Stigahlaup er nytsamleg íþrótt.

Stighlaup er nytsamleg íþrótt fyrir margra hluta sakir og ég get mælt með henni vegna þess að ég hef afar góða reynslu af henni og hún heldur enn velli í hreyfingarprógrammi mínu eftir að margt annað hefur orðið að þoka.

Þegar þriðji hnéuppskurðurinn var framkvæmdur á mér 2006 var það ráð læknisins að ég yrði að hætta að hlaupa eins og ég hafði gert í næstum sextíu ár.

Þetta var nokkur breyting á stöðu og högum, því að ég varð snemma hrifinn af hlaupum sem drengur og síðan bættust ástríðufullar hjólreiðar og fleira við.  

Hjólreiðunum varð ég að hætta fyrir 15 árum, að því að vegna samfalls í þremur neðstu hryggjarliðum reyndu þær of mikið afltaugarnar tvær sem liggja milli hryggjarliða frá mænunni út í fæturna, þær fóru að bólgna vegna þrengsla og allt fór í hnút.

Nú mátti ég heldur ekki hlaupa vegna slæms álags á slitin og aum hné en lækninum láðist að banna mér að læðast hratt eins og skilgreina má stigahlaup.

Í stigahlaupi lendir þungi manns ekki í hverju skrefi á liðamótunum eins og í venjulegu hlaupi, heldur felst hlaupið í því að færa líkamsþungann stanslaust upp í hverju skrefi án þessara stöðugu hörðu lendinga.

1989 byrjaði ég að hlaupa stigahlaup á hverri æfingu minni upp á 14. hæð á blokkinni að Sólheimum 27 og ferðin upp tók innan við eina mínútu. Þegar ég flutti þaðan 1995 breytti ég þessari æfingu í samsvarandi æfingu í Ræktinni sem fólst í að hlaupa átta sinnum í röð horn í horn í stóra æfingasalnum á innan við 50 sekúndum.

Ég var svo hrifinn af stigahlaupinu  að mér datt í hug að bjóða þremur frægustu lyftufarþegum landsins, forsætisráðherranum, biskupnum og forsetanum í keppni í blokkinni á Austurbrún 2, sem ég þekkti vel frá því að ég átti heima þar 1961 til 62, en þá var í gangi einhver áskorunarleikur sem ég er búinn að gleyma. .

Stærri lyftan þar fer upp á 12. hæð á einni mínútu, og keppnin átti að felast í því að ég kveddi þá þegar þeir færu inn í lyftuna á 1. hæð, hlypi síðan upp stigana og tæki á móti þeim á 12. hæð þegar þeir kæmu þaðan út. Veðja mætti fyrirfram á úrslitin og ágóðinn rynni til líknarmála.

Ekkert varð þó af þessu.

Undanfarin ár hef ég stundað stigahlaup í brunastiganum í Útvarpshúsinu og miða við að hlaupa á 30 sekúndum frá kjallaranum upp á 5. hæð.

Stigahlaup hefur þessa kosti:

Aum hné eða ökklar verða ekki fyrir hnjaski vegna samfelldra lendinga í hverju skrefi.

Hlaupið reynir á flesta vöðva fótanna og allur líkaminn er í hreyfingu, til dæmis ef maður grípur í handriðin með höndunum til að flýta fyrir sér.

Hlaupið reynir á mismunandi blöndu af snerpu og úthaldi eftir því hve margar hæðir eru farnar í hvert sinn.

Með tímatöku í hvert sinn er hægt að fylgjast með stöðu úthalds iðkandans.

Hlaupið er ekki háð veðri.

Hlaupið getur verið mismunandi langt, allt frá einni hæð í senn upp í 18. hæðir í hæstu byggingum.

Allir sem eiga aðgang að stiga í blokk eða húsi, sem er meira en ein hæð, geta stundað þetta holla sport.

Samkvæmt nýjum rannsóknum nægir hlaup sem tekur 20 sekúndur til að ná tilgangi sínum, og þess vegna er nægilegt að hlaupa frá kjallara upp í fjórðu hæð en hlaupa minnst tvisvar á hverri æfingu en líka hægt að hafa ferðirnar fleiri að vild.

Ef markmið iðkandans er fitubrennsla verður stigahlaupið að vera hluti af samfelldri orkueyðslu í meira en 20 mínútur, því að það er ekki fyrr en eftir það langan tíma sem fitan fer að brenna. Lyftingalóð.

Þess vegna verður að skipuleggja fyrirfram blandaða æfingu, þetta 30-50 mínútna langa, með liðkandi æfingum, hröðum göngum, léttum lyftingum og fleiru sem stælir líkamann á sem fjölbreyttastan hátt.Boxpúði

Það þarf ekki flókin tæki í dýrri líkamsrækt.

Myndin hér að ofan er af tveimur steypuklumpum með steypujárnstöngum sem eru fín lóð í léttar lyftingar.  

Ein æfingin hjá mér er "skuggabox" og að taka létta hnefaleikaæfingu með því að dansa í kringum og berja stóbakið á gömlum stól, sem ég stilli upp á sófasæti ein og myndin sýnir og er orðinn ígildi boxpúða.

Ekki er þetta tæki dýrt. Stólnum átti að henda fyrir 14 árum, bak hans er hæfilega mjúkt og af því að hann getur snúist á fætinum verður stundum að dansa  með honum til að fylgja hreyfingu hans og vera í skotstöðu. Það gefur fjölbreytta hreyfingu og útlausn orku.  Boxpúði 2

Gallinn við stigahlaup fyrir fólk með auma liði felst í orðtakinu "what goes up must come down," þ. e. að þurfa að fara niður hæðirnar eftir hvert hlaup.

En þessi galli er ekki fyrir hendi ef lyfta er í húsinu.

Ég sé fyrir mér að einhvern tíma í framtíðinni verði haldin árleg keppni í stigahlaupi í Reykjavík í hæstu byggingu sem hægt væri að nota í því skyni. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

..........................................................................................................................................   

 

 

 

 

 

 

 

Lyftingalóð.


mbl.is Hlupu upp 86 hæðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir frábæra tillögu Ómar - ég tek áskoruninni, þannig að hér eftir ætla ég að slepp lyftunotkun og ganga/hlaupa stiga :)

Helga (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 20:49

2 identicon

Árlegt stigahlaup í Empire State Bulding í NY.

eirikur jonsson (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 23:51

3 identicon

Ég hef alltaf verið á móti hlaupum, og hlynntur göngum.  Þarna ertu komin með fína millileið.

Eini gallinn sem ég sé í fljótu bragði við stigahlaup snýr að þeim sem eru á leið niður, og mæta þér!

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 7.2.2014 kl. 11:11

4 identicon

Búinn að prófa Eiffelturninn. Tvisvar. Mjög gaman ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.2.2014 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband