4.1.2014 | 23:23
Fyrirrennarar Savannatríósins og Ríó tríósins.
Notkun orðsins "fyrirrennarar" í fyrirsögn þessa pistils kann að þykja vafasöm. Hvernig getur erlendur söng dúett verið fyrirmynd fyrir íslensk söngtríó?
Svarið er einfalt. Tvö ártöl sköpuðu vatnaskil í íslenskri dægurtónlistarsögu, 1951 og 1986.
Í bæði skiptin var einokun á útvarpssendingum rofin, í fyrra skiptið með tilkomu Kanaútvarpsins og í síðara skiptið þegar útvarp- og sjónvarpsssendingar voru gefnar alveg frjálsar.
Fyrstu 15 ár Kanaútvarpsins og Kanasjónvarpsins ólu þessar stöðvar upp nýja kynslóð í tónlistarefnum, ungt fólk, "rokk- og Bítlakynslóðina, sem drakk í sig tónlist og annað efni Kanans með móðurmjólkinni.
Þegar rokkið fór á fullt 1956 spruttu upp hljómsveitir kornungra tónlistarmanna eins og Plúdó-sextett, síðar Lúdósextett, sem lögðu ásamt Hljómum 1964 grunn að nýrri flóru í dægurtónlist hér á landi.
Þótt KK-sextett og svipaðar hljómsveitir væru kannski bestu hljómsveitirnar til að byrja með, hvað snerti getu og færni, voru þær aldrei hreinræktaðar rokkhljómsveitir, einfaldlega vegna aldurs meðlima þeirra.
1957 skutust Everly-bræður upp á toppinn í Ameríku og það kvað við alveg nýjan tón.
Þegar bandarísk hjón voru í heimsókn hjá foreldrum mínum um 1960 voru þau forvitin um íslenska léttmenningu, ekki síst vegna þess sem ég var þá að bralla. Þau vildu fá nánari útlistun á því sem ég og aðrir skemmtikraftar værum að gera.
Þeim þótti val mitt á tónlist fyrir gamanvísur og viðfangsefni í eftirhermum sérkennilegt. Í Ameríku voru þá enn hinir eldri eins og Sammy Davis jr sem fremstir stóðu og notuðu frekar eldri tegundir tónlistar.
Þeim þótti hins vegar skiljanlegt að upp myndu spretta hér sönghópar á borð við Everlybræður, sem þau sögðu hafa gríðarleg og næstum byltingarkennd áhrif í Bandaríkjunum.
Þau reyndust hafa á réttu að standa því að einmitt um þetta leyti var Savanna-tríóið að hasla sér völl og síðar Ríó tríó.
Everlybræður höfðu mikil áhrif á marga af fremstu poppurum Ameríku og Evrópu og þess vegna leyfi ég mér að kalla þá fyrirrennara Savanna- og Ríó tríóanna.
Þetta voru góð áhrif hér á landi og allir fórdómar varðandi það hve hættulegt og lélegt væri að "apa upp eftir útlendingum" reyndust rangir. Savannatríóið sótti í sjóð íslenskra og erlendra þjóðlaga og gerði þessa tegund tónlistar alíslenska.
Sama má segja um arfleifð Ríó tríósins.
Nú er Phil Everly allur og þar með dúettinn Everlybræður. Fráfall Phils snertir íslenska tónlist og íslenska menningu. Bræðurnir unnu brautryðjendastarf í Ameríku sem hvatti kornunga Íslendinga til að gera svipað hér á landi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.