5.1.2014 | 15:28
Sérstök heimsmynd heldur Pírötum uppi.
Ég held að þeir vanmeti Pírata, stöðu þeirra og heimsmynd, sem halda því fram að þeir "muni ekki þola álagið til lengdar" vegna þess að þeir séu nokkurs konar aðkomumenn í pólitík ("átsæter") og séu "bæði með hægri og vinstri á móti sér."
Komið hefur fram að mest af fylgi Pírata sé í aldurshópnum 18-28 ára, en í þeim aldurshópi eru um 20% kjósenda.
Út úr því má fá að allt að fjórðungur þess fólks á þessum aldri, sem fara á kjörstað til að kjósa, kjósi Pírata.
Sé svo, er það glettilega hátt hlutfall á í þessum aldursflokki, á stærð við stærstu flokkana og fer áreiðanlega stækkandi að óbreyttu eftir því sem nýir árgangar koma inn.
Ég fékk að skyggnast svolítið inn í heimsmynd Pírata á ráðstefnu í Brussel í mars í fyrra og komst að þeirri niðurstöðu, að svo framarlega sem þeir nenntu að fara á kjörstað myndu þeir komast yfir 5% múrinn í fylgi. Það gekk eftir.
Þetta, að nenna að fara á kjörstað, er það eina sem ég sé að geti verið Pírötum fjötur um fót hvað snertir fylgi í kosningum, því að hugsjón þeirra er að færa stjórnmálin sem beinasta leið til kjósendanna með netlýðræði og beinni stjórnmálaþáttöku almennings en verið hefur með því að virkja möguleika netsins.
Ef kosningar verða færðar inn á netið eins og til dæmis Styrmir Gunnarsson hefur mælt með og ég styð, - kannski í byrjun með því að gefa kost á báðum kosningaformunum vegna gamla fólksins og fleiri kjósenda sem eiga erfitt með eða eru tregir til að taka upp netkosningar, - þarf ekki að spyrja að útkomunni eins og málum er háttað í dag.
Ef síðustu kosningar hefðu verið netkosningar hefðu Píratar líklega fengið meira en 10% fylgi.
Eins og nú háttar til, stækkar aldurshópurinn sífellt sem Píratar höfða til, og við næstu kosningar verður þetta aldurshópurinn 18-32ja ára sem þýðir 40% stækkun.
Mér sýnist Píratar lifa jöfnum höndum í netheimum en raunheimi og jafnvel frekar í netheimum ef eitthvað er. Í því felast griðarlegir jákvæðir möguleikar en einnig neikvæðir, einkum ef ýmis konar sýndarveruleiki netheima verður svo sterkur að hann valtar yfir veruleika raunheima.
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata skrifar ágætan pistil um samkennd og samúð í blað nú um hátíðarnar og í jákvæðu og uppbyggjandi hugarfari eins og þar birtist getur styrkur Pírata legið.
Þá skipta hægri og vinstri minna máli.
Og styrkur þeirra liggur fyrst og fremst í því að nýta til framfara, lýðræðis og sanngirni möguleikana sem nútímafjarskipti hafa opnað.
En það eru líka dökkar hliðar á netheimum, sem koma nú í ljós. Sem dæmi má nefna sívaxandi niðurhal á netinu sem beinlínis rænir höfundarrétthöfum tekjum fyrir vinnu sína og framlag, sem sannanlega er bæði lögmætt og sannagjarnt að þeir fái borgað fyrir.
Reynslan af ástandinu sýnir, að það er barnalegt að halda að með því að höfða til samvisku hvers og eins sé hægt að fá fólk almennt til að virða höfundarréttinn. Það hefur einfaldlega ekki virkað.
Ef þannig væri farið um alla hluti þyrfti enga löggæslu eða eftirlit á hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins.
Ég hef trú á því jákvæða sem Píratar standa fyrir en vil líka brýna þá til þess að gæta að dökkum hliðum netheima, sem gætu orðið þeim fjötur um fót ef þeir ætla að láta sem ekkert sé.
Ég hef líka trú á því að ýmis vandamál, sem koma upp varðandi átök heimsmynda netheima og raunheima, muni verða hægt að leysa og verði leyst, og að það sé ekki ógnvænlegt, heldur spennandi verkefni að leysa þau viðfangsefni.
Ný tækni með möguleikunum á að lifa sig inn í sýndarveruleika getur verið afar gagnlegur og gefandi, en það þarf að gæta að þeim hættum, sem geta skapast ef þessi sýndarveruleiki stangast gróflega á við raunveruleikann sjálfan.
Samkenndin, sem Jón Þór talar um í blaðagrein sinni, verður aldrei fóstruð eins vel á Skype eins og með beinum mannlegum samskiptum með gamla laginu. Að því leyti til verður alger flótti inn í netheima ekki nein heildarlausn á viðfangsefnum nútímans.
Píratar þoli ekki álagið til lengdar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar og takk fyrir ágætis pistil. Vil þó fjarlægja áhyggjur þínar varðandi eitt atriði að ofan..
Höfundarréttur og brot á lögum er varða höfundarrétt og nýja tækni er einmitt eitt af áhersluatriðum Pírata.
Þú getur treyst því að Píratar þekkja líklega flokka best þau vandamál er varða höfundarrétt sem komu upp með uppvexti háhraða internets.
Þ.e. hinar dökku hliðar internetsins þekkja Píratar mjög vel. Af dæmum má sjá að þingmenn annarra flokka virðast ekki hugmynd hafa hvernig internetið virkar, eða hversu miklu máli skiptir að passa vel upp á það fyrir lýðræði í heiminum.
Tómas, 5.1.2014 kl. 16:56
Takk fyrir gott yfirlit Ómar.
Það er eitt sem mig langar að gera athugasemd við, úr frétt mbl og þínu svari við fréttinni. Í fréttinni er talað um netverja og þú skiptir þessum heimum einnig upp í 'við' og 'þeir' með bæði björtum og dökkum hliðum. Raunveruleikinn er hins vegar sá að við erum öll fólk - sem hefur samskipti við annað fólk. Sumir tala meira í síma, aðrir hittast bara augliti til auglitis, enn aðrir nota texta á bréfi eða tölvupóst og svo kannski vefmyndaspjall eins og Skype.
Það er enginn munur á fólkinu, bara samskiptamiðlunum, og miðlarnir hafa áhrif á vandamál og lausnir - búa jafnvel til vandamál en leysa önnur. Lög unga fólksins voru afrituð á hljóðsnældu, það var álitið vandamál. Nótnablöð, sem gerðu öðrum hljómsveitum en höfundi kleift að flytja tónlist, voru álitin vera vandamál og voru ástæðan fyrir höfundarétti.
Dökku hliðarnar sem þú minnist á eru í raun ekki til, þær eru millibilsástand sem hefur alltaf verið leyst áður og hefur aldrei komið illa út fyrir höfunda. Það hafa alltaf verið 'millimennirnir' sem hafa komið illa út úr breytingunum og það græt ég ekki.
Möguleikarnir eru vissulega mjög spennandi, fyrir lýðræði, fyrir menntun, fyrir samstöðu og fyrir sköpun. En þeir skipta í raun engu máli, það er fólkið sem skiptir máli. Fólk er ekki netverjar eða ekki netverjar. Fólk skiptist ekki í svoleiðis hópa, það er öfugt, allir eru fólk.
Björn Leví Gunnarsson (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 16:57
Góður pistill og þarfar brýningar. Mín reynsla af Píratastarfi og starfi með fólki almennt er einmitt sú að ekkert heldur betur utan um sambönd fólks og samskipti en að hittast í raunheimum svonefndum. Netheimar geta að mínu mati aldrei komið fyllilega í staðinn fyrir það þó þeir séu miklir og byltingakenndir undraheimar. Þetta lærði maður fyrst almennilega á vinnumarkaðnum þar sem reglulegir fundir utan við tölvurnar eru bráðnauðsynlegir til að halda dampi og tryggja að allir séu á sömu blaðsíðunni og samtaka.
Þarfagreinir, 5.1.2014 kl. 16:57
Þrjú svör á nánast sama tíma fyrir helbera tilviljun. Fyrst Píratar geta staðið svona þétt saman algjörlega óviljandi held ég að okkur séu allir vegir færir. :-)
Þarfagreinir, 5.1.2014 kl. 17:00
Tæknin er einfaldlega komin fram úr fólkinu og þar þarf aðeins að staldra við.
Hvernig er hægt að nýta tæknina á löglegan hátt til að minnka þetta "ólöglega" niðurhal?
Það hefur sýnt sig eftir að Netflix og aðrar efnisveitur hafa orðið algengari á íslenskum heimilium þá minnkar þetta "ólöglega" niðurhal strax til mikilla muna.
Bara það eitt og sér ætti að segja ráðamönnum allt sem segja þarf.
Á þetta hafa Píratar verið duglegir að minnast og tala líka um að lokanir, ritskoðanir og bönn gera ástandið bara enn verra enda það margir með tækniútfærslurnar á hreinu þannig að ekkert mál yrði að komast fram hjá ritskoðunum og lokunum og halda því áfram að sækja efnið ólöglega.
Þess vegna þarf að breyta lögunum um höfundarréttinn og sníða þau að nútímanum þannig að allir gætu verið sáttir í stað þess fornaldar hugsunarháttar að banna, banna og banna allt sem ekki hentar hugmyndafræði steinþursana á alþingi.
Jack Daniel's, 5.1.2014 kl. 17:13
Það verður aldrei hægt að sannprófa netkosningar á sama hátt og hefðbundnar kosningar, ekki án þess að gera okkur að algerum föngum alltumlykjandi tækni eins og í einhverri vísindaskáldsögu.
Það væri hins vegar sniðugt að flokkar (og jafnvel stakir þingmenn) tækju upp netkosningar í sínum málum og væru þannig komnir með beina reynslu af þeim áður en þeir færu út í að taka ákvarðanir um þær á Alþingi.
Lausnin á höfundarréttarmálunum er að skattleggja bandvídd og borga handhöfum höfundarréttar þess efnis sem er flutt á milli í hlutfalli við hlutfall þess efnis í heildarnýtingu bandvíddar. :-)
Elías Halldór Ágústsson, 5.1.2014 kl. 17:42
Elías: Rétt.. en það má líka svindla á hefðbundnum kjötheima-/raunheimakosningum. Rafræn skilríki færa okkur sífellt nær hlutum eins og rafrænum kosningum.
Píratar btw. hafa notað netkosningar nánast frá stofnun til ýmissa verka, þótt tæknin þar sé enn í vinnslu, og langt frá því fullkomin.
Ég trúi því vel að rafrænar kosningar séu ekki langt undan, en er þó sammála um að hægt þurfi að fara í hlutina.
Tómas, 5.1.2014 kl. 17:52
Ég skal endurtaka það sem kemur fram í pistli mínum, trú á föstu fylgi Pírata, fylgi við netkosningar, beint lýðræði og beina þáttöku almennings í stjórnmálum og hrifning af stórbrotnum framförum í fjarskiptum og samskiptum með tilkomu netsins og ótrúlegra framfara í fjarskipta- og tölvutækni.
Hvergi skipti ég fólki í "við" - "þið", heldur tala ég aðeins gróft um mismuninn á "netheimum" og "raunheimi", en við búum öll í þeim báðum þótt í mismunandi mæli sé.
Ég lýsi líka yfir bjartsýni og trú á því að ný vandamál og viðfangsefni verði leyst og hvet til þess að þar leggi hinir frísku Píratar sitt af mörkum á heimavelli sínum.
Ómar Ragnarsson, 5.1.2014 kl. 19:42
Bara bóla á Íslandi. Fólk sá þarna tækifæri til að koma sér inná þing og greip það. En í heildina hafa þeir ekkert nýtt fram að færa. Það geta allir flokkar tekið internet uppá sína arma eða sem sín sérstöku málefni o.s.frv. og það verður líklega þróunin. Fyrir utan þetta internettal þá hafa píratar ekkert fram að færa. Fólk sem getur ekki einu sinni skilgreint hvort það er til hægri eða vinstri hefur ekkert að gera í pólitík til lengri tíma.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.1.2014 kl. 23:07
Halda því fram að engin önnur hugsun komi til greina en sú sem hægt sé að flokka til hægri eða vinstri í hinni ímyndiðu línu sem stjórnmálafræðideildir háskóla hafa sett okkur flokkast undir þröngsýni. Sú heilaþvottalína byggir sínar kenningar á að skorða okkar hugsjónar innan línu sem dregin er í hring þar sem öfgar í báðar áttir mætast og ekkert sé til utan hans.
Ef við lítum á sögu mannkyns þá hafa alltaf komið reglulega fram nýjar kenningar og hugsjónir sem breitt hafa grunnhugsunum í þjóðfélagsuppbyggingum og sú skipan sem við höfum búið við síðustu áratugina er langt í frá að vera sú lausn sem mun ríkja um ókomna framtíð okkar.
pallipilot (IP-tala skráð) 6.1.2014 kl. 05:09
Ómar Bjarki: Málið er ekki að stakir Píratar kalli sig ekki vinstri- eða hægrisinnaða, heldur að innan flokksins þrífast bæði talsvert vinstri- og hægrisinnað fólk. Þess vegna hefur flokkurinn sem heild enga skýra leitun í aðra hvora áttina. Hins vegar eru fleiri mælikvarðar til en hægri-vinstri, eins og pallipilot kom inn á..
Tómas, 6.1.2014 kl. 17:55
Það er pínu skondið að Píratar skuli fá þennan "við erum á móti höfundarrétti" stimpil á sig. Sérstaklega í ljósi þess að þetta er eini flokkurinn sem virðist vinna í þessu máli, á meðan aðrir flokkar hafa horft framhjá því síðustu þrjú kjörtímabil.
Skilurekkineitt (IP-tala skráð) 6.1.2014 kl. 21:27
Elías - Sannreyna kosningar:
Jú, það er alveg hægt. Tek sem dæmi að í síðustu kosningum voru fullt af kjörkössum óinnsiglaðir. 'Ekkert mál' að opna þá semsagt, fjarlægja x mörg atkvæði og setja jafn mörg í staðinn.
Ómar Ragnars - "við - þið":
Afasakið að það leit út að ég oftúlkaði það sem þú varst að segja. Þessu var frekar beint í fréttina sem þó ómaði af úr 'dökkku hliðunum' og 'netheimum' í þínum pistli. Ég ætlaði mér ekki að gera skýrari línu á milli 'við' og 'þið' en þú gerðir.
Ómar Bjarki - Bóla:
Nei, þetta var algert skot í myrkri. Lengi vel leit ekkert út fyrir að Píratar væru að komast á þing. Það var hins vegar mikilvægt að byrja umræðuna um Píratamálefnin hvort sem við hefðum komist á þing eða ekki.
Varðandi "hægri vs vinstri" þá er það því miður voðalega þröngsýnt. Ef svar við öllum vandamálum heimsins er að finna í einni hugmyndafræði þá væri örugglega búið að finna hana. Hins vegar er heimurinn breytilegur - þar af leiðandi vandamálin og í kjölfar þeirra - lausnirnar. Ef lausn við vandamáli er ekki það besta sem við höfum úr að velja heldur bara 'af því að hugmyndafræðin segir það' þá eigum við eftir að lenda í veseni.
Stundum virkar markaðsaðferðin, stundum er of auðvelt að svindla á henni. Stundum virkar samfélagsaðferðin, stundum er of auðvelt að svindla á henni. Hver sem hugmyndafræðin er, þá byggir hún ofan á borgararréttindum. Þess vegna, án þess að endurskilgreina borgararéttindi í breyttum heimi, þá hrynur samfélagið að lokum út af úreldri hugmyndafræði.
Björn Leví Gunnarsson (IP-tala skráð) 6.1.2014 kl. 21:44
Sjáðu til, vinstri-hægri snýst um í meginlínum hvort nota beri stjórn samfélaga og tæki þess til jöfnunnar í samfélaginu eða ekki. Það er ekki hægt annað en taka afstöðu til ofannefnds. Snýst ekki um ,,hugmyndafræði" heldur afstöðu til grunnatriða mannlegs samfélags. Það er hægt að segjast vera á miðjunni og plata menn fram og til baka með allskyns lýðskrui álíka og framsóknarflokkurinn. Eru Píratar kannski miðjuflokkur eins og framsóknarmenn segjast vera? Eru píratar í raun framsóknarmenn??
Jón þór td. þingamaður - hann er bara sjalli. Hann talar oft eins og afar hægrisinnaður sjalli. Hann mun fara í sjallaflokk þegar píratar leggja upp laupana.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.1.2014 kl. 23:13
Ómar Bjarki: Nú held ég að þú þurfir að fletta upp orðinu hugmyndafræði.
Það er afskaplega mikill munur á að segjast vera á miðjunni og að segjast ekki vera á línunni yfir höfuð. Það er alveg jafn heftandi að vera fastur í miðju ramma eins og hægri og vinstri ramma. Það að ætlast til að lýðræðislega kosnir leiðtogar þjóðarinnar geti komið saman og leyst mál þegar þeim er bannað að komast að sameiginlegri niðurstöðu er mögulega það heimskulegasta sem maður hefur heyrt.
Fyrir vikið uppskerum við kappræður á þingi en ekki rökræður. Að leysa mál snýst um málamiðlanir frekar en að finna "bestu" lausnina. Að mínu mati er stóri gallinn á þessu öllu að við ætlumst til þess að flokkar þjónusti sína kjósendur umfram aðra þegna þjóðarinnar.
Skilurekkineitt (IP-tala skráð) 7.1.2014 kl. 07:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.