3.2.2014 | 13:23
Áhrif sveitarstjórna á umhverfis- og náttúruverndarmál.
Nú eru forvöl, prófkosningar og þess háttar að komast á fulla ferð í sveitarfélögum landsins.
Þótt sagt sé að 90% af viðfangsefnum bæjarstjórna séu þess eðlis að flokkapólitík eða landsmálapólitík skipti þar ekki máli má ekki vanmeta áhrif einstakra sveitarstjórnarfulltrúa á mál, sem skipta alla landsmenn og jafnvel heimsbyggðina máli.
Þá á ég sérstaklega við umhverfis- og náttúruverndarmál, einkum vegna þess, að skipulagsvald einstakra sveitarstjórna getur haft afdrifarík áhrif á náttúruverndarmál, sem skipta alla landsmenn, komandi kynslóðir og mannkyn allt máli, svo einstæð sem þessi verðmæti eru á heimsvísu.
Síðasta dæmið um þetta er Gálgahraunsmálið.
Ég hef kynnst mörgu góðu umhverfis- og náttúruverndarfólki í öllum stjórnmálaflokkum og hópum þjóðfélagsins og hin síðari ár er mér hugleikið að það láti sem mest til sín taka vegna hugðarefna sinna á þessu sviði.
Það leiðir til dæmis hugann að næsta prófkjöri, hjá Samfylkingunni um næstu helgi, þar sem ég tel mikilvægt að öflugt fólk með grænar áherslur hljóti gott gengi.
Sem dæmi get ég nefnt Hjálmar Sveinsson, fyrrum samstarfsmann minn á RUV, sem ég kynntist þar vel og vakti athygli mína fyrir vönduð og öflug vinnubrögð í rannsóknarblaðamennsku.
Honum virtist það eðlislægt að kafa ofan í málin og það er þörf á slíkum mönnum.
Til dæmis kynnti hann sér áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar á sínum tíma vel með því að fara í tíu daga ferð einn í tjaldi almennilega um það svæði í stað þess að láta villa sér sýn með því að sjá bara stíflustæðið sjálft eins og langt yfir 90% þeirra sem komu þangað, létu sér nægja.
Slík vinnubrögð, að ígrunda og kanna málin vel frá öllum hliðum, líkar mér að sjá í sem flestum málum og það er gott þegar menn yfirfæra þekkingu sína og góð vinnubrögð yfir í stjórnmál eins og Hjálmar hefur gert.
Það er erfitt að ná árangri og samstöðu í umhverfismálum á tímum skiptra skoðana um þau mál og því fagnaðarefni þegar það gerist. Til þess þarf blendu af lipurð og sannfæringarkrafti þess sem vinnur af hugsjón.
Fáir áttu von á algerri samstöðu á Alþingi um Græna hagkerfið svonefnda en henni tókst Skúla Helgasyni að ná og sýndi með því eftirsóknarverða hæfileika til að ná árangri.
Í borgarlandi Reykjavíkur og í sjónmáli frá borginni eru einstæð náttúruundur sem ógnað er vegna ásóknar í formi skammgróðafullrar rányrkju og óafturkræfra spjalla. Það skiptir því miklu máli hverjir veljast í sveitarstjórnir á þessu svæði hvað varðar umhverfis- og náttúruverndarmál þar sem oft er gengið á rétt komandi kynslóða og jafnrétti kynslóðanna fyrir borð borið.
Ég hvet alla, sem á næstunni taka afstöðu til vals á sveitarstjórnarfulltrúum, að kynna sér vel skoðanir og viðhorf allra frambjóðenda til þeirra mála og það sem þeir hafa lagt af mörkum á þeim vettvangi.
Athugasemdir
Þekki Hjálmar Sveinsson ekki neitt, hef aldrei séð hann né heyrt. Hann vakti hinsvegar athygli mína með pistlum sínum sem og curruculum vitae. Maðurinn virðist mér vera mjög intelligent, „vernünftig und auch bescheiden“. „Tugenden“, sem mættu skreyta fleiri Íslendinga.
Hann á því ekki aðeins erindi í borgarpólitík, heldur og ekki síður í landspólitík.
Menn eins og Hjálmar Sveinsson kveikja vonir í brjósti manns um góða stjórnsýslu fyrir hönd þjóðarinnar, þrátt fyrir þá nýliða sem bættust í hóp þingmanna í síðusti kosningum.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.2.2014 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.