10.1.2014 | 10:55
Misjafnlega erfitt að útskýra suma drauma.
Stundum hendir það fólk sem lýst er með orðunum "að dreyma fyrir daglátum."
Í nótt dreymdi mig að padda hefði borað sér inn í eyrnasnepilinn á mér og að ég yrði að ná henni út.
Svo vakna ég og sé núna á mbl.is frétt um að kakkalakki hafi komið sér fyrir í eyra Ástrala nokkurs og hann átt í erfiðleikum með að ná honum út.
Furðuleg tilviljun?
Ætli það sé ekki allur gangur á því?
Ólafur B. Guðnason, sem var spurningameistari í spurningaþáttum, sem ég var með, hafði að ég held litla trú á "hindurvitnum". Að minnsta kosti sýnist saga, sem hann sagði okkur þegar við ræddum þau mál, vísa til þess. Sagan er svona:
Kona nokkur sagðist vera skyggn og sjá fyrir óorðna hluti. Sem dæmi um það sagði hún frá draumi, sem hana dreymdi árið 1972 og hefði verið afar merkilegur. Konunni sagðist nokkurn vegina svona frá:
"Mig dreymdi að ég stæði niðri í fjöru við Þorlákshöfn og horfði út á hafið. Skyndilega sást risastórt höfuð koma upp úr sjónum og smám saman birtisti risastór kona, já, heilt kventröll, sem kom gangandi upp úr sjónum uns hún stóð í flæðarmálin og gnæfði ógnandi yfir mig.
Hún hvessti á mig augun og sagði svo hátt að næstum bergmálaði í fjöllunum: "Ragnar Arnalds!!!"
Og það var eins og við manninn mælt að ári síðar gaus í Heimaey! "
Kakkalakki tók sér bólfestu í eyra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Menn eiga að skrá hjá sér drauma sína með dagsetningum. Ekki er hægt að taka mark á draumum sem sagðir eru eftir að þeir atburðir gerast sem menn þykjast hafa dreymt fyrir. Þessi draumur konunnar er svo varla hægt að túlka sem eldgosaspá!
Sigurður Þór Guðjónsson, 10.1.2014 kl. 12:28
Mig dreymdi einu sinni að verið var að handtaka jólasveininn. Tveir álfar uppá hól hrópuðu í ofvæni, "menn handtaka ekki jólasveininn, það er bara ekki gert"!
Og vitir menn daginn eftir sá ég á forsíðu fréttablaðsins þar sem tveir fílefldir lögreglumenn voru að bera Ómar Ragnarson á milli sín úti í hrauni.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.1.2014 kl. 12:48
Góður brandari, Ómar...og djúpur. - Meira að segja svo djúpur að sumir skildu hann ekki....
Már Elíson, 10.1.2014 kl. 18:21
Mjög athyglisverðar og framúrstefnulegar voru kenningar dr. Helga Pjéturss um drauma. Hann var raunar sakaður um að vera veill á geði þegar hann fyrstur manna á Íslandi, ef ekki víðar, sást "trimma" sér til heilsubótar. Raunar veiktis hann svo á einni af rannsóknar ferðum sínum, en það er önnnur saga. Þegar maður les Nýalana fer ekki á milli mála að þar fór stórgáfaður, margtyngdur, sem var langt, langt á undan sinnu samtíð okkar líka.
Þjóðólfur (IP-tala skráð) 10.1.2014 kl. 18:50
Ég er reyndar búinn að skrifa 80 blaðsíður af 400 blaðsíðna sögu, þar sem afbrigði af fjarhirfakenningu Helga Pjeturss kemur við sögu. Vona að hún klárist einhvern tíma.
Ómar Ragnarsson, 10.1.2014 kl. 20:06
Fjarhirfakenning eða fjarhrifakenning (telemnesia), skiptir engu máli hvernig við skrifum þetta. Því tómt rugl, á sér enga stoð í raunveruleikanum.
Precognition (future sight) er ekki til, náttúrulögmálin leyfa ekki slíkt.
Draumar eru myndir af handahófi.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.1.2014 kl. 20:30
Góð saga Ómar
einar þorleifsson (IP-tala skráð) 11.1.2014 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.