Misheppnað strok vegna veðurs.

Það er spurning hvort það sé heimsfrétt að tveir nemendur í heimavistarskóla hafi strokið úr honum, því að slíkt hefur áreiðanlega gerst oftar um allan heim en tölu verði á komið.

Svipað má segja um þá ástæðu að nemendur hafi strokið út af veðrinu.

Þetta segi ég vegna þess að síðasta sumarið af þremur, sem ég var 7-9 ára gamall í sumarbúðum KFUM heild sumar í Kaldárseli, tók stór hluti okkar strákanna sig til og strauk úr selinu.

Það var yndislegt að vera þessi sumur í selinu en sá var þó einn galli á gjöf Njarðar, að samkvæmt mælingum rignir að meðaltali miklu meira í Kaldárseli en í Hafnarfirði og í Hafnarfirði rignir líka meira en en Reykjavík.

Ástæðan til stroksins var sú, að það var búið að rigna það mikið í marga daga að það var erfitt eða ómögulegt að vera úti við.

Við lögðum sem sé af stað og í fyrstu gekk strokutúrinn sæmilega, enda rigningin ekki mikil þá stundina.

Gamla leiðin milli Hafnarfjarðar og Kaldársels, sem fæstir fara núna, lá talsvert fyrir sunnan sumarbústaðina í Sléttuhlíð og við vorum komnir þangað þegar það fór allt í einu að hellirigna af vestri og stóð rigningin á ská á móti okkur.

Það var dálítið fyndið hvernig það gerðist að við gáfumst upp á strokinu. Smám saman varð gangan hægari þangað til við stóðum allir kyrrir og blautir, horfðum þegjandi hver á annan, snerum síðan rólega við einn af öðrum án þess að mæla orð frá vörum og byrjuðum að ganga til baka.

Smám saman jukum við gönguhraðan, enda ausandi rigning og hlýtt selið togaði okkur til sín.

Ég man að alla þessa bakaleið sagði enginn aukatekið orð, og að við urðum mjög fegnir við að komast til baka án þess að upp kæmist um strokið.

Niðurstaðan af þessu var nokkuð einföld: Ef það á að strjúka af því að veðrið er svo leiðinlegt er betra að strjúka í góðu veðri en vondu. 

En í góðu veðri er engin ástæða til þess að strjúka!  


mbl.is Struku því þau þoldu ekki veðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allra er nú veðra von,
vatni hélt ei Bjarni,
gegnblautur er Gunnlaugsson,
Guð oss frá þeim varni.

Þorsteinn Briem, 26.1.2014 kl. 13:30

2 Smámynd: Már Elíson

Skemmtileg saga, Ómar - Sé ykkur fyrir mér, þvílík niðurlæging...að þurfa að stautast til baka í rigningunni. Myndrænt - En þetta unga par sem strauk útaf veðri í UK þurfti nú ekki að hugsa um veðurfarið á þeim tímapunkti sem strokið átti sér stað, því að samkvæmt greininni vöru þau vellauðug /(les : foreldrarnir), og hafa bara pantað farið á kreditkortum foreldranna, tekið limosinu út á völl o.s.frv. - Þetta var ótrúleg lesning um "Rich kids...", ríku og ofdekruðu börnin í heiminum og ekki nema gott eitt um það að segj,a að þeim var umsvifalaust vísað úr skóla. - Skárra væri það nú !

Már Elíson, 26.1.2014 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband