Sannur fjörkálfur, gleðigjafi og jassgeggjari.

Ský hefur dregið fyrir skært ljós sem í minum huga leikur um minningarnar um fjörkálfinn, djassgeggjarann og tónlistarsnillinginn Rúnar Georgsson, sem nú hefur lokið jarðvist sinni. Það var engu líkt að fá að rokka með honum og fara hamförum á fyrstu árum okkar beggja í skemmtanabransanum.

Við áttum svo margt sameiginlegt, ekki bara rauða hárið, heldur líka ánægjuna af því að vera til og láta gamminn geysa, gefa allt í botn, láta eins og vitleysingar ! Og þar komst enginn með tærnar þar sem Rúnar hafði hælana.

Síðar lágu leiðir okkar saman með Sumargleðinni og ekki var fjörið minna þar en líka farið að brydda á því að sumt tekur sinn toll með tímanum í viðskiptum við Bakkus og hirð hans.  

Rúnar gaf mikið af sér en gekk líka nærri sér sjálfum.   

Miðpunktur ógleymanlegra minninga minna um Rúnar er ein saxófónsóló hans, leikin af fingrum fram, í laginu "Ég hef aldrei nóg", sem mun vera næstelsta alíslenska rokklagið og var leikið af Lúdósextett.

Upptökutæknin var einfaldari en nú, - þetta varð að renna allt saman í gegn í einni töku.

Það var búið að taka upp tvö eða þrjú rennsli á laginu, en mér fannst vanta eitthvað svolítið villtara, til dæmis í sóló Rúnars. Þetta var jú texti um hamsleysi, sem fer úr böndunum.

Ég kallaði til Rúnars þegar við ákváðum að reyna einu sinni enn: "Nú látum við allt vaða í botn og gerum allt vitlaust!"  Við rákum tunguna út úr okkur framan í hvor annan, hristum rauða hausana og tungurnar með öskrum og óðum síðan af stað.

Og viti menn: Allt í einu kom gerbreytt sóló út úr saxófóni Rúnars, hreint trítilóð sóló.

Enn þann dag í dag er ég jafn hrifinn af þessari sóló. Hún er svo mikill Rúnar eins og hann var þegar hann fór mestum hamförum. Svo dýrleg túlkun á yfirgengilegri lífsnautn og hamsleysi. Og samt ákveðinn sársauki í henni miðri.

Rúnar Georgsson, elsku rauðhærði lífsglaði vinurinn minn, - ég blessi minningu þína meðan ég lifi.    


mbl.is Andlát: Rúnar Georgsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já ,þú lýsir Rúnari sannarlega vel.Hann var gjörsamlega ógleymanlegur.Ég var svo stálheppinn að fá að blása með honum fáeina mánuði.Hans er sárt saknað.

reynir jónasson (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband