20.1.2014 | 17:09
Mótsagnakennd umræða.
Síðustu mánuði hefur athygli manna beinst mjög að styrkri stöðu íslensku krónunnar og jákvæðum áhrifum þess. Gjaldeyrishöftin, sem svo mikið var talað um fyrri hluta árs í fyrra, hafa varla verið nefnd en þó er sagt að þau séu nauðsynleg til að halda krónunni stöðugri.
En er hægt að skilja þetta tvennt í sundur? Umræðan um gjaldeyrishöftin var um það hve hamlandi þau væru á innstreymi erlends fjár inn í íslenskt hagkerfi, þ. e. erlendar fjárfestingar.
Á hinn bóginn snerist umræðan um það hvernig væri hægt að ná þessum fjármunum af þeim fjárfestum sem höfðu verið hvattir til þessir og lokkaðir til að leggja fé sitt inn hér á landi og búa til það, sem þá mátti kalla "snjóhengjuna".
Það er svolítið erfitt að skilja það að í öðru orðinu er sagt að þetta hafi verið og séu "hýenur" og slæmir vogunarsjóðir, þótt meira en helmingur þeirra hafi verið fjárfestar af svipuðum toga og lífeyrissjóðirnar okkar og íslenskir fjárfestar, - en í hinu orðinu að það þurfi að lokka fleiri útlendinga til þess að fjárfesta hér á landi.
Svona álíka tviskinnungur og þegar sagt var að IPA-styrkirnir svonefndu væru hið versta mál og að engu hafandi, en kvarta síðan hástöfum yfir því sem svikum þegar þeir voru felldir niður.
Nú heyrist sagt að það þurfi að nota gjaldeyrishöftin til að halda krónunni stöðugri líkt og í öndunarvél, en við þekkjum það að þegar fólki er haldið í öndunarvél er lýsing á ástandi þess oft sú að "líðanin sé stöðug" sem þykir jákvætt út af fyrir sig þótt líðanin sé auðvitað ömurleg.
Stöðug líðan krónunnar er dásömuð en á sama tíma sagt að við þurfum nauðsynlega að losa um þessi höft sem eru ígildi öndunarvélar.
Þegar fréttaveita Reuters segir frá lítilli erlendri fjárfestingu um þessar mundir á Íslandi er því slegið upp á blogginu að erlendu fjármagnseigendurnir," kröfuhafarnir," séu í samvinnu við vont íslenskt samfylkingarlið og meðreiðarsveina þess að "planta" slíkri frétt."
Hins vegar er ekki minnst á það hvort fréttin sé rétt eða röng, sem ég hélt að væri aðalatriðið. Hér á landi tíðkast nefnilega það að það er alltaf spurt um "hver?" en ekki "hvað?".
Fjárfesta ekki ennþá á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar skrifar: „Þegar fréttaveita Reuters segir frá lítilli erlendri fjárfestingu um þessar mundir á Íslandi er því slegið upp á blogginu að erlendu fjármagnseigendurnir," kröfuhafarnir," séu í samvinnu við vont íslenskt samfylkingarlið og meðreiðarsveina þess að "planta" slíkri frétt."
Hins vegar er ekki minnst á það hvort fréttin sé rétt eða röng, sem ég hélt að væri aðalatriðið. Hér á landi tíðkast nefnilega það að það er alltaf spurt um "hver?" en ekki "hvað?"."
Nákvæmlega. Því miður réttlæta menn umfjöllun af því tagi sem þú bendir á með „Íslandi allt" hugsunarhætti. Það gleymist að það sem gagnast þjóðinni best er að sjá hlutina eins og þeir eru.
Wilhelm Emilsson, 20.1.2014 kl. 18:20
"Hver en ekki hvað" ætti ekki að koma á óvart, því hvergi er sá háttur í eins miklum hávegum hafður og á Alþingi.
Síðasta dæmið í dag, þegar Árni Páll gerði fyrirspurn um MP banka-málið. Kögunarstrákurinn varð vitlaus, fór að öskra og ásakaði Árna fyrir að kasta skít á fjölskyldu sína.
Leikhús fáránleikans.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.1.2014 kl. 18:51
Hvort það eru bloggheimar eða þjóðfélagið allt sem er gegnsýrt af móðursýki, ofsóknarbrjálæði og útlendingahræðslu læt ég ósagt. En oft rifjast upp sannleikskornið: "Þjófar eru manna þjófhræddastir." þegar landar mínir missa sig í grunsemdum um illvilja allra sinna nágranna.
Oddur zz (IP-tala skráð) 20.1.2014 kl. 20:55
Þetta er bara mjög flott greining hjá þér Ómar og engu við hana að bæta.
Við íslendingar höfum því miður alltaf verið okkur sjálfum verstir. Hins vegar byggja menn endalaust á "vondu útlendingunum" og hafa gert í yfir 100 ár. Spurningin er hvenær við ætlum að vaxa upp úr því og gerast þjóð meðal þjóða og hætta að hugsa eins og púkar, sárþjáðir af minnimáttarkennd...
Guðmudnur R Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.1.2014 kl. 21:48
Varðandi breytta afstöðu Gunnars Braga svonefnds utanríkisráðherra um IPA styrkina þá má segja þetta: Gott er að hafa tungu tvær og tala sitt með hvorri! Gunnar Bragi er dæmigerður framsóknarkall sem vill helst bera klæðin á báðum öxlum en vera tilbúinn hvenær sem honum hentar að snúst hálfan hring í málum sem hann er að takast við. Svona karla er lítt unnt að treysta á, þeir eru einnig tilbúnir að svíkja land og þjóð ef þeir telja sig hafa hag af.
Nú vil eg taka fram að eg hefi ekkert á móti Framsóknarflokknum sem slíkum enda stýrðu honum áður fyrr margt ágætis fólk eins og Eysteinn, Vilhjálmur á Brekku, Ingvar Gíslason og Steingr. Hermannsson. En svörtu sauðirnir voru því miður allt of margir sem voru í pólitík fyrst og fremst vegna eigin hagsmuna en alls ekki þjóðarinnar. Svo voru nokkrir ansi ráðríkir sem fóru með flokkinn langleiðina til andskotans. Má þar fyrstan nefna öfgamanninn Jónas frá Hriflu sem var að ýmsu leyti mikill gallagripur þó svo hann ætti marga yfirburðakosti.
Guðjón Sigþór Jensson, 20.1.2014 kl. 21:53
Nú hafa verið gjaldeyrishöft hér á Íslandi í rúmlega fimm ár og ekki sér enn fyrir endann á þeim.
Í fjórfrelsinu, sem á að gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu (EES), felast hins vegar frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsir fjármagnsflutningar og sameiginlegur vinnumarkaður.
Þar að auki kveður EES-samningurinn á um samvinnu EES-ríkjanna í meðal annars félagsmálum og jafnréttis-, neytenda-, umhverfis-, mennta-, vísinda- og tæknimálum.
Íslensk stjórnvöld verða því að aflétta gjaldeyrishöftunum eins fljótt og auðið er.
Á meðan hér eru gjaldeyrishöft getur Seðlabankinn hins vegar að töluverðu leyti stjórnað gengi íslensku krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði.
Falli hins vegar gengi krónunnar eftir að gjaldeyrishöftunum verður aflétt hækkar hér verð á innfluttum vörum, aðföngum og þjónustu, eins og margoft hefur gerst.
Og enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
Þorsteinn Briem, 20.1.2014 kl. 23:44
Eignir útlendinga í íslenskum krónum eru um eitt þúsund milljarðar og ef gjaldeyrishöftin yrðu afnumin í einu vetfangi myndi gengi krónunnar hrynja enn og aftur.
Og skuldir ríkissjóðs Íslands eru um eitt þúsund og fimm hundruð milljarðar króna, um 90% af vergri landsframleiðslu.
22.10.2012:
Eignir útlendinga í íslenskum krónum um eitt þúsund milljarðar
30.9.2013:
Skuldir ríkissjóðs Íslands um eitt þúsund og fimm hundruð milljarðar króna
Þorsteinn Briem, 21.1.2014 kl. 00:35
má ekki krónann hrinja ef það er gert með skipulögðum hætti ætli við höfum ekki haft gjaldeirishöt fram til 2001 með einum eða öðrum hætti samt komu alverin. járnblendið þeir feingu undanþágur ef kröfuhafa mindu koma að stofnun fyrirtækja sem sköpuðu gjaldeyri og tækju hann úr landi á leingri tíma
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 21.1.2014 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.