29.1.2014 | 20:04
Vökunni haldið.
Það var hressandi að vera niður við Alþingishúsið fyrr í kvöld í vetrarsvalanum og hitta mörg hundruð áhugafólks um vörslu og vernd náttúruverðmæta hálendisis veifandi grænum fánum.
Landvernd stóð að þessum fundi sem er liður í átaki um að vernda íslenska hálendið.
Þarna var hægt að horfa á stórar myndir af hálendinu, sem varpað var á vegg, taka lagið með Svavari Knúti, hlusta á stutt ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar framkvæmdastjóra Landverndar.
Meðal fundargesta voru þingmenn sem hafði verið boðið að koma út til að skoða myndasýninguna og hvattir til að kynna sér öll þau víðtæku áform um mannvirki á hálendinu, vegi, háspennulínur, stíflur, miðlunarlón, jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir sem munu gjörbreyta hálendinu og eyða töfrum þess ef af þeim verður.
Ég spjallaði þarna drykklanga stund á málefnalegum og vinsamlegum nótum við Framsóknarþingmann utan af landi, sem kom hreinlega af fjöllum varðandi þær virkjanahugmyndir í kjördæmi hans, sem tengdust einni af myndunum sem varpað var upp.
Fundurinn var tákn um nauðsyn þess að vökunni sé haldið í þessum málum á öllum tímum ársins.
Athugasemdir
Allt er vænt, sem vel er grænt.Slagorð framsóknarmanna frá stofnun flokksins 1916.Áfram Framsókn og ekkert stopp.
Sigurgeir Jónsson, 29.1.2014 kl. 20:22
Græn flögg Framsóknarflokksins tóku sig vel út í kvöldkyrrðinni.Sungnir voru ættjarðarsöngvar til stuðnings íslenskri þjóðernisvitund.Gott mál í baráttunni við ESB.
Sigurgeir Jónsson, 29.1.2014 kl. 22:17
Hvar er hvalur Kristjáns Loftssonar?
Hvar er lækkunin á bensíngjaldinu?
Hvar er hækkunin á öllum bótum öryrkja og aldraðra?
Hvar er afnám verðtryggingar?
Hvar er afnám gjaldeyrishafta?
Hvar eru álverin á Húsavík og í Helguvík?
Hvar er þetta og hitt?
Ég er viss um að það var hér allt í gær.
Þorsteinn Briem, 30.1.2014 kl. 02:03
"Landsvirkjun getur ekki annast orkuöflun fyrir álver í Helguvík nema að litlu leyti, að sögn forstjórans.
Álverð þyrfti að hækka um 30 til 40 prósent svo að hægt yrði að ljúka samningum."
Landsvirkjun getur ekki aflað orku fyrir álver í Helguvík
Þorsteinn Briem, 30.1.2014 kl. 02:09
"Vinna við landvörslu í sumar minnkar um helming frá því í fyrra vegna lægri fjárframlaga til Umhverfisstofnunar.
Landverðir starfa í íslenskum þjóðgörðum og á náttúruverndarsvæðum á sumrin.
Þeir taka á móti gestum, veita upplýsingar og fræðslu, gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt, hafa eftirlit með umferð og umgengni og sjá um framkvæmdir eins og að leggja göngustíga og halda tjaldsvæðum við."
Vinna við landvörslu minnkar um helming frá því í fyrra vegna minni fjárframlaga
Þorsteinn Briem, 30.1.2014 kl. 02:18
Til að heimsmarkaðsverð á áli hækki um 30% frá því sem það er nú þyrfti það að fara upp í hæsta verðið sem fengist hefur á heimsmarkaði en það var á bóluárunum 2007-2008.
Og álverð þyrfti að hækka um 30-40% á heimsmarkaði til að Landsvirkjun geti lokið samningum um orkuöflun fyrir álver í Helguvík, að sögn forstjórans.
Landsvirkjun getur ekki aflað orku fyrir álver í Helguvík
Þorsteinn Briem, 30.1.2014 kl. 02:58
Hef verið á hundruðum héraðsmóta Framsóknarflokksins í hálfa öld án þess að sjá eitt einasta grænt flagg. Gaman væri að sjá heimildir um það að þetta séu "flögg Framsóknarflokksins."
Ómar Ragnarsson, 30.1.2014 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.