"Klakinn", tákn um "þetta reddast"-hugsunarhátt Íslendinga.

Þegar menn nota nafnið "Klakinn" yfir landið okkar fyrtast sumir við og finnst þetta vera ónefni og ósanngjarnt að nota svona orð um okkar ástkæra land.

Þetta er skondið vegna þess að klaki er bara orð yfir hugtakið ís, og landið heitir jú Ísland, er það ekki?  

Og líklega mætti það til sanns vegar færa að klakinn væri ekki nógu áberandi til að vinna sér sess sem heiti á landinu, ef hér væri stundaður snjómokstur líkt og tíðkast í sambærilegum borgum á Norðurlöndum.

Þegar ég var í Helsinki haustið 1966 voru herskarar verkamanna sem hömuðust daglega við að moka snjó og halda götum og gangstéttum hreinum. Finnarnir töldu sig hafa efni á þessu þótt þeir væru á þeim tíma ekki rík þjóð og við betur stæðari en þeir.

En þannig er það ekkik hér á landi. Klakinn, sem fólk er að beinbrjóta sig og slasast á í hundraða tali og kostar mikla peninga og þjáningar, væri ekki svona mikill hjá okkur ef hér ríkti ekki þetta þjóðareinkenni að afgreiða sem flest mál með "þetta reddast"- hugsunhætti okkar.

Menn reiða sig á það að það komi nógu löng og hlý sunnanátt til þess að bræða klakann og tíma því ekki að moka snjóinn strax. "Þetta reddast af sjálfu sér" er sagt.

Vetur eftir vetur kemur síðan klakinn samt, að vísu mismikið, en samt nógu oft og lengi til að valda meiðslum og fjártjóni, samanber nú og í hitteðfyrravetur.

Svipað gerist áratug eftir áratug og ætti að sanna fyrir okkur að "þetta reddast" atferli gengur ekki upp.

En á meðan við höldum samt áfram á sömu braut er heitið "Klakinn" yfir Ísland bara mátulegt á okkur.  


mbl.is Klakinn bráðnar ekki í bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Klakinn er ekkert tákn um "þetta-reddast".

Klakinn er tákn um skort á peningum til að að halda gangstígum og brautum það auðum, að litlar eða engar líkur séu á því að menn detti vegna hálku. En kostnaðurinn við slíkt yrði óviðráðanlegur. Fólk verður að átta sig á þessu og læra að takast á við vandann. Nota góða stama skó, jafmvel brodda. Einnig má læra að ganga í hálku, en fyrst og fremst að fara varlega og vera ekkert að þvælast úti að óþörfu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.1.2014 kl. 15:45

2 Smámynd: Skúli Víkingsson

Þetta vandamál er mest áberandi nú um stundir (síðustu vetur) í Reykjavík. Meirihluti í borgarstjórn hefur nefnilega þá bjargföstu sannfæringu að skattpeningum almennings sé betur varið í aðra hluti en að borgarbúar komi klakklaust ferða sinna. Borgarstjórn hefur verið iðin við að verja skattpeningum í alls konar gæluverkefni. Grunnþættir og skyldur sveitarstjórnar hafa frekar verið látin mæta afgangi.

Skúli Víkingsson, 13.1.2014 kl. 16:32

3 identicon

Það er mikið til í þessu hjá þér, Ómar.

Ég man þegar ég bjó í Danmörku á árunum 1991-2002, þá voru allir alltaf að hreinsa götur og stíga hjá sér þar í landi.

Vegamálayfirvöld voru alltaf að salta, og voru ekki að bíða eftir að snjórinn kæmi líkt og hér á landi, heldur tóku mark á veðurspám og gerðu fyrirbyggjandi ráðstafanir t.d. með því að salta götur og stræti áður en að það færi að snjóa til að koma í veg fyrir öngþveiti vegna hálku.
T.d. var byrjað að hreinsa og hálkuverja vegi þar í landi strax upp úr klukkan 4 á nóttunni til að umferðin yrði sem greiðust í morgunsárið þegar fólk væri að fara til vinnu.

Einnig voru húseigendur að moka, skafa og salta gangstéttir fyrir framan húsin sín, en húseigendur þar í landi bara ábyrgð á gangstéttum fyrir framan húsin sín.
Lögum samkvæmt í Danmörku hægt að sækja bætur til húseigenda vegna tjóns sem hlýst af hálku á gangstétt fyrir framan húsin þeirra hafi þeir ekki hálkuvarið gangstéttina fyrir fram hjá og einhver slasis af þeim sökum. 

Þetta mætti vera svona hér á landi.

Örn J. (IP-tala skráð) 13.1.2014 kl. 16:45

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Engin hálka í öðrum sveitarfélögum á Íslandi en Reykjavík.

Hversu mikinn sand eða salt þyrfti til að koma í veg fyrir hálku þar á öllum götum, gangstéttum og göngustígum allan veturinn?

Snjóhreinsun á þeim öllum einn dag er sama vegalengd og frá Íslandi til Japan.

Hvað verður svo um sandinn og hvaða áhrif hefur salt á bíla?

Þorsteinn Briem, 13.1.2014 kl. 17:13

5 identicon

Rétt, Steini Briem. Norður á Húsavík t.d. dettur mönnum ekki til hugar til að takast á við klakann og ísinn.

Vonlaust, Sisyphus.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.1.2014 kl. 17:21

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Grænlendingar kunna að ganga í hálku, færa þyngdarpunktinn neðar með því beygja hjáliðina og ganga hoknir eins og hringjarinn í Notre-Dame.

En Sjálfsstæðisflokknum finnst það hallærislegt, er því sífellt beinbrotinn og notar Framsóknarflokkinn sem hækju.

Þorsteinn Briem, 13.1.2014 kl. 17:54

7 identicon

Ap fitja upp á jafn venjulegum og nærtækum vandamálum og hálku á göngustígum höfuðborgarinnar er bara einelti á Jón Gunnar Kristinsson.

 Vandamálin þurfa að vera fjarlæg og hátt yfir skilning almennings til að hann nenni að hafa skoðun á þeim

Grímur (IP-tala skráð) 13.1.2014 kl. 17:58

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Nú er úti veður vott,
verður allt að klessu,
ekki á hann Grímur gott,
að gifta sig í þessu."

Þorsteinn Briem, 13.1.2014 kl. 18:07

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Hnjáliðina" átti þetta nú að vera.

En Sjálfstæðisflokkurinn er einnig með hjáliði, eins og dæmin sanna.

12.2.2013:


"Gatnakerfið í Reykjavík austan Elliðaáa þekur 51% af landinu.

Byggð svæði þekja einungis 35% og opin svæði 14%."

Ofvaxið gatnakerfi - Þétting byggðar

Þorsteinn Briem, 13.1.2014 kl. 18:57

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar er byggðin mun þéttari en austan Elliðaáa en þar eru samt stór opin svæði, Klambratún (Miklatún), Öskjuhlíð, Nauthólsvík, Ægisíða og Hljómskálagarðurinn.

Þar eru einnig einkagarðar við langflest íbúðarhús og í mörgum tilfellum bæði framgarðar og bakgarðar.

Alls áttu 40.295 lögheimili í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar 1. janúar 2013, rúmlega þriðjungur Reykvíkinga, þar af 15.708 í 101 Reykjavík, 16.067 í 105 Reykjavík og 8.520 í 107 Reykjavík.

Og þá áttu þar lögheimili 7.915 börn (sautján ára og yngri eru skilgreindir sem börn), þar af 2.659 í 101 Reykjavík, 3.203 í 105 Reykjavík og 2.053 í 107 Reykjavík, samkvæmt Hagstofu Íslands.

Þar að auki starfa flestir Reykvíkingar vestan Kringlumýrarbrautar.

Þorsteinn Briem, 13.1.2014 kl. 20:58

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er ekki rétt að flestir Reykvíkingar starfi vestan Kringlumýrarbrautar. Álíka margir Reykvíkingar starfa austan hennar. En síðan fylgir það ekki sögunni hvort Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær og Seltjarnarnes eru talin með.

Öll þessi bæjarfélög eru sama borgarsvæðið og því er það fráleitt að taka Reykjavík eina út úr eins og oft er gert.

Ómar Ragnarsson, 14.1.2014 kl. 01:16

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flestir Reykvíkingar starfa vestan Kringlumýrarbrautar og á því svæði eru stærstu vinnustaðirnir í Reykjavík.

Í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík eru samtals um 20 þúsund nemendur og kennarar og á Landspítalanum starfa um fimm þúsund manns.

Reykvíkingar eru 58% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Og ef einhverjir geta talið upp meiri starfsemi í Reykjavík austan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík, einhverju öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess, þætti mér gaman að sjá það.

Hversu mikil starfsemi er til að mynda í Háaleitis- og Bústaðahverfinu, Kringlunni, Laugardalssvæðinu, Grafarvogi, Grafarholti, Árbænum og Breiðholtinu?!

Vestan Kringlumýrarbrautar
eru til dæmis Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landspítalinn, Ráðhúsið, Alþingi, Reykjavíkurhöfn, Grandi hf., Fiskkaup hf. og fleiri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, Lýsi hf., Umferðarmiðstöðin, Norræna húsið, Íslensk erfðagreining, Reykjavíkurflugvöllur, Þjóðminjasafnið, Veðurstofan, Þjóðskráin, Landsbankinn, Arionbanki, Íbúðalánasjóður, Lánasjóður íslenskra námsmanna, Ríkissáttasemjari, Ríkisskattstjóri, Kjarvalsstaðir, Perlan, Icelandic Group og háhýsin við Höfðatorg, þar sem skrifstofur Reykjavíkurborgar eru meðal annars til húsa og sextán hæða hótel rís fljótlega.

Einnig til að mynda Menntaskólinn í Reykjavík, Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Tækniskólinn á Skólavörðuholti, Stjórnarráðið, Seðlabankinn, Þjóðleikhúsið og fleiri leikhús, Þjóðmenningarhúsið, Hæstiréttur, Héraðsdómur Reykjavikur, Borgarbókasafnið, Tollstjórinn, Sjóminjasafnið, Kolaportið, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands, dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund og fleiri dvalar- og hjúkrunarheimili, tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa, Hótel Loftleiðir (Reykjavík Natura), Hótel Saga, Hótel Holt, Hótel Þingholt, Hótel Plaza, Hótel Arnarhvoll, Hótel Klöpp, Hótel Skjaldbreið, 101 Hótel og fjöldinn allur af öðrum hótelum og gistiheimilum.

Þar að auki til dæmis fjölmargir grunnskólar og leikskólar, svo og samtals nokkur hundruð skemmtistaðir, veitingastaðir og verslanir, til að mynda við Laugaveg, Skólavörðustíg, Lækjargötu og Austurstræti.

Þorsteinn Briem, 14.1.2014 kl. 06:43

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gísli Marteinn Baldursson hefur margsinnis haldið því fram að helmingur atvinnustarfseminnar fari fram vestan Kringlumýrarbrautar og þá er væntanlega hinn helmingurinn austan hennar.

Hvað um hverfi eins inn í kringum Kringluna, við Suðurlandsbraut, Skeifuna, Mjóddina, Ártúnshöfðann og Árbæjarhverfi?

Og ef við tökum höfuðborgarsvæðið í heild, hvað um vestasta hluta Kópavogs, Hamraborgarhverfið, Skemmuvegarhverfið, Smárahverfið, Lindirnar, miðbæ Garðabæjar, Flatahraun, svæðið við Urriðavatn, Hafnarfjarðarhöfn, Vallahverfið og Kapelluhraun?

Ómar Ragnarsson, 14.1.2014 kl. 11:16

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Langt frá því að helmingur Reykvíkinga starfi í Reykjavík fyrir austan Kringlumýrarbraut, eins og sést vel i upptalningunni hér að ofan.

Þar hafa ekki verið nefnd sérstaklega til dæmis stórir vinnustaðir eins og lögreglustöðin við Hlemm, Hótel Borg, Hótel 1919 í gamla Eimskipafélagshúsinu, Hótel Reykjavík Marina við Slippinn, Kex Hostel og ný stór gistiheimili í Bankastræti og við Hlemm.

Reist verða stór hótel við Hörpu og Höfðatorg og nú er verið að byggja hátæknisetur lyfjafyrirtækisins Alvogen skammt frá húsi Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem um 200 manns munu starfa.

Langflest hótel og gististaðir í Reykjavík eru vestan Kringlumýrarbrautar.

Og við Laugaveginn eru um tvö hundruð verslanir, um tvisvar sinnum fleiri en í Kringlunni.

Þorsteinn Briem, 14.1.2014 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband