Saltað í 4 stiga hita !

Ég trúði varla mínum eigin augum á leið heim til mín í morgun þar sem ég ók í gegnum borgina endilanga.

Stórvirk tæki voru hamast við að salta göturnar í þeim 4-5 stiga hita sem er og hefur verið hér í borginni undanfarna daga!

Spáð er sama hita allt til annars kvölds og úrkoman, sem spáð er, er að sjálfsögðu rigning en ekki slydda.

Kostnaðarvitundin varðandi það hafa götur auðar og gangstíga er furðuleg og ekki síður það mat saltpækilsmanna að það þurfi að salta götur dögum saman í 4-6 stiga hita.

Svo vel hefur viljað til undanfarna daga að lofthitinn og dálítil úrkoma hafa verið að skola burtu saltinu í rólegheitum, sem ausið var þar á undan á göturnar.

Bara ein svona "að fara í límingunum" söltun eins og var rokið í í morgun tryggir nýja saltblöndu á götunum. Saltið kostar þjóðfélagið milljarða króna í ryðskemmdum á bílum og það og saltmoksturinn kostar líka fé, þannig að það er tvöföld ástæða til að vera ekki að úða þessum andskota á göturnar að þarflausu.

Á sama tíma og þetta viðgengst er fólk enn fljúgandi á hausinn og brjótandi sig vegna þess að af misskildum sparnaðarástæðum var vanrækt að moka gangstéttir og botnlangagötur í borgunni, sem þúsundir fólks býr við, fyrir mörgum vikum.

Beint fyrir utan blokkina, sem ég bý í, liggur langur gangstígur. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var sleppt að moka um 50 metra kafla, heldur snjónum rutt upp í mikla hrauka þar. Undanfarnar vikur hefur fólk því þurft að klöngrast yfir ruðningana út á götuna, þar sem hefur verið fljúgandi hálka á svelli allan tímann og umferð bíl, enda er þetta rétt við stóran framhaldsskóla.

Loks í gær þegar ástandið var að byrja að skána ögn var síðan rutt í gegnum þetta haft.

 

P. S. Nýjustu fréttir af "hálkuskilyrðunum" í Reykjavík: 5,3 stiga hiti! Eins og spáð hafði verið, enda sólin komin á loft og hádagur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ég var krakki voru ekki komnir ísskápar á íslensk heimili, allaveganna ekki á landsbyggðinni. Því þurft menn að hafa vissa þekkingu í eðlisfræði, ef bjóða skyldi upp á ís, heimagerðan ís, sem að vísu ekki var gert nema einu sinni á ári, á blessuðum jólunum.

En þá gerðum við okkar eigin frystikistu með því að blanda saman matarsalti og snjó. Matarsaltið keyptum við í KÞ, var ekki dýrt, enda hollt iðnaðarsalt og ekki vantaði snjóin. 

Ég man ekki hver kenndi okkur þetta, en líklega lærðum við það í barnaskólanum, en í réttu hlutfalli (4/1 snjór/matarsalt) má ná mínus 21 gráðu. Þess má geta að rjómaísinn hennar mömmu, með íslenskum rjóma, var sá besti í heimi.

En af hverju er ég að segja frá þessu? Jú, vegna þess að manni finnst það eiginlega vera mótsögn að geta brætt ís með salti.

Skýringin heitir "entropy".

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 18.1.2014 kl. 14:42

2 identicon

Og samt vilja flugáhugamenn að fólk búi upp við snjólínu "fljúgandi á hausinn og brjótandi sig" og "snjónum rutt upp í mikla hrauka" meðan láglendið er frostlaust, autt og frátekið fyrir flugvélar. Mikil er manngæskan og umhyggjan fyrir náunganum.

Oddur zz (IP-tala skráð) 18.1.2014 kl. 16:31

3 identicon

Þegar samfélagsþjónusta er sett í útboð á almennum markað

er ekki legnur um samfélagsþjónustu að ræða, heldur mammonísk

viðskifti.

Skuggi (IP-tala skráð) 18.1.2014 kl. 18:52

4 Smámynd: Tryggvi Helgason

Hverjir græða á því að selja salt ???

Tryggvi Helgason, 18.1.2014 kl. 21:23

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Saltkaup við Cuxhavengötu í Hafnarfirði "er leiðandi í innflutningi og sölu á fisk- og götusalti, alhliða umbúðum fyrir sjávarútveg, ásamt tunnum og íbætiefnum fyrir saltfisk, rækju, síld o.fl."

Saltkaup í Hafnarfirði

Þorsteinn Briem, 18.1.2014 kl. 22:00

6 identicon

Er ekki Hafnarbakki ennþá í saltinu?
Annars, - þegar ég var í salti á Hornafirði fyrir margt löngu, kom saltið í e-k langskipum, - "tönkurum". Þeir fóru svo til baka lestaðir af fiskimjöli. Þar var hellingur fluttur inn, og lítið  mál að fá úrsalt til brúks.
Því er vel lýst hvernig frysta má með salti og snjó, ó bók Guðmundar Daníelssonar "Vestangúlpur Garró"

Jón Logi (IP-tala skráð) 19.1.2014 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband