót byggist á því sama og andstaðan við Reykjavíkurflugvöll, þ. e. að afar þröngir hagsmunir fái að valta yfir margfalt meiri hagsmuni.
Færsla innanlandsflugs frá Reykjavík myndi lengja samanlagða ferðaleið fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur um 170 kílómetra og óbreytt leið hringvegar um land Blönduósbæjar lengir ferðaleiðina fram og til baka um 28 kílómetra sem jafngildir því, ef notaður er taxti opinberra starfsmanna, að hver bílstjóri borgi 3000 krónur aukalega í skatt fyrir að fá að aka um land Blönduósbæjar.
Og það sem meira er, þessi aukaskattur rennur að mestu til erlendra framleiðenda bíla og eldsneytis.
Þar sem Húnavallaleiðin myndi mæta núverandi vegi í Langadal við bæinn Fagranes, væri í lófa lagið að koma fyrir þeirri þjónustu og verslun sem þurfa þætti, því að við brúarsporðinn er 3ja kílómetra langur kafli hringvegarins eftir sem áður innan marka Blönduósbæjar.
Þegar hringvegurinn var styttur við Hellu á Rangárvöllum fyrir um hálfri öld, gerð ný brú góðan spöl fyrir sunnan þorpið og gamla brúin yfir Ytri-Rangá í miðju þorpinu aflögð, voru Hellubúar styrktir til þess að koma á fót nýrri þjónustu og verslun við brúarenda nýju brúarinnar.
Nú hefur byggðin flutt sig þangað og það þætti fáránlegt ef leiðin lægi nú um gamla brúarstæðið.
Það er að mínum dómi sjálfsagt mál að styrkja Blönduósinga til þess að koma á fót þjónustu og verslun fyrir vegfarendur við nýtt brúarstæði hjá Fagranesi. Þótt sá styrkur þætti veglegur væri hann aðeins brot af þeim ávinningi sem stytting hringvegarins færði landsmönnum.
Núverandi meginbyggð Blönduóss yrði áfram sama þjónustumiðstöðin fyrir héraðið og auk þess áfangastaður á leiðinni um Þverárfjall.
Það er ekkert ferðaveður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ók frá Ak til Rek á milli hátíðanna.
Akstursaðstæður á allri leiðinn voru ágætar, -nema á þessu umrædda kafla er saman fóru mesta hálkan staðbundinn skafrenningur úr NA og sviftivindar.
Undanfarinn aldarfjórðun hef ég ekið þessa leið reglulega að vetri. Æði oft hafa verstu aðstæður til aksturs verið á þessu umrædda kafla og oft er þar verra skyggni en á Holtavörðuheiði.
Það að auki er veglínan gömul mikið um heila miðlínu og skyggni framávið skert af blindbeygjum og blindhæðum.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 14:11
Hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn krafist þess að vegurinn við Blönduós verði styttur?!
Og harla einkennilegt að fullyrða að "andstaðan við Reykjavíkurflugvöll, þ. e. að afar þröngir hagsmunir fái að valta yfir margfalt meiri hagsmuni."
Ég veit ekki til þess að nokkur maður sé á móti flugvöllum.
Og flugvöllurinn sem nú er á Vatnsmýrarsvæðinu getur að sjálfsögðu verið á öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu.
Hagfræðistofnun reiknaði með 38 milljarða króna þjóðhagslegum ábata af flugvelli á Hólmsheiði og 18 milljarða hagnaði ríkissjóðs, 26 milljarða hagnaði borgarsjóðs og 11,5 milljarða hagnaði íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Hins vegar yrði töluvert minni ábati af flugvelli á Lönguskerjum.
Úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar - Sjá bls. 87
Þorsteinn Briem, 2.1.2014 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.