1.3.2007 | 00:02
JÓNS BALDVIN, FAGRA ÍSLAND OG ÁLVERIN.
"Misskilningur Jóns Baldvins" er yfirskrift greinar Birgis Dýrfjörðs sem allir ættu að lesa. Þar segir flokkstjórnarmaðurinn að stefna flokksins"Fagra Ísland" feli alls ekki í sér andóf gegn álverum heldur þvert á móti. Birgir vitnar í samþykktir þingflokksins og Framtíðarhóps flokksins:
"Þess vegna geta þingmenn flokksins stutt álver við Húsavík og eða á Suðurnesjum. Þess vegna getur aukinn meirihluti flokksins í bæjarstjórn Hafnarfjarðar stutt eigin tillögu um um deiliskipulag sem ber í sér möguleika á stækkun álvers í Straumsvík. Þess vegna geta þingmenn stutt byggingu nýrra álvera en um leið lagt til af efnahagsástæðum að þau rísi ekki fyrr en eftir nokkur ár.
Flestir skilja orðalagið "nokkur ár" sem 4-8 ár. Það er mjög stuttur tími. Það eru átta ár síðan samningar og undirbúningur álvers í Reyðarfirði voru komin á fullan skrið.
Álverin sem Birgir segir að sé sjálfsagt fyrir Samfylkinguna að samþykkja munu þurfa nær alla orku Íslands þegar upp verður staðið með núverandi bortækni. Fagra Ísland verður þá að mestu marklaust plagg.
Það verður auðveldara fyrir Alcoa að hóta Húsvíkingum í svipuðum dúr og Alcan gerir nú í Hafnarfirði, þegar þarf að stækka upp í 5-600 þúsund tonn. Húsavík er tíu sinnum minna bæjarfélag en Hafnarfjörður, sem þar að auki er hluti af höfuðborgarsvæðinu.
Birgir segir: "Þess vegna getur það fólk sem á sér draum um stóran jafnaðarmannaflokk unnið saman að því að gera Samfylkinguna að 30-35 % flokki í komandi kosningum." Og hann klykkir út með þessu:
"Þess vegna geta harðir virkjanasinnar unnið heils hugar að því að virkjanaandstæðingar eins og Mörður Árnason nái glæsilegu kjöri til Alþingis þó að þeim þyki stundum að hann sé bæði á móti málmum og rafmagni."
Ég get ekki lesið út úr þessum ummælum annað en fyrirlitningu Birgis á Merði Árnasyni og öðrum góðum umhverfissinnum í Samfylkingunni. Enn og aftur er gefið í skyn að þeir séu á móti rafmagni sem vilja staldra við þegar þjóðin framleiðir brátt fimm sinnum meira rafmagn en hún notar sjálf og selur það mestallt á spottprís til mengandi stóriðju.
En það er ekki það versta. Það hlakkar í Birgi yfir því hvernig þeir sem trúa á Fagra Ísland verði plataðir og vélaðir til þess að vera með í stóriðjuhraðlestinni til þess að lokka auðtrúa fólk til fylgis við stóriðjustefnu sem dynja á yfir með fullum þunga innan fárra ára með hrikalegum afleiðingum fyrir íslenska náttúru.
Ég finn til með góðum og sönnum umhverfissinnum og vinum mínum í Samfylkingunni sem mega sitja undir þessum ummælum flokksstjórnarmannsins. Blygðunarlaust er sagt að Samfylkingin geti orðið að 35 % flokki með þeim tvískinnungshætti sem ummæli Birgis bera með sér.
Í raun er Birgir að taka að mestu undir með framtíðarsýn Geirs H.Haarde um alls sex risaálver á Íslandi fyrir árið 2020. Er það furða að fólk eigi erfitt með að átta sig á því á hvaða leið Samfylkingin sé og gefi henni nú aðeins 24 % í skoðanakönnunum?
Ég á enga aðra ósk heitari handa Samfylkingunni en að hún hlusti á og leiði til valda það góða umhverfisverndarfólk sem þar er að brjótast til áhrifa, nú síðast Reyni Harðarson. Og ég vona að Ingibjörg Sólrún hafi myndugleika til að taka af skarið og gefa með því Samfylkingunni þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er fyrir stjórnmálaflokk.
Það skyldi þó ekki vera að fylgi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum sé ekki meira en raun ber vitni af því að fólk finnur að það er eitthvað óheilt við hana? Sem betur fer eiga ekki við um kjósendur fræg ummæli úr samráðsmálinu: "Fólk er fífl." Nei, - fólk er ekki fífl.
Ég hef margsinnis sagt að höfuðverkefni umhverfisverndarfólks sé að sækja á Sjálfstæðisflokkinn sem ber í krafti stærðar sinnar og stjórnarforystu höfuðábyrgð á stóriðjustefnunni. Það er ærið verkefni þótt Samfylkingin bætist ekki við.
Ég heiti á umhverfisverndarfólk í Samfylkingunni að tryggja það að hún standi við stefnuna Fagra Ísland, - ekki bara fram að kosningum eða rétt fram að þeim, - heldur til framtíðar.
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Birgir Dýrfjörð á að ganga í Sjálfstæðisflokkinn eða réttara sagt við sem erum í SF eigum að reka hann því .það er ekki rúm fyrir hans skoðun í flokknum að mínu mati. Annað hvort fer hann út eða ég svo einfalt er það. Eftir birtingu þessarar greinar er það ljóst.
Kveðja Viðar.
Viðar Steinarsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 01:28
Væri ekki auðveldara fyrir þig Viðar að ganga bara í hægri græna. Annars þarf að reka hálfa Samfylkinguna úr flokknum.
Jóhann Alfreð Kristinsson , 1.3.2007 kl. 02:08
Þetta er auðvitað vandi Samfylkingarinnar í hnotskurn. Ekki bara í virkjanamálum heldur flestu öðru líka. Þegar til þessa stjórnmálaafls var stofnað sögðu margir að hún yrði ekki langlíf vegna þess að fólkið í henni kom úr tveimur höfuðfylkingunum á vinstri vængnum, komma og krata sem sögðu báðar í orði að Sjálfstæðisflokkurinn væri höfuðandstæðingurinn en á borði var hatrið mest á hvorum öðrum. Þarna hefur hver höndin verið uppi á móti hvorri annari frá byrjun. Samfylkingin á við bæði forystukreppu og stefnukreppu að stríða.
En Ómar, mér finnst leiðinlegt að sjá þig í sífellu klifa á því að verðið á raforku sé hér á spotprís. Ekki það að verðið sé ekki gagnrýnivert í sjálfu sér, heldur verður að sjá þetta í samhengi hlutana. Verðið hér til stóriðju er í meðallagi í löndum OECD. Þegar gerðir eru risasamningar um sölu á tilteknum hlutum þá er það alltaf þannig að verðið er töluvert lærra en gerist á almennum markaði. Gróðinn fæst með magnsölunni.
Einnig er leiðinlegt að brygsla Alcoa fyrirfram um hótanir o.þ.u.l. Það er ómálefnalegt, enda segið þið gjarnan sjálfir varðandi Straumsvík að ekkert sé að marka þessar hótanir því verksmiðjan sé þvílíkur gullkálfur að þeim dytti aldrei í hug að hætta hér þó þeir fái ekki stækkun. Samningar eru gerðir til langs tíma og það er ekki ástæða til að óttast að við þá samninga verði ekki staðið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.3.2007 kl. 09:58
Það hefur alltaf verið á hreinu hverjar skoðanir Birgis Dýrfjörð eru í stóriðjumálum. Það breytir engu um að stefna Samfylkingarinnar í málinu er kristaltær.
Við viljum stöðva þær framkvæmdir sem nú eru fyrirhugaðar og ráðast í Rammaáætlun um náttúruvernd, kortleggja verðmæt svæði Íslands og tryggja friðun þeirra. Niðurstaða slíkrar vinnu ætti að vera net friðlanda, náttúru- þema- og þjóðgarða sem ekki yrði hreyft við.
Þetta er brýnasta verkefni íslenskrar náttúruverndar því ef við náum ekki að skipuleggja þessi svæði til framtíðar með vernd í huga þá erum við í raun að skipuleggja umhverfisslys. Tillögur Samfylkingarinnar eru skynsamlegar, það er hægt að ná um þær breiðri sátt án þess að gefa nokkurn afslátt af náttúruverndarsjónarmiðum og því munu þær skila árangri - sem að mínum dómi er mun huggulegri niðurstaða en síendurtekið píslarvætti.
Fyrst þegar að búið er að tryggja verndun verðmætra náttúrsvæða landsins er tímabært að ræða mögulegar framkvæmdir af einhverju tagi utan þessara svæða. Það er mikið rætt um Kjalveg og aðra hálendisvegi, hálendishótel af ýmsum gerðum og virkjanir. Það er hins vegar alveg á hreinu, eins og ég hef marg sagt á þessari síðu, að þetta er ekki til umræðu fyrr en það er búið að slá skjaldborg um náttúruperlur og öræfi landsins.
Það veit félagi Birgir Dýrfjörð vel að er stefnan. Það er hins vegar þannig með Samfylkinguna (og sannaðist í nýlegri skoðanakönnun Fréttablaðsins) að á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er stóriðjuflokkur þar sem líka finnst fólk með náttúruverndaráhuga þá er Samfylkingin náttúruverndarflokkur þar sem líka má finna fólk sem hefur áhuga á stóriðju. Samfylkingin er hins vegar ólík Sjálfstæðisflokknum að því leyti að við munum ekki hrópa Birgi Dýrfjörð eða aðra niður, hvorki á Landsfundi eða á opinberum vettvangi.
Það að Birgir tjái sínar prívatskoðanir breytir engu um að Samfylkingin stendur gallhörð á tillögum sínum í Fagra Íslandi, hefur sagt þær vera eitt sitt helsta baráttumál og aðalmál í stjórnarmyndunarviðræðum ef flokkurinn kemst í aðstöðu til. Ég vona að svo verði.
Dofri Hermannsson, 1.3.2007 kl. 12:32
Hverja hefur Sjálfstæðisflokkurinn hrópað niður vegna umhverfisskoðanna Dofri?
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að taka þátt í umhverfismálum en ekki með einhverjum öfgamálflutningi og niðurrifstals fyrir landsbyggðarfólkið sem ekki hafur í annað að fara.
En ath. að þið hafið vestfirðinna og Húsavík alla vega næstu 4 árin og brettið nú upp ermarnar rífið upp þau byggðarlög með ykkar aðferðum, hætið þessu væli og gerið eitthvað með ykkar háleitu hugmyndir.
Óskar Þór (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 13:17
Grein Birgis
Hér er grein Birgis: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1132269
Í umhverfismálum er Samfylkingunni ekki treystandi fyrir húshorn og Steingrímur J. Sigfússon er andlega skyldur Honecker og slíkum forréttindasósíalistum. Þeir voru mestir umhverfissóðar í Vesturálfu.
Maðurinn beraði sig algjörlega í eftirlaunasvínaríinu og flokkurinn ætlar að ganga með formanni sínum spillingargötuna á enda. Sama er að segja um Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkinguna: Þagnarmúr hefur verið reistur kringum eftirlaunamálið vegna þess að þar á Samfylkingin - flokkseigendur -hlut að máli.
Á sínum tíma spyrti Ingibjörg Sólrún saman Kárahnjúkavirkjun; eftirlaunasamsæri þeirra Steingríms J., Davíðs, Kristjáns Arnar, Össurar og Halldórs; og stuðning við ólöglega innrás í Írak. Þótt Ingibjörg vilji ekki lengur ræða eftirlaunamálið - hvað þá að gera það upp, þá var þetta hárrétt greining hjá henni: Öll þessi mál stafa af því að lýðræði á Íslandi er fótum troðið.
Þeir sem aðeins beita sér gegn stóriðju eru fyrst og fremst að ráðast á einkennin en ekki sjálfan sjúkdóminn.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 13:56
Vandamálið við Fagra Ísland Dofri minn gagnvart alverndunarsinnum er að í því stendur ekki að "allt" sé einstakar náttúruperlur og þess vegna megi engu raska. Tilraun ykkar til að skapa ykkur sérstöðu er dæmd til að mistakast. VG heldur dauðahaldi í sína alverndunarsérstöðu og flagga henni ótt og títt þó vissulega hafi þeir sérstöðu á fleirum sviðum. Þær sérstöður eru bara ekki eins vel fallinn til vinsælda og er því lítt áberandi. Frjálslyndir hafa aukið sína sérstöðu um helming, er orðinn tveggja mála flokkur, kvóti og innflytjendur.
Gagnvart kjósendum er Fagra Ísland engin sérstaða. Rammaáætlun um náttúruvernd er í farvegi. Þið verðið víst að halda áfram ykkar örvæntingafullu leit að sérstöðu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.3.2007 kl. 14:02
Óskar Þór. Ég er hér að vitna til þess þegar Ólafur F Magnússon var púaður niður á Landsfundi Sjálfstæðismanna - hann gekk úr flokknum skömmu síðar.
Samfylkingin fer ekki með neinum öfgum að náttúruverndarmálum. Það er miklu nær sanni sem Gunnar Theodór segir að Samfylkingin sé ekki nógu herská. Ég er hins vegar ósammála honum þegar hann segi að í því felist ekki sérstaða.
Ég held að núna þegar nálgast kosningar þá sjái hinn stóri meirihluti sem vill efla náttúruvernd að Samfylkingin er sá flokkur sem býður upp á lausnir á meðan aðrir bjóða upp á stríð. Á endanum vill fólk frekar árangur en píslarvættardauða.
Ég held að sérstaða Samfylkingarinnar í náttúruverndarmálum sé lýsandi fyrir sérstöðu flokksins í mörgum málum. Við bendum á lausnirnar.
Við höfum t.d. bent á að alvöru byggðastefna (sem að mínu áliti er besta náttúruverndarstefnan) verður að fela í sér stórátak í samgöngumálum (sem ekki verður efnahagslegt rými fyrir ef fara á í stækkun í Straumsvík), háhraðanettengingu um allt land, metnaðarfulla eflingu framhalds- og háskólastigsins á landsbyggðinni og sértækar aðgerðir s.s. endurgreiðslu á flutningssköttum og svæðisbundna vaxtarstefnu.
Við höfum bent á að flytja má hundruð opinberra starfa hvert á land sem er með því að skilgreina þau störf á vegum ríkisins sem vinna má að mestu eða öllu leyti í gegnum tölvu sem "störf óháð staðsetningu" og hvetja landsbyggðarfólk sérstaklega til að sækja um.
Þetta er raunhæf lausn, því með þessu myndi sparast mikill kostnaður við skrifstofuhúsnæði á dýrasta stað en um leið væri þetta leið fyrir margt vel menntað fólk að flytja aftur á heimaslóðirnar. Þetta eru einmitt dæmi um störfin sem sárlega vantar á landsbyggðinni.
Við fögnum núna lækkun á matarverði þó okkar lausn á málinu, að fella niður öll vörugjöld og tolla í áföngum með samráði við bændur, hefði skilað helmingi meiri lækkun. Við græjum það þegar við komumst að.
Við höfum líka bent á lausnir í sambandi við "Nýja atvinnulífið" sem er afar brýnt verkefni að takast á við. Aðrir eru ekki að benda á neinar lausnir í því.
Við bentum í haust á lausnirnar í varnarmálunum sem síðan var þvælst með í marga hringi en er núna sem betur fer að lenda á þeim nótum sem við bentum á.
Það er rétt að þeir sem standa lengst til hægri og vinstri, berja sér á brjóst og hrópa hver upp í annan, þeir fá iðulega mesta athygli. Á endanum langar þó flesta að finna lausn á málunum. Við erum góð í því og ég held að kjósendur muni sjá það í vor.
Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 15:35
Má til með, þó að bloggið sé ekki um það, að tala um bændastefnu Samfylkingarinnar fyrst Dofri minnist á hana í athugasemd hérna fyrir ofan.
Því miður er það svo frændi kær að þú og Samfylkingin öll virðist ekki hafa nokkurn skilning á íslenskum landbúnaði, reyndar ekki landbúnaði yfirleitt. Ekki er þar eingöngu við samfylkingarfólk að sakast heldur bændur líka. Þeir hafa greinilega ekki verið nógu iðnir við að uppfræða það góða fólk sem stendur á bak við Samfylkinguna.
Að Samfylkingunni detti í hug að fella niður tolla á landbúnaðarvörum einhliða er svo fáránlegt að það nær engu tali. Ekki mættum við flytja út okkar landbúnaðarvörur vegna tolla annara landa og með niðurfellingu tolla værum við að henda frá okkur einu af trompinu sem við höfum í alþjóðaviðskiptum.
Upp úr 1990 felldum við niður útflutningsbætur, svona einhliða eins og samfó vill gera með tollana nú. Nú eru aðrar þjóðir að semja um niðurfellingu útflutningsbótanna hjá sér og heimta eitthvað annað í staðinn en við sitjum eftir með sárt ennið.
Ágúst Dalkvist, 1.3.2007 kl. 17:02
Vitanlega mun Samfylkingin standa við stefnuskrá sína í umhverfismálum .Fagra Ísland uppfyllir kröfur okkar um skipulega nýtingu náttúrverndar.Flokkurinn mun hins vegar eins og aðrir flokkar verða að þola einhvern mótbyr frá einstökum byggðalögum einkanlega vegna atvinnu -og umhverfismála.Vinstri Grænir fengu t.d.ágjöf á sína stefnu í Mósfellsbæ,þannig mun þetta alltaf verða,að sveitastjórnarmenn geri ályktanir í mótsögn við flokkssamþykktir stjórnmálafl.Það er hluti af lýðræðinu sjálfstæði sveitastjórna.
Kristján Pétursson, 1.3.2007 kl. 17:08
Gaman að þessu, þessi þráður farin að snúast meira um samtal við Dofra en umræður um skrif Ómars.
En til að leggja orð í belg, Dofri hvernig getum við tekið mark á stefnu flokksins með stopp á stóriðju framkvæmdir meðan að Samfylkingin er gjörsamlega ósammála innbyrðis með stækkun eða ekki stækkun álvers í Straumsvík??
Baldvin Jónsson, 1.3.2007 kl. 20:21
Nei. Samfylkingunni er ekki treystandi, því var það ekki Samfylkingin sem stóð fyrir því að tæta í sundur Geldingarnesið engum til gagns og var það ekki Samfylkingin sem stóð fyrir byggingu orkuvers á Hellisheiðinni með tilheyrandi sjónmengun og raski af pípum og öðru ?
Varðandi Ómar og hans möguleika á framboði, þá er það ekki vænlegt að fara fram með einungis eitt mál.
Jóhann (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 22:30
Ef verður af nýju grænu framboði verður það ekki eins máls framboð heldur verður þar um að ræða grundvallarstefnu sem hefur áhrif á nánast alla aðra málaflokka en umhverfismál.
Ómar Ragnarsson, 2.3.2007 kl. 00:07
hef ferðast um flest lönd evrópu og get ekki annað séð en ísland sé mest ósnortnasta land sem ég hef séð, samt vælið þið um að landið sé að sökkva í sæ vegna virkjana, reynið að vera smá málefnaleg, á hverju eigum við að lifa? ferðamönnum?? je, borga vel og halda uppi lífskjörum í landinu, og við íslendingar verðum að tala ensku við starfsfólk sjoppunar við geysir því engin talar íslensku sem vinnur þar, veit það af eigin raun
Haukur Kristinsson, 2.3.2007 kl. 01:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.