10.1.2014 | 23:42
Tveir einstakir menn, Jónas og Kristinn.
Fyrir um aldarfjórðungi fórum við fjórir, ég, Haukur Heiðar Ingólfsson, Kristinn Sigmundsson og Jónas Ingimundarson í ferð festur á Snæfellsnes til að skemmta þar. Gott ef þetta var ekki 1. maí og á slíkum samkomum töluðu oft ræðumenn að sunnan, sem kannski er ekki hægt að skilgreina sem skemmtikrafta en verða oft samferða.
Mig minnir að Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hafi verið ræðumaður og orðið okkur samferða til Reykjavíkur.
Skemmst er frá því að segja að að hundruðum annarra ferðafélaga ólöstuðum um ævina, Sumargleðin meðtalin, voru þessari ferðafélagar þeir skemmtilegust sem ég minnist að hafa fengið að ferðast með á þúsundum slíkra ferðalaga um landið.
Við bókstaflega lágum í hlátri alla bakaleiðina frá Ólafsvík til Reykjavíkur, og þá var farin 41 kílómetra lengri leið en nú, fyrir Hvalfjörðinn.
Kannski var þessi ferð svona einstök vegna þess, að það var ekki aðeins húmorinn og lífsgleðin sem þeir félagar miðluðu okkur hinum, heldur var unun að hlusta á hvernig þeir unnu saman á skemmtunum sjálfum sem söngvari og undirleikari.
Ekki gaf það minna af sér hve hógværir og yfirlætislausir þeir voru og eru, þessir ljúflingar og öðlingar.
Um listræna sköpun þeirra hefur oft átt við, að smáatriðin geta orðið stór, - og stundum á við erlenda orðtakið "less is more."
Ég skal nefna eitt lítið dæmi af ótal mörgum.
Hamraborgin er lag sem allir tenórar elska. Barítónbassar forðast að syngja hana, enda hái tónninn ekki eins hár hjá þeim og tenórunum. Þetta er bara fyrir tenóra, - eða hvað?
Nei, ef hlustað er á flutning þeirra Kristins og Jónasar, kemur í ljós að hárfín nákvæmni og túlkun í smáu og stóru getur vegið þyngra en átök og tónhæð. Er ástæða til að fara yfir 5 metra í stangarstökki ef einhver annar fer yfir 6 metra?
Jú, vegna þess að svona lagað er ekki hægt að mæla í mælieiningum. Listræn túlkun og efnistök í list er ekki hægt að mæla í mælieiningum.
Þetta á svo sannarlega við um flutning þeirra á Hamraborginni. Ef ég ætti að velja hvaða útgáfu af þessu lagi ég vildi hlusta á, myndu þeir Kristinn og Jónas verða fyrir valinu að þeim Einari Kristjánssyni og Kristjáni Jóhannssyni ólöstuðum.
Eitt örlítið smáatriði í flutningnum á þessu lagi vegur afar þungt. Þegar komið er að þeim stað í laginu, þar sem næsta ljóðlína er "...Nóttinn logar af norðurljósum", sjálfur hápunktur lagsins, tekur píanóleikarinn "trillu" sem er nokkurs konar tilhlaup í hetjusönginn mikla.
Í flutningi allra annarra en Kristins og Jónasar er örstutt þögn á eftir línunni "...er blundað á rósum" sem píanóleikarinn endurtekur einn áður en ballið byrjar.
En þá kemur þessi undursnjalla snilld Jónasar til skjalanna: Hann lengir þessa örstuttu þögn hárfínt en þó um næstum helming.
Með því magnar hann spennuna í þögninni, logninu á undir storminum.
Í leikhúsinu er talað um "kúnstpásur" sem eru afar vandmeðfarið fyrirbæri, því að það þarf svo lítið til þess að þær verði ekki af réttri lengd, of langar eða of stuttar. Og síðan er auk þess spurningin hvort þær eigi viðí viðkomandi tilfelli.
"Kúnstpása" Jónasar er tær snilld að mínum dómi og hún er lykillinn að því að lokahnykkurinn á laginu magnast upp í hæstu hæðir þótt tónhæðin sé ekki sú sama og hjá hetjutenórunum.
Þetta er bara eitt af hundruð og þúsundum dæma um það hverju sannir listamenn og smekkmenn eins og Jónas og Kristinnn geta áorkað í túlkun sinni í smáu og stóru.
Afrek Jónasar síðustu 15 ár eru með hreinum ólíkindum og svo sannarlega ástæða til að óska honum til hamingju og velfarnaðar við að fagna 50 ára ferli sínum sem einn af helstu listamönnum þjóðarinnar.
Og ekki síður að þakka fyrir kynnin við hann og hið mikla framlag hans til íslenskrar tónlistar.
É
Ítrekað á mörkum lífs og dauða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég fékk að kynnast þeim Kristni Sigmundsyni og Jónasi Ingimundarsyni en allir vorum við nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík. Jónas ók alltaf um á Volkswagen bjöllu í þá daga, en hrökklaðist úr námi eftir bílslys sem hann örkumlaðist í á hægri fæti. Hann tók til starfa hjá föður sínum en hann rak heildsölu. Eftir að Kristinn kemur heim úr háskólanámi í Stavanger í Noregi, hefja þeir Jónas og Kristinn að skemmta saman.
Albert Jónsson (IP-tala skráð) 11.1.2014 kl. 06:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.