8.1.2014 | 12:43
Verða menn enn reiðir og sárir ?
Við Íslendingar erum svolítið klofnir varðandi samskipti okkar við umheiminn. Annars vegar ríkir hér mikil þrá eftir því að fá viðurkenningu erlendis, hin svokallaða útrás. Hins vegar ríkir tortryggni í garð útlendinga sem byggist á því að þeir séu upp til hópa vondir menn sem reyni allt sem þeir geti til að plata okkur og drottna yfir okkur.
Þegar Svíi einn lýsti næturlífinu í Reykjavík fyrir aldarfjórðungi voru viðbrögðin hér heima mikil sárindi og formælingar gegn þessum Svía sem væri að ljúga upp á okkur.
Fimmtán árum síðar vorum við reyndar búin að gleyma þessu þegar sjálft flugfélagið okkar reyndi að lokka útlendinga til skyndiferða hingað með upphrópuninni "one night stand" eða "einnar nætur gaman."
Svipað verður líklegast um viðbrögðin við grein Roosh V.
Viðbrögð okkar gagnvart útlendingum minna mig svolítið á viðbrögð Rússa þegar við hjónin fórum í hópferð bílablaðamanna frá Norður-Finnlandi til Murmansk til að prófa nýja gerð af Volvo.
Alls staðar sem við fórum voru Rússarnir afar forvitnir um það hvernig okkur litist á þetta og hitt hjá þeim.
Þegar við sögðum sannleikann um frábærlega vel gerð söfn fyrir almenning og skóla ljómuðu þeir af stolti.
En þegar við létum þá líka heyra skoðun okkar á ömurlega illa gerð húsum og mannvirkj, frumstæðum tækjum og bílum og malargötum, urðu þeir óskaplega sárir í garð okkar, líkt og við værum illviljaðir rógberar.
Okkur var sýnt stór verksmiðjutogari og ég og Norðmaðurinn gátum ekki orða bundist yfir slæmum aðbúnaði skipverja og gríðarlegri stéttaskiptingu. Yfirmennirnir voru í þessum fínu íbúðum en hásetarnir kúldruðust margir saman í þröngum káetum allar vikurnar sem þeir voru úti á hafinu.
Við sögðum, sem satt var, að enginn norskur eða íslenskur sjómaður myndi fást á svona skip, og viðbrögð þeirra voru þau, að við hlytum að vera að ljúga.
"Þetta getur ekki verið, sögðu þeir, - það er þrjú þúsund manna biðlisti manna sem bíða eftir því að fá skipsrúm á þessu skipi."
Sem sannaði fyrir okkur að ófrelsið í landi þeirra væri slíkt, að menn væru tilbúnir til að fórna miklu fyrir það eitt að fá að sleppa hálfa leið út úr fangelsinu og dvelja vikum saman við illan aðbúnað á reginhafi til þess að fá að fá örlítinn smjörþef af veröldinni.
En um það þýddi ekki að ræða við Rússana, þar hefðum við verið kom út á bannsvæði í umræðuefnum og sýnt gestgjöfunum ósvífni.
Verða menn einn jafn reiðir og sárir út í Roosh V og Svíann hér um árið? Það verður forvitnilegt að sjá.
Ísland er þorp stofnað af nauðgurum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fólk þarf að gera greinarmun á því hvort að leiðtogar annarra landa séu að tjá sig um landið
eða 1 & 1 furðufugl sem skiptir engu máli.
Jón Þórhallsson, 8.1.2014 kl. 13:14
Jú, er það ekki þannig Ómar að hverjum þykir sinn fugl fagur. Það er líkt með fjölskyldum og dæmum af þjóðum, sem þú nefnir, að þegar fjölskyldan er gagnrýnd af einhverjum sem tilheyrir hanni þá er meira umburðarlyndi gagnvart gagnrýninni en ef hún er sett fram af einhverjum utan fjölskyldunnar.
Páll Vilhjálmsson, 8.1.2014 kl. 15:17
Það er hæpið að ætla að alhæfa eitthvað um þjóðir;
=Það er hægt að finna eitthvað jákvætt og neikvætt í öllum löndum.
>Það eru bæði snillingar og kjánar í öllum löndum.
Jón Þórhallsson, 8.1.2014 kl. 15:21
Hin klassíska spurning „How do you like Iceland?" lýsir því vel sem þú ert að tala um, Ómar :) Hún heyrist ekki eins oft núna, sem er þroskamerki að mínu mati.
Wilhelm Emilsson, 8.1.2014 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.