9.1.2014 | 22:44
Hreindýrið að verða elgur Íslands.
Heimsfrægt varð fyrir 18 árum þegar tveir nýir bílar sem framleiða átti á vegum Mercedes Benz verksmiðjanna, Mercedes-Benz A og Smart, ultu í svonefndu"ellgsprófi" sænskra bílasérfræðinga.
Hönnuðir beggja bíla urðu að fara á handahlaupum að teikniborðunum og breyta þeim, svo að þeir stæðust prófið.
Til þess að þeir yltu ekki varð að breikka þá báða, sem var hálf afkáralegt á Smart, og lækka fjöðrunina og gera hana grynnri og harðari á báðum bílum, sem bitnaði svo á þægindum þeirra að það háði þeim alla tíð eftir það.
Báðir bílarnir voru með tvöfaldan botn sem gerði kleyft að hafa þá um hálfum metra styttri en ella og spara rými en viðhalda hins vegar fullu öryggi í árekstrum.
Fyrir bragðið sátu farþegarnir hátt og þyngdarpunkturinn varð það hár að þeir ultu í elgsprófinu.
Elgsprófið fólst í því að aka bílnum á þjóðvegahraða og líkja eftir því að elgur hlypi fyrirvaralaust inn á veginn. Bílstjórinn reif þá í stýrið til að komast fram hjá elgnum í krappri vinstri beygju en varð strax að beygja hart í hina áttina til þess að lenda ekki út af veginum.
Seinni beygjunni tvöfaldaðist halla-miðflóttaaflið og bíllinn valt.
Nú virðist hreindýrið á góðri (slæmri?) leið með að verða elgur Íslands í þessu tilliti.
Í Svíþjóð er sérstakt aðvörunarskilti við vegi þar sem búast má við að elgur hlaupi fyrirvaralaust inn á veginni.
Þegar "elgsprófið" kom til sögunnar var það umdeilt en það hefur sannað gildi sitt og hefði betur verið komið fyrr til skjalanna til þess að bílar væru hannaðir með tilliti til þess.
Þess má geta að þegar Vilhjálmur heitinn Vilhjálmsson beið bana í umferðarslysi 1978, var hann að komast hjá árekstri við bíl sem kom á móti honum, með því að beygja fyrst snöggt til hægri og síðan strax skarpt til vinstri til að fara ekki út af veginum. En bíll hans valt út af veginum og lenti á tré.
Þetta var Citroen 2CV "braggi" sem var með svo óskaplega langri og mjúkri fjöðrun, að hann sveiflaðist svakalega til í beygjum.
Ég tel afar líklegt að "Bragginn" hefði ekki staðist elgsprófið ef hann hefði verið settur í það.
Bragginn var því mður eini bíllinn sem Vilhjálmur gat fengið á leigu í þetta skipti, nokkuð sem hugsanlega réði úrslitum um þetta hörmulega slys og missi þessa frábæra listamanns langt um aldur fram.
20-30 hreindýr hafa drepist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.