8.2.2014 | 00:36
Áhugaverð bók dugnaðarmanns og athyglisverð lögmannaþjónusta.
Síðdegin á fimmtudagum og föstudögum geta verið skemmtileg þegar menn nota tækifærið til fagna ýmsum hlutum eða kynna þá. Fimmtudagssíðdegið var ánægjulegt í útgáfu- og afmælisteiti Eiríks Bergmanns Einarssonar og bók hans um Hrunið, þar sem hann horfir á aðdraganda þess af heldur víðari sjónarhóli en venja er, er afar áhugaverð, til dæmis um viðhorf mismunandi þjóða til sjálfra sín og það, hvaða þátt slíkt getur átt í því sem þær lenda í.
Þarna var hægt að spjalla við ýmsa hressandi menn og Egill Ólafsson orðaði það við mig eftir kynninguna að kannski værum við Íslendingar ennþá ekki komnir lengra en á landnámsöld í ýmis konar hugsanagangi.
Í gær buðu Eyjólfur Ármannsson og Gísli Tryggvason fólki að samfagna með sér vegna stofnunar lögmannsstofunnar VestNord lögmenn og þar var saman komið fólk úr skemmtilega mörgum áttum.
Nafn lögmannsstofunnar vísar til þess að eitt af verkefnum þeirra félaga verði að hasla sér völl í vesturhluta yfirráðasvæðis Norðulanda þar sem danskir og norskir lögmenn hafa verið áberandi en kannski ágætt að fá inn íslenska lögfræðinga sem eru hagvanir á dönsku og norsku málsvæði og geta breikkað úrval í vaxandi lögmannaþjónustu og umsvifum á þessu svæði.
Eiríkur Bergmann og Gísli Tryggvason voru báðir með mér í stjórnlagaráði og var mikill fengur að kynnast þeim þar í alveg einstaklega gefandi starfi, svo að það var ánægjan ein að hitta þá í vinafagnaði í gær og fyrradag.
Útgáfuboð sem endaði með stórafmæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rí Eiríks er sennilega með allra athyglisverðustu ritum sem hefur verið rituð um bankahrunið.
En hrunbókin sem flettir ofan af þeirri atburðarás þegar tekin var ákvörðun um að afhenda helstu bröskurum landsins gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar undir lok septembermánaðar 2008 hefur ekki verið rituð. Forystusauðir Sjálstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þegja gjörsamlega hvernig stóð á því að 500 milljarða varasjóður Seðlabankans var afhentur aðilum sem Davíð Oddsson sagði nokkrum dögum síðar að „við borgum ekki skuldir óreiðumanna“ og landsþekkt var. Þá var skaðinn skeður, gjaldeyrissjóðurinn afhentur án tilhlíðilegra veða eða trygginga. Óreiðumennirnir fengu þessa gríðarlegu fjármuni til að ráðstöfunar.
Í dag er verið að rífast um nokkra milljarða, kannski nokkra tugi. Hvað varð af þessum 500 miljörðum virðist ekkert mega ræða. Braskarar virðast vera hafnir yfir grun og stjórnmálamenn einnig. Hvernig ákvörðunarvaldinu var háttað milli Geirs Haarde þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar þáverandi yfirbankastjóra Seðlabanka og forystu Framsóknarflokksins að hygla bröskurum hans, hefur enn ekki verið dregið fram í dagsljósið að öllu leyti.
Í yfirheyrslum í sakamálinu gegn Geir Haarde fyrir Landsdómi komu ýmsar nýjar upplýsingar sem hefði þurft að fylgja betur eftir.
Það var mjög ábyrgðarlaust að afhenda 500 milljarða óreiðumönnum án þess að þjóðinni væri gerð grein fyrir þessari umdeildu ákvörðun.
Guðjón Sigþór Jensson, 8.2.2014 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.