9.1.2014 | 00:45
"Skipulögð vitfirring" 1914, - "GAGA" 2014.
Lloyd George þáverandi fjármálaráðherra Breta sagði í áramótaræðu 1. janúar 1914 að vígbúnaðarkapphlaupið, sem hafði árin á undan verið í algleymingi í Vestur-Evrópu, væri "skipulögð vitfirring".
Hann hefði ekki getað hitt á betri lýsingu og magnaðri forspá um það sem átti eftir að gerast árinu, sem var að ganga i garð.
Lloyd George hafði allt fram til 1911 verið mjög andvígur öllu því sem gæti orðið til þess að magna stríðshættuna, en eftir átök á milli Frakka og Þjóðverja í Agadir í Marokkó það ár lagðist hann á sveif með eindregnum andsvörum við stigmögnun hernaðaruppbyggingar Þjóðverja.
1914 hafði í fyrsta sinn í margar aldir ekki verið háð neitt meiri háttar stríð í 43 ár. Að vísu höfðu verið háð smærri stríð á Balkanskaga árin á undan og Balkanskaginn var kallaður "órólega hornið á Evrópu, en almennt ríkti sú trú að framundan væri áframhaldandi tíð stórkostlegra framfara og vaxandi velmegunar.
En í ljós kom að neistaflugið á "órólega horninu á Evrópu" gat orðið að ígildi neistans, sem sprengir púðutunnuna í loft upp.
Morðið á austurrísku ríkiserfingjahjónunum í Sarajevo 28. júní gat ekki komið á verri tíma. Næsta mánuð þar á eftir hamlaði það mjög yfirveguðum og markvissum viðbrögðum við atburðarásinni, sem fór í gang, að ráðamenn álfunnar voru meira og minna í sumarleyfum eða á faraldsfæti og fjarskipti á okkar tíma mælikvarða frumstæð og hæg.
En óveðursskýin höfðu hrannast upp og það sem Lloyd George var að tala um speglaðist meðal annars í því að Winston Churchill sagði, að fyrir hverja viðbót við þýska flotann þyrftu Bretar að bæta tvisvar sinnum meira við þannig að stærðarmunurinn yrði aldrei minni en 8 á móti 5.
Fyrri heimsstyrjöldin var í raun aðeins fyrsti hlutinn af þriggja kafla stríði, 1914-1918, 1937/39/41-1945 og síðan Kalda stríðsins 1945-1991. Aldrei hafa jafnmörg stórveldi hrunið og á árunum 1914-1991.
Afleiðingarnar blasa enn við. Eitt besta dæmið er hið furðulega hérað í Rússlandi, Kaliningrad, rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland og með álíka marga íbúa, sem liggur afskorið 300 kílómetra frá móðurríkinu við suðausturhorn Eystrasalts.
Þetta var áður Austur-Prússland en í sviptingum Seinni heimsstyrjaldarinnar var Þýskalandi þrýst vestur fyrir Oder, þannig að austurlandamæri Þýskalands liggja nú 400 kílómetrum fyrir vestan þennan fyrrum austasta hluta Prússlands, sem margir kölluðu "vöggu þýskrar hernaðarhyggju".
14 milljónir manna alls voru fluttar með valdi frá heimkynnum sínum í stríðslok til þess að fullnægja uppgjafarskilmálum sigurvegaranna, sem krafist höfðu skilyrðislausrar uppgjafar af Þjóðverjum allan stríðstímann.
Á þessu ári eru liðin 68 ár frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar og það ætti að vera orðinn nógu langur tímakafli til þess að ekki verði framað hróflað við landamærum í Evrópu.
En skefjalaus vígbúnaður er og verður áfram sama "skipulagða vitfirring" og Lloyd Georg kallað hann fyrir réttri öld.
Þrátt fyrir nokkurn samdrátt kjarnorkuvopnabúra heims eru þau jafn mikil ógn við allt líf á jörðinni og áður og tilvist þeirra ekkert annað en "skipulögð vitfirring" eins og nafn hugmyndafræðinnar að baki þeirra ber með sér: "Mutual Assured Destruction", skammstafað MAD.
Á íslensku: Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra, skammstafað GAGA.
Gefur myndir frá fyrri heimsstyrjöldinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Neskaupstaðar neistaflug,
næstum allir kommar,
Austfirðinga eistnaflug,
allir eru hommar.
Þorsteinn Briem, 9.1.2014 kl. 01:04
Hátíð þessa eina á
með Andra Frey ég leit.
Af gagnkynhneigðum gnægð var þá
og greddan sönn og heit.
Ómar Ragnarsson, 9.1.2014 kl. 01:50
Allt í lagi að kasta stökum en sé ekki samhengið á milli Kaliningrad og Neskaupstaðar eins og hann er nú.
Ómar Ragnarsson, 9.1.2014 kl. 01:51
Ég sé engan mun á Kaliningrad og Neskaupstað.
Þorsteinn Briem, 9.1.2014 kl. 02:05
Í haust þar sá ég hreina mey,
hún var þar sú eina,
upp'á var þar Andra Frey,
öldruð gengilbeina.
Þorsteinn Briem, 9.1.2014 kl. 02:17
Hann Steini Briem með klámkjaft sinn,
gekk um Neskaupstaðinn,
þar gekk hann gleiður kinn við kinn
með hommann sinn um bæinn.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 9.1.2014 kl. 08:52
Stillum okkur nú aðeins, piltar, stillum okkur.
Ómar Ragnarsson, 9.1.2014 kl. 09:47
Nú kem ég með innlegg sem tengist fréttinni.
Fyrir allnokkru fór ég á safn í Saarbrucken. Þar voru ljósmyndir úr fyrra stríði, - og haldið ykkur nú, - í þrívídd.
Svart-hvítar að sjálfsögðu, en upplausnin var þokkaleg, og upplifunin rosaleg.
Þvílíkt rosa svínarí. Það sitja enn í mér myndir eftir stórskotaliðsárás, - mannskrokkar, hrossaskrokkar, vagnhjól, for, pollar, og gígar.
Og til hvers?!?!?!
Mannfall á meginlandi Evrópu var með ólíkindum, og meira þar en í seinna stríði. Eins á úthöfunum, - stærsta sjóorrusta allra tíma var við Jótland vorið 1916.
Niðurstaða?
Sáning að næsta stríði, sem var bæði víðbreiddara og blóðugra.
Jón Logi (IP-tala skráð) 9.1.2014 kl. 09:54
Bráðum springa mörlensku þjóðernissinnarnir í loft upp af örvinglan og bræði, þannig að sviðakjammar, súrsaðir hrútspungar og lundabaggar dreifast yfir heimsbyggðina.
Þorsteinn Briem, 9.1.2014 kl. 15:42
Fyrri heimsstyrjöldin var eitthvert tilgangslausasta og óþarfasta stríð sem háð hefur verið.
Í orrustunni við Somme 1916 féllu 50 þúsund ungir Bretar fyrir hádegi á upphafsdeginum. Orrustan stóð mánuðum saman með falli hundraða þúsunda ungra manna og skilaði hvorugum stríðaðilanum nokkrum árangri.
Að horfa yfir hæðirnar við Verdun, þaktar legsteinum eins langt og augað eygir, er ólýsanlega sorgleg sjón.
Stríðið átti eftir á að verða "stríðið sem bindur enda á allar styrjaldir" en varð samt kveikjan að enn verra stríði, þar sem mannfallið meðal óbreyttra borgara varð margfalt meira en mannfall meðal hermannanna í fyrra stríðinu.
Ef fótgönguliðarnir gátu komist á góðan skrið við að reka óvinina á undan sér, voru þeir murkaðir niður af eigin stórskotaliði !
Einn hershöfðingja Breta sagði í firringu sinni, að ef stríðið kostaði það að þurrka allan óvinaherinn út en eiga sjálfir eftir þúsund hermenn, væri það eftirsóknarvert, því að þá væri sigurinn unninn!
Ómar Ragnarsson, 9.1.2014 kl. 23:29
Kaliningrad, sem áður hét Königsberg var áður höfuðborg Austur-Prússlands og telur um 430 þúsund íbúa.
Kaliningrad-héraðið (Kaliningrad Oblast)er norður hluti fyrrum Austur-Prússlands og er það hérað sem þú virðist vera að tala um Ómar. Það er aðeins rúmir 15 þúsund km2 að stærð, eða tæp 15% af stærð Íslands en ekki "rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland" eins og þú skrifar. Fólksfjöldinn mun vera um 950 þúsund. Allt Austur-Prússland, sem tilheyrði Þýskalandi til loka seinni heimsstyrjaldar mun hafa verið um 37 þúsund km2 eða um 36% af stærð Íslands. Stærri hlutinn af Austur-Prússlandi var sölsaður undir Pólland við stríðslokin. Pólverjar fengu að auki miklu stærri sneið en þetta af Þýskalandi í vestri eða um 77 þúsund km2.
Samtals fengu Pólverjar næstum 100 þúsund km2 sem er nálægt því að vera heildarstærð Íslands.
Samtals sölsuðu Rússar og Pólverjar undir sig um 114 þúsund km2 af Þýskalandi í og uppúr stríðslokum.
Á sama tíma hrifsuðu Rússar aftur Austur-Pólland til sín, um 181 þúsund km2, sem þeir misstu uppúr lokum fyrri heimsstyrjaldar.
Daníel Sigurðsson, 10.1.2014 kl. 03:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.