22.1.2014 | 00:14
Hver er ábyrgðin varðandi "förgun" spilliefna í sjó ?
Í viðtali í blaði álversins í Straumsvík fyrir þremur árum sagði íslenskur skipstjóri, sem siglt hefur með súrál og fleira á stóru skipi um heimshöfin í áratugi, að það væri nú munur að koma á skipinu til Íslands!
Hér gæti hann látið hreinsa skipið og spúla af því kjölvatni og hverjum þeim úrgangi sem honum sýndist, því að hvergi í heiminum væri hann eins öruggur um að ekkert yrði gert við því, ekki einu sinni í þróunarlöndunum.
Í öðrum löndum væri strangt eftirlit með þessu og viðurlög hörð. Nefndi hann kollega sinn, skipstjóra í Ástralíu sem dæmi, en sá hafði verið dæmdur í fangelsi og sviptur skipstjórnarréttindum ævilangt fyrir það sem leikur einn væri að komast upp með við Ísland.
Já, það var ekki eitt heldur allt sem virtist hjálpa til við það að þessi ágæti landi okkar gæti sagt þegar hann kæmi með "gúmúlaðið" hingað um þveran hnöttinn: "Alltaf er nú gaman að koma heim!"
Ég bloggaði um þetta oftar en einu sinni, meðal annars 19. janúar 2011 með myndum af blaðinu undir fyrirsögninni "Hvergi eins auðvelt að losa sig við úrgang og við Ísland", en það hefur ekki haft hin minnstu áhrif, - öllum sýnist þetta líklega svo sjálfsagt.
Miklu meira spennandi að margfalda þetta með því að gera landið helst að miðpunkti olíu- og efnaflutninga í Norður-Evrópu með "heimshöfn" í Finnafirði.
Með því að smella tvisvar á myndina af hluta viðtalsins er hægt að lesa það helsta sem skipstjórinn segir um þetta.
Hver er ábyrgð þeirra? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda nr. 33/2004:
"25. gr. Refsiviðurlög.
Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau varða fangelsi allt að fjórum árum.
Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
26. gr. Sektir.
Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sama skilorði, gera lögaðila sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot eða ef það stafar af ófullnægjandi tækjabúnaði eða verkstjórn.
27. gr. Farbann.
Ef brotið er gegn ákvæðum laga þessara og brotið tengist skipi skal skipið sett í farbann og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en málinu er lokið og sekt auk málskostnaðar greidd að fullu, svo og kostnaður eftirlitsaðila. Um farbann fer að ákvæðum laga um eftirlit með skipum.
Þó er heimilt að láta skip laust fyrr ef sett er bankatrygging eða önnur trygging jafngild til greiðslu sektar og alls kostnaðar.
Til tryggingar greiðslu sektar samkvæmt grein þessari, málskostnaðar og kostnaðar eftirlitsaðila skal vera lögveð í skipinu í tvö ár."
"Viðauki I.
A. Starfsemi sem getur valdið bráðamengun á hafi eða ströndum vegna eðlis starfseminnar og/eða nálægðar hennar við sjó.
1. Fiskimjölsverksmiðjur.
2. Álframleiðsla.
3. Áburðarframleiðsla.
4. Sements- og kalkframleiðsla.
5. Kísiljárnframleiðsla.
6. Kísilmálmframleiðsla. ..."
Þorsteinn Briem, 22.1.2014 kl. 01:00
Takk fyrir þetta, Steini. Ef marka má orð hins gamalreynda skipstjóra er ekkert farið eftir þessum lögum hér á landi nema að bókstaflega sé hægt að rekja stóran olíuflekk til viðkomandi skips. Hvergi er minnst á sviptingu skipstjórnarréttinda, hvað þá ævilangt.
Ómar Ragnarsson, 22.1.2014 kl. 02:08
Mér finnst einkennilegt hve margir þegja um þessa ábendingu þína Ómar. Og er þetta mál eitt það mest aðkallandi í verndun vistkerfa á Íslandi. Meðan Náttúrufræðistofnun er að hamast gegn lúpínu og erlendum trjátegundum er engin áhersla lögð á þetta mikilsverða mál.
Hvet þig að rita hvassa blaðagrein um þetta og ekki skafa af því.
Bestu kveðjur.
Guðjón Sigþór Jensson, 23.1.2014 kl. 16:00
Í stærri ríkjum eru um 90% ríkisstarfsmanna óhæfir, en til bóta er 4-5 skiptur stigi yfirmanna sem bera ábyrgð yfir liðinu. Á Íslandi eru einnig 90% ríkisstarfsmanna óhæfir, en yfirmenn eru á bilinu 0-1 sem vakta yfir verkum þeirra. Þetta ástand er óviðjafnanlega áberandi í því íslenska ráðuneyti sem sem er ætlað að vakta framkvæmd og samræmi laga hér á landi.
J.
Jonsi (IP-tala skráð) 24.1.2014 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.