ATHYGLISVERÐ SKOÐANAKÖNNUN

 

Það er ekki einkamál eins sveitarfélags hvernig anddyri landsins, sem erlendir gestir koma fyrst í, lítur út. Raunar er það ekki einkamál Íslendinga hvernig við förum með þau náttúruverðmæti sem við varðveitum fyrir óborna Íslendinga og mannkyn allt. Samkvæmd skoðanakönnun Fréttablaðsins eru rúm 60 prósent landsmanna andvíg stækkun álversins í Straumsvík og drjúgur meirihluti þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn andvíg henni.

Auðvitað á að vera þjóðaratkvæði um fyrirhugaða álvæðingu á Reykjanesskaga sem snertir á annan tug sveitarfélaga og mun fjötra skagann í net verksmiðja, virkjana og háspennulína allt frá Garðskaga austur í hreppa.

Skoðanakönnunin leiðir ýmislegt athyglisvert í ljós. Ekki er marktækur munur á viðhorfum kjósenda Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins. Þó er Framsóknarflokkurinn orðinn tákngervingur stóriðjustefnunnar en Frjálslyndi flokkurinn að reyna að sýnast grænn. Fjórðungur þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna styður stækkun. 

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vega þyngst í stuðningi við stækkun álversins, 70 prósent þeirra eru með en 30 á móti. Þarna kemur berlega í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem styður stækkunina eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins og því er það hlutverk Framsóknarflokksins ömurlegt að vera tákn stóriðjustefnunnar þegar það er í raun og veru stóri flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, sem ber þar höfuðábyrgð.

En tölurnar sýna líka að 30 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru á móti stækkuninni. Þetta fólk er læst inni í flokknum af því að það sér ekki trúverðugan valkost hægra megin við miðju sem getur veitt því tækifæri til að láta í ljós skoðun sína á stóriðjumálunum. Þessu þarf að breyta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda bloggar

vildi skilja eftir litla kveðju til þín

Adda bloggar, 28.2.2007 kl. 11:36

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ómar, hvar get ég nálgast nánari upplýsingar um mögulegt framboð "hægri grænna"? Hef mikinn áhuga á framvindunni og eins að leggja fram aðstoð ef vantar hendur eða annað.

Ég er með t.d. baddiblue@gmail.com

Baldvin Jónsson, 28.2.2007 kl. 13:05

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú ert hræddur Hallur. Bara þetta orðalag þitt ; "háspennuvíraflækjur út um allt".      Úr hvaða slagorðasmiðju kemur þetta?.

Heldurðu að þetta sé mat þeirra sem ráðgera þessar framkvæmdir? Hey...stækkum álverið og setjum háspennuvíraflækjur út um allt! Við kaupum bara umhverfismat sem segir að það sé allt í lagi!.

Heldurðu að þetta gangi svona fyrir sig?

Og varðandi skoðanakannanir þá eru þær engin rök í sjálfu sér fyrir tilteknum sjónarmiðum. Hrina ýkju og hræðsluáróðurs gengur yfir þjóðina gegn hvers kyns virkjunum og stóriðju. Alverndunarsinnar eru mun duglegri að koma sínum sjónarmiðum á framfæri en þeir sem vilja gæta hófs og forðast öfgar. Það er eðli öfgasinna að vera áberandi, þeir hrópa hæst. Þegar bylgja mótmæla gekk yfir þjóðina í Eyjabakkamálinu, þá sýndu skoðanakannanir svipaða niðurstöðu. Reyndar snerist sú skoðanakönnun um það hvort Eyjabakkar ættu að fara í umhverfismat áður en framkvæmdir hæfust, þó þess þyrfti ekki lögformlega séð, m.a. vegna þess að Hjörleifur Guttormsson og Alþingi hafði heimilað lónsstæði þarna í Iðnaðarráðherratíð Hjörleifs, áður en lög um umhverfismat voru sett. Skoðanakönnunin um Eyjabakka voru einnig notuð sem innleg í rökræður um þá framkvæmd. Þegar fylgjendum framkvæmdanna var nóg boðið og raddir þeirra fóru að heyrast þá snerist dæmið við og skoðanakönnun um málið var allt í einu lítils virði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 13:16

4 Smámynd: Snorri Hansson

Ómar rök þín eru ýkt þvaður. Þú er í hópi fólks sem stundar þá íþrótt að níða niður
atvinnuvegi landsins. Það er napurlegt til þess að vita.  

 

Snorri Hansson, 28.2.2007 kl. 13:55

5 identicon

Hafnarfjörður verður ekki álbræðslubærinn 

Hafnfirðingar munu greiða stóriðjuofstækinu þungt högg. Við getum treyst því. Hafnfirðingar munu haga sér eins og Hafnfirðingum sæmir en ekki eins og þurfalingar.

Hafnarfjörður verður ekki álbræðslubærinn. Hafnarfjörður verður eftirsóttur af fólki sem vill ala börn sín upp í heilnæmu andrúmslofti, umhverfi með fjölbreyttu og blómstrandi atvinnulífi. - Fasteignaverð í Hafnarfirði mun hækka á næstu árum, ekki lækka.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 14:00

6 identicon

Gunnar Theodór,
þeir sem vilja vernda náttúruna og telja að setja eigi stóriðjustefnuna á bið eru ekki öfgasinnar, heldur einmitt fólk sem vill gæta hófs og forðast öfgar. Nú veit ég ekkert um þinn bakgrunn en af skrifum þínum má sjá að þú ert mikil stuðningsmaður stóriðju og þar með eyðileggingar á náttúru landsins.  
Höfum það á hreinu á að "snyrtileg" heimildamynd eins og sýnd var á RÚV í gærkvöldi er fyrst og fremst grímulaus áróður fyrir Landsvirkjun og þau stjórnvöld sem rekið hafa stóriðjustefnuna. Og þetta er allt kostað af almannafé og þá ekki bara af þeim sem hafa svipaðar skoðanir og þú.  
Andri Snær sýndi svo glögglega í Draumalandinu fram á fáranleika stóriðjustefnunnar og hvernig virkjana- og álbræðsluöfgar stjórnvalda hafa leitt okkur á þá kölröngu braut sem nú blasir við.
Það jákvæða er að nú eru sífellt fleiri að vakna og átta sig á að til sé önnur framtíð en að gera Íslands að einum stærsta álbræðsluframleiðanda heims.

Við Íslendingar glötuðum meðvitað stærsta víðerni Evrópu en nú stöndum við Hafnfirðingar frammi fyrir því að geta komið í veg fyrir að stærsta álver Evrópu með öllum sínum neikvæðu áhrifum verði að veruleika.

Með kveðju,

Þröstur Sverrisson,
félagi í Sól í Straumi. 

Þröstur Sverrisson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 17:01

7 identicon

Ekki leiðrétting, aðeins spurning til þín Ómar.    Hvers vegna greinir þú ekki frá að yfir 90 % Vinstri grænna er á móti stækkun álvers í Straumsvík. Finnst þér það ekki góðar fréttir, eða stríðir það á einhvern hátt á móti sífelldu tali þínu um framboð hægri grænna?  Með vinsemd og virðingu.

Þorkell Sigurjónsson. (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 17:06

8 identicon

  Í kosningum til bæjarstjórnar voru Vinstri grænir eini flokkurinn sem lýsti sig andvígan stækkun álversins.  Ég fagna því hinsvegar ef annað "grænt" framboð lítur dagsins ljós.  Hinsvegar hef ég þá skoðun, þrátt fyrir að ég treysti íbúum Hafnarfjarðar til þess koma í veg fyrir stækkun, að þetta sé einmitt ekki þeirra einkamál.  Svona stórar ákvarðanir ættu heima í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda snertir þetta landið okkar allt!  En hættan liggur í því að sumir þeirra sem fjær eru hafa tilhneigingu til að hunsa það sem er ekki alveg við bæjardyrnar hjá þeim.  Fyrir okkur Hafnfirðinga,flesta, sem höfum þetta fyrir vitunum (í öllum skilningi) er það deginum ljósara hvaða afleiðingar þetta hefur.    

Bára (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 17:45

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hef aldrei gagnrýnt fólk fyrir að vera andvígt stóriðju eða virkjunum. Aðeins röksesemdarfærslunum sem notaðar eru til að afla fylgis við þær skoðanir.

Ég á að vera "mikill stuðningsmaður stóriðju og þar með eyðileggingar á náttúru landsins".  

Er þetta málefnalegt innleg? Nei, en þú reynir að draga upp dökka mynd af mér. Ég er hlyntur tilteknum stóriðjuáformum og er tilbúinn að skoða með fordómalausum huga fórnarkostnaði við tilteknar virkjanir.

Bók Andra Snæs er er ekki gott fræðirit og reyndar hlægilegt að hún skyldi vera verðlaunuð sem slík. Verðlaun SUS voru hins vegar réttlætanleg, og endurspegluðu að mínu mati ást SUS á tjáningafrelsinu. Um fræðslumynd Landsvirkjunar er ekki annað að segja en hún hafi sýnt veruleikan eins og hann blasir við. Þar var ekki notast við fantasíur og fordóma eins og í bók Andra, en hafa ber í huga að þessi þáttur er aðeins einn af níu og ég held að það sé rétt að bíða með dóma þar til heildarverkið liggur fyrir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 18:11

10 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Blessaður Ómar.

Sammála um að skoðanakönnunin er áhugaverð og gefur vísbendingu um vilja þjóðarinnar í stóriðjumálunum. Ég er líka sammála því að stækkun ALCAN er ekkert einkamál okkar Hafnfirðinga og vona því að stækkunin verði felld 31 mars og að þjóðin öll geti kosið um stóriðjumálin í vor.

Gunnar Theodór. Það er nauðsynlegt að vera málefnalegur og færa fram rök fyrir máli sínu í þessari umræðu um stóriðjumálin og virkjanir á háledni Íslands. Því spyr ég þig hvaða rök færir þú fyrir því að bók Andra Snæs sé slæmt fræðirit og þar sé borin á borð fantasíur og fordómar? Hefur þú líka tölur sem sanna það að alverndunarsinnar, sem þú kallar svo, séu duglegri en andstæðingar þeirra að koma sjónarmiðum sínum á framfæri?

Lárus Vilhjálmsson, 28.2.2007 kl. 18:30

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bók Andra er nú komin aftur í bókasafnið en ég er óhræddur við að tína uppúr henni bullið, en til þess þarf ég að hafa hana á milli handanna. Þar var svo margt sláandi vitlaust og vakti reyndar undrun mína að ekki skyldu lærðir menn leggja smá vinnu í það að flysja utan af henni blekkingarhýðið. Ég vil þó benda á ágæta grein eftir Jón Sigurðsson formann Framsóknarflokksins sem birtist í einhverju blaðinu fyrir nokkrum mánuðum síðan. Sú grein var málefnaleg og benti hann meðal annars á hve fræðilega Draumalandið  var grunnt og að ýmis rök, fullyrðingar og útreikningar héldu ekki vatni. Enda við hverju er að búast af rómantísku skáldi. Ég get eflaust grafið þessa grein upp fyrir þig ef þú hefur áhuga.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 18:56

12 Smámynd: Guðbjörg Eva Guðbjartsdóttir

Ég vildi þakka þér fyrir áhugaverðan fyrirlestur í dag. Ég var sammála þér í alla staði með blindni íslendinga á þessar blessuðu virkjanir. Við samþykkjum allt og mótmælum of lítið ef það er okkur ekki til geðs, það er vandamálið.

Takk takk.

Kv. G.Eva.G

Guðbjörg Eva Guðbjartsdóttir, 28.2.2007 kl. 19:05

13 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Andyri landsins eður ei, siptir ekki máli.

Svona mál eins og stækkun álversins á ekki að vera einkamál eins sveitarfélags yfirleitt. Þetta mál varðar okkur öll. Þessi hræðsluáróður sem vinir álversins reka er líka alveg fáránlegur, þeir halda því fram að Hafnarfjörður leggist nánast í eyði ef álverið fer. 

Þóra Guðmundsdóttir, 28.2.2007 kl. 19:35

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var ekki ætlun mín að gera lítið úr andstöðu vinstri grænna gegn stækkun álversins, - þvert á móti eiga þeir skilið hrós fyrir að vera eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur nær undantekningarlaust staðið í lappirnar í umhverfismálum. Ég hef margoft áður hælt þeim fyrir það.

Ástæða þess að mér fannst þessi 90 prósent ekki fréttnæm var einmitt sú að ég bjóst við þessari háu tölu af þessu góða umhverfisverndarfólki sem gæti fengið miklu meira fylgi ef það rígbyndi sig ekki úti á vinstri kantinum í íslenskum stjórnmálum.  

Það er alltaf gaman að heyra menn tala um "hófsemi án öfga" hjá stóriðjusinnum sem stefna að  því að virkja helstu náttúrugersemasvæði landsins fyrir álverin. Við hin sem viljum andæfa og halda einhverju eftir erum kölluð "öfgafólk." Orwell hefði elskað þetta. 

Ómar Ragnarsson, 28.2.2007 kl. 20:25

15 identicon

Gunnar Theodór, ég tel mig ekki vera að draga upp dökka mynd af þér heldur eingöngu að gagnrýna skrif þín um stóriðju og virkjanamál.
Hvet þig einnig til að skrifa bókagagnrýni um Draumalandið. Minni þig þó á að hún vann í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. 
Þekki til skrifa Jóns Sigurðssonar og get ekki tekið undir orð þín um hans skrif. 
Það væri hægt að hafa mörg orð um þáttaröð Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun en að tala um að "hún hafi sýnt veruleikan eins og hann blasir við" á sannarlega ekki við.
Hvað tilteknu stóriðjuáformum ertu hlynntur og hvaða virkjunum og hvers vegna? 

Þröstur Sverrisson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 20:43

16 identicon

sæll ómar

ég held að stjórnarflokkarnir vilji ekkert fá stóriðju í hvern fjörð eins og sumir vinstri menn halda fram.    þeir hafa hinsvegar það markmið að fá öflugt atvinnu og efnahagslíf og aðferðin hefur verið stóriðja.   ef það kæmi fram önnur sannfærandi aðferð til að ná þessu markmiði held að stjórnarherrarnir myndu glaðir stökkva á hana. ég held að umhverfisvinir ættu nú að einbeita sér að því koma með sannfærandi hugmyndir um hvað getur komið í staðinn þannig að stóriðja verði ekki nauðsynleg til að halda uppi atvinnulífi.    stjórnarliðum hefur ekki fundist hugmyndir umhverfisvina vera raunhæfar hingað til svo að stóriðjustefnan er enn við lýði

ólafur jóhannsson (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 21:50

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er hárrétt hjá þér Ólafur.

Ég var og er hlyntur Kárahnjúkavirkjun og áður Fljótsdalsvirkjun. Þar af leiðandi hlyntur stóriðju á Reyðarfirði. Tel reyndar að það sé verið að fórna meiru við Kárahnjúka en á Eyjabökkum.

´Mér er í sjálfu sér ekkert kappsmál um stækkun í straumsvík en mér finnst sárt að sjá það fólk sem vill þá stækkun vera kaffært í sama bullinu og við austfirðingar fengum yfir okkur. Ég tel samt að stóriðjutrompinu sé best varið í uppbyggingu á landsbyggðinni þar sem einhæft atvinnulíf er dragbítur á framþróun. Tek samt fagnandi öllum öðrum raunhæfum hugmyndum. Ég hefði t.d. tekið útibú frá Silicon Valley fram yfir álbræðslu í Reyðarf. hefði það staðið til boða. Virkjun í neðri hluta Þjórsár hefur verið í farvatninu lengi og enginn sagt neitt fyr en nú, enda kosningar í nánd og í augnablikinu fiskast atkvæði vel á náttúruvernd.

Ég er fylgjandi álveri á Húsavík og Helguvík því virkjanakostir í jarðvarma í nágrenni þessara staða er álitlegur kostur. En það þarf að dreifa þessum framkvæmdum á hæfilega löng tímabil. Ég tel aðal hættuna varðandi þessi verkefni, fyrir utan hættuna á að alverndunarsinnar stoppi þetta af, sé að stjórnmálamennirnir verði "of graðir" í að koma þessu á koppinn með slæmum afleiðingum fyrir efnahaginn.

Þar með held ég að stóriðjudraumar mínir séu upptaldir...í bili.

 Ég tel stóriðjuna góðan og stöðugan valkost í annars sveiflukenndu atvinnulífi vertíðarþjóðfélagsins. En stóriðja þarf ekki endilega að þýða álver. Stóriðja er einfaldlega stór vinnustaður sem sem virkjar fólk og fyrirtæki til framlegðar fyrir þjóðfélagið allt. Sterk innspíting sem hefur áhrif. Án þessa er þetta auðvitað einskis virði. Og auðvitað verður fljótlega komið nóg af þessu, ég tel bara þann tímapuntkt ekki kominn enn. Þegar áverið í straumsvík reis vorum við hálfri öld á eftir öðrum þjóðum í iðnvæðingu. Okkar eina frumauðlind var í raun fiskurinn. Frumauðlindir flestra annara þjóða er mun fjölbreyttari en okkar s.s. málmar, skógar, olía og gas, ferðamannaiðnaður, landbúnaður o.fl.  Danmörk er fremur fátækt af auðlindum en þeir vinna það upp með þróuðu viðskiptalífi, þeir kunna það flestum þjóðum betur enda vel í sveit settir hvað markaði varðar. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2007 kl. 23:29

18 Smámynd: Björn Emil Traustason

Ef Hafnfirðingar fella stækkun Alcan verður það rothögg. Ekki bara fyrir Hafnfirðinga heldur líka fyrir suðvesturhornið og Íslendinga.

Næsta Álver verður að rísa við Húsavík.

Björn Emil Traustason, 1.3.2007 kl. 00:01

19 identicon

Einaráðið til að hindra þessi stóriðjuáform eru að fella ríkisstjórnina.

Hvar í veröldinni eru álver stækkuð inn í miðjum bæ, nema kanski í austur evrópu því miður væntanlega vegna fátæktar.

Ekki erum við íslendingar svo fátækir að við þurfum þess.

Álverið í straumsvík er tímaskekkja á 21.öldinni.

Best væri að loka því.

seh (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 01:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband