Koma óorði á andóf.

Um daginn sást á netinu mynd af því þegar æstir ofstopamenn úðuðu úr úðabrúsum framan í Vitaly Klitschko þegar hann var að reyna að koma í veg fyrir að átök lögreglunnar við bullur þessar færu úr böndunum.

Þetta minnti á svipað atvik í Búsáhaldabyltingunni hér heima í janúar 2009 þegar hluti mótmælenda snerist til varnar lögregluþjónum gegn bullum, sem réðust að lögreglunni á ruddalegan hátt.

Með því var komið í veg fyrir að ástandið færi algerlega úr böndunum.

Nefna má mörg svona dæmi um það að þegar mótmælaaðgerðir eru í gangi virðist vera til hópur manna, sem fær mikið út úr því að beita grófum meðölum til að magna átök og komast í hrein slagsmál, svo að ekki sé nú talað um grjótkast og notkun barefla.

Þetta bitnar á andófinu en ekki þeim, sem andófið beinist gegn, og kemur óorði á hófstilltar andófsaðgerðir.

Ummæli Viktors Janúkóvitsj forsta Úkraínu, þar sem hann alhæfir um mótmælendur og er á mörkum þess að líkja þeim við nasista, eru dæmi um það þegar ofstopamenn koma óorði á andóf, þótt ekki nema bara vegna þess að með hegðun sinni gefa þessar bullur valdsherrum færi á að alhæfa um andóf og gera það tortryggilegt.

Ég man þá tíma þegar hópur manna gerði á hverju gamlárskvöldi aðsúg að lögreglustöðinni í Reykjavík og braut þar meira að segja rúður með grjótkasti. Í þessu braut sér leið ákveðin skrílmenning og þörf fyrir "hasar" og óeirðir sem setti leiðinlegan svip á hátíðahöld áramótanna.

Eftir að byrjað var að hafa stórar áramótabrennur í helstu hverfum borgarinnar dró úr þessu og Áramótaskaup Sjónvarpsins drap þessar óeirðir endanlega, sem betur fór.  


mbl.is Segi nei við öfgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og svo eru þeir sem segja þægu lömbin koma óorði á andóf. Það fara ekki allir eftir "Uppskrift Ómars Af Þægilegu Andófi Með Sem Minnstu Truflun" og þeir hafa í eigin huga jafn góða ástæðu fyrir grjótkasti og hinir fyrir kurteisri störukeppni við yfirvaldið. Þegar menn telja sig vera órétti beittir þá bregðast þeir ekki allir eins við, en allir eiga það sameiginlegt að finnast hinir vera að nota ranga aðferð.

Staðan væri ef til vill önnur hér á landi ef Búsáhaldabyltingin hefði verið eitthvað meira en kurteisleg ábending um að fólk væri ekki ánægt.

Hábeinn (IP-tala skráð) 4.2.2014 kl. 01:27

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég minnist þess ekki að Kristur, Jón Sigurðsson, Gandhi, Rósa Parks, Martin Luther King, Muhammad Ali, Mandela eða Malala hafi kastað grjóti eða beitt grófu ofbeldi.

Samt hafði þetta fólk meiri áhrif en hersveitir milljóna manna.  

Stalín spurði einu sinni í skilningsleysi sínu hvað páfinn hefði marga hermenn þegar honum var ráðið að taka tillit til kaþólskra manna.  

Ómar Ragnarsson, 4.2.2014 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband