30.1.2014 | 12:06
Munurinn á þýlyndi og gestrisni.
Á þessu ári verða 25 ár síðan skriðdrekum og skotvopnum var beitt gegn mótmælendum á Torgi hins himneska friðar í Peking.
Fræg er ljósmyndin af kínverska mótmælandanum, sem stendur einn fyrir framan fjóra stóra skriðdreka og stöðvar þá í bili áður en lokið er við að valta endanlega yfir andófsfólkið og murka það niður með hervaldi.
Kínversk yfirvöld eru nú 25 árum síðar og raunar allar götur frá 1949, eða í 65 ár, einræðisstjórn sem lemur niður allt andóf með þeim mannréttindabrotum og hervaldi sem til þarf.
Kínverjar eru hins vegar annað stærsta efnahagsveldi heims og í veröld alþjóðasamskipta verður einfaldlega að fara með æðruleysisbænina, að okkur sé gefinn kraftur, vilji og hugrekki til að breyta því sem við getum breytt, lifa með því sem við getum ekki breytt og að okkur sé gefið vit til að skilja þarna á milli.
Þegar höfð eru venjuleg samskipti við Kínverja á viðskiptasviði, menningarsviði eða öðrum sviðum, verður að viðhafa almennar samskiptavenjur og hófsamlega og skynsamlega gestrisni, þegar um er að ræða gesti, sem hingað koma frá þessu fjölmennasta ríki veraldar.
Þessu var hins vegar ekki til að dreifa þegar leiðtogi Alþýðulýðveldisins Kína kom hingað í heimsókn 2002.
Ákveðið var að Íslendingar færu að meintum vilja mannréttindabrotastjórnarinnar í Kína með því að taka við forsvarsmanni hennar sem gesti, en meina hins vegar friðsömu andófsfólki kínversku, sem Falun Gong fólkið var sannarlega, að koma til landsins.
Með þessu sýndum við alræðisstjórninni í Kína óþarft þýlyndi undir yfirskini gestrisni.
Merkilegt er að sjá, 12 árum síðar, því haldið fram hér á blogginu að í því felist "dómgreindarskortur gagnvart kínverskum sértrúarsöfnuði" að vilja bæta fyrir óréttlæti gagnvart þeim árið 2002.
Ef leggja á þann mælikverða á þá, sem koma hingað til lands, að ef við samþykkjum ekki heimsmynd þeirra í einu og öllu, skuli þeir verða sviptir ferðafrelsi og komið fram við þá í sama anda og kúgunarstjórnin í landi þeirra gerir, er illa komið fyrir þjóð, sem telur sig vera merkisbera skoðanfrelsis.
Biðji Falun Gong-iðkendur afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svo virðist sem lítill munur er á mannréttindastefnu kínverska kommúnistaflokksins og fasistahreyfinga víða um heim. Mannréttindi hafa víða verið tröðkuð niður með harðri hendi og gildir einu hvort það séu Benito Mussolini, Adolf Hitler eða Pinocet herforingi og síðar æðsti maður sjós og lands í Chile. Þetta er óhugnanleg stjórnarstefna sem sumum ráðamönnum íslensku þjóðarinnar liggja hundflatir fyrir. Bæði Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð finnst allt í lagi að greiða götu og veg kínverkra braskara. Ætli þessir aðilar hafi fengið einhverjar sporslur eða fyrirgreiðslur frá kínverjum. Það hefur lengi þekkst víða um heim að þeir sem öðlast aðgang að mörkuðum, náttúruauðlindum, hráefnum og orku umbuni þeim ríkulega fyrir skilninginn og fyrirgreiðsluna! Þetta er kallað mútur á venjulegu mannamáli og segja má að þær séu beinn arfur frá silfurpeningunum 30 sem Júdas fékk í hendurnar hérna um árið. Sagt er að silfurpeningar þessir hafi verið stöðugt í umferð!
Vel kann að vera samhengi milli áhuga hægri aflanna hér á landi fyrir auknum framkvæmdum þar sem fossum og náttúruperlum á að fórna fyrir nokkur hundruð megavött. Það er með ólíkindum þessi gegndarlausi áhugi fyrir virkjunum þó hvergi í veröldinni er framleitt jafnmikið rafmagn og hér á landi.
Guðjón Sigþór Jensson, 30.1.2014 kl. 14:55
Fasismi á sér engar pólitískar girðingar.
Skuggi (IP-tala skráð) 31.1.2014 kl. 00:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.