"Kill your darlings!"

Það er ekkert einsdæmi að leikarar séu "klipptir út" úr kvikmyndum, eins og það er kallað. Í allri kvikmyndasögunni finnast dæmi um slíkt, meira að segja hér á landi.

Þótt búið sé að taka upp öll atriðin í kvikmyndahandritinu er eftir að klippa myndina saman og þá getur komið að því að vegna heildayfirbragðs myndarinnar og framvindu hennar, samfelluna og tempóið í henni, sé talið nauðsynlegt að stytta sum atriðin eða jafnvel sleppa þeim alveg.

Kvikmyndahandrit er nefnilega ekki það sama og fullskrifuð bók, sem á að fara í prentun. Kvikmyndahandrit og fyrirliggjandi upptekið efni eru ígildi uppkasts að bók og þetta þekkja allir kvikmyndagerðarmenn, leikhúsfólk, rithöfunar og útgefendur.

Um þetta gilda nokkur slagorð svo sem: "Kill your darlings!", "ruslafatan er besti vinur listamannsins" og "áhorfandinn/lesandinn veit ekkert um það, hverju var hent og saknar þess því ekki."

Charlie Chaplin var þekktur fyrir vandfýsni og fullkomnunaráráttu og skipaði svo fyrir að öllum "out takes" skyldi hent eða brennt.

Þessu var ekki hlýtt og fyrir bragðið hægt að gera um þetta magnaða heimildarmynd.

Þar tróndi á toppnum frábært sjö mínútna snilldaratriði sem átti að vera í "Borgarljósunum."

Að mínum dómi var þetta atriði, sem átti að brenna, einhver mesta snilld meistarans, þar sem flækingurinn sér hvar örlítill spýtukubbur fellur af kerru niður á kjallaragluggarist á gangstétt.

Flækingurinn byrjar að reyna að fjarlægja kubbinn með staf sínum og við tekur óborganlegt sjö mínútna langt atriði þar sem einfaldleiki nauða ómerkilegs smáatviks úr daglega lífinu er spólað upp í hæstu hæðir snilldarlegs skops.

Þekkt er að góðir yfirlesarar og prófarkalesarar hafa komið tugum og hundruðum blaðsíðna úr handritum rithöfunda fyrir kattarnef.

Þetta gerði til dæmis Guðmundur Andri Thorsson, lesari síðustu bókar minnar, "Manga með svartan vanga, - sagan öll", af sinni alkunnu smekkvísi og kunnáttu, reyndar ekki nema örfáum blaðsíðum, og ég var honum afar þakklátur fyrir þetta, - bókin í heild varð betri og ég hafði fyrirfram sagt við hann að þessa kynni að verða þörf og að betur sæu augu en auga.

Þegar ég var einn af leikurum í litlium aukahlutverkum í kvikmyndinni "79 af stöðinni" var tveimur tökudögum að mig minir eytt í að taka upp atriði inni á leigubílastöðinni.

Þegar myndin var klippt var þetta skorið hressilega niður og voru sumir þeirra, sem kallaðir voru til í þessi atriði, ekki ánægðir með það. En fyrir flæðið og framvinduna í myndinni var þetta nauðsynlegt og allir fengu aukaleikararnir greitt fyrir vinnuframlag sitt.

Stundum gera menn mistök þegar verið er að stytta verk. Ég minnist sjónvarpsmynda, þar sem reynt var að stytta löng myndskeið til að þjappa heildarmyndinni saman en hefði átt að gera það öðru vísi.

Í myndinni Eyðibyggð var upphaflega 50 sekúndna myndskeið þar sem flogið er á Super Cub yfir skipsflak undir Straumnesfjalli og síðan klifrað á fullu upp hlíðina, og þegar komið er upp á brún fjallsins blasa skyndilega og óvænt við auðar rústir ratsjárstöðvar Bandaríkjamanna. Ég ákvað að klippa þetta skot niður að mestu en hefði átt að sanka þessum sekúndum til syttingar að mér annars staðar og leyfa þessu flotta myndskeiði að lifa.

Í mynd á Stöð 2 var alllangt hringflug inni í Jökulgili, sem "pródúsent" taldi of langt og var bútað niður.

Eftir á að hyggja var það eyðilegging á upplifuninni, og ég sá eftir á að við hefðum átt að stytta myndina annars staðar.

Versta dæmið sem ég þekki er það, að viðtalið við Guðlaug Friðþórsson eftir einstakt afrek hans var stytt, af því að annars hefði Kastljósið, sem það var í, orðið of langt. Eftir á að hyggja hefði ég aldrei átt að fallast á neina styttingu á viðtalinu, svo einstakt var það sem Guðlaugur sagði frá.  


mbl.is Ólafur Darri klipptur út?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband