Einstakt viðtal á löngum og farsælum ferli.

Ég er ekki hissa á því að að Gísil Marteinn Baldursson skrifi "Vá. Þetta var furðulegt," eftir viðtalið sem hann tók við forsætisráðherra í dag. Gísli Marteinn á að baki langan og farsælan feril sem fréttamaður og þáttagerðarmaður og stjórnandi í sjónvarpi og hans stíll hefur verið að laða fram þægilega og upplýsandi stemingu í viðtölum sínum. 

Þeir eru ef til vill til, sem hafa gaman af snerrum og hanaslag og finnst hann kannski hafi verið of "kammó" og vinalegur í viðtölum sínum frekar en hitt og kannski ekki alltaf verið með nógu gagnrýnar spurningar, en á móti kemur að stundum fæst meira út úr viðtölum þegar aðferð Gísla er beitt en þégar þau þróast út í karp og nöldur sem litlu skila.

Ekki var að sjá í fyrstu í dag að þetta viðtal yrði öðruvísi en önnur viðtöl sem Gísli hefur tekið en það fór fljótlega að taka aðra stefnu og varð að lokum viðtal að endemum.

Strax í upphafi varð forsætisráðherrann óánægður með það að Gísli Marteinn skyldi vitna í orð hans um óánægju með stefnu og störf Seðlabankastjóra og tengja það við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að skipa tvo bankastjóra við hlið hans, ráða raunar þrjá bankastjóra.

Sigmundur Davíð sakaði Gísla Martein um að "gera sér upp skoðanir" og tönnlaðist á því það sem eftir var viðtalsins. Skipti engu máli, þótt GM þyrfti að lesa tilvitnanirnar og vitna í þær aftur og aftur, SDG var búinn að slá því föstu að Gísli Marteinn og aðrir væru sífellt að gera sér upp skoðanir.

Gísli Marteinn vitnaði réttilega í eyjuna.is til að fá álit forsætisráðherra á frétt þar um ráðningu tveggja nýrra Seðlabankastjóra við hlið Más Guðmundssonar og minnti að sjálfsögðu á það að á eyjunni.is hefðu oft verið réttar fréttir sem hefðu greinilega haft góðar heimildir í framsóknarflokknum, af því að stjórnendur eyjunnar væru framsóknarmenn.

Úr því sprettur karp um eyjuna og þá spyr Sigmundur Davíð Gísla skyndilega: "Hvaða álit hefur þú á Fréttablaðinu?"

Sem sagt, allt í einu hefur viðtalið snúist við og forsætisráðherrann leggur spurningu út í hött fyrir spyrjandann, sem kemur trúverðugleika fréttar á eyjan.is ekkert við !

Þarna varð vendipunktur í viðtalinu þar sem SDG snýr því upp í karp, ekki bara um umræðuefnið, heldur líka um það hvor þeirra sé spyrjandi og stjórnandi viðtalsins og hvor ekki.

Margt mætti nefna, en sem dæmi um það hvernig reynt er að snúa málum á haus er sú fullyrðing að skipan Más Guðmundssonar á sínum tíma hefði markað þáttaskil í skipan Seðlabankastjóra hvað varðaði það að vera gersamlega pólitísk af því að formlega tók Már við af norskum efnahagssérfræðingi.

Þessu var þveröfugt farið, að fram að 2009 hafði pólitískum gæðingum verið raðað hverjum á eftir öðrum í þetta embætti,  því að á undan Norðmanninnum voru Davíð Oddsson, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Finnur Ingólfsson og Steingrímur Hermannsson Seðlabankastjórar, - enginn þeirra hagfræðimenntaður, en það hafa þó síðustu tveir Seðlabankastjórar verið.

Ráðning norsks manns í starfið var neyðarredding 2009 eins og margt sem þurfti að gera veturinn 2008-2009.

En sem fyrst þurfti að ráða íslenskan mann sem Seðlabankastjóra vegna lagaákvæða um að embættismenn íslenska ríksins séu Íslendingar og þegar Már Guðmundsson var valinn, var ekki dregið í efa að faglega var ekki hægt að efast um hæfni hans, menntun og reynslu. Ja, nema menn vildu fara í gamla farið og fá aftur einhvern úr pólitíkinni á borð við Davíð Oddsson, Finn Ingólfsson eða Birgi Ísleif Gunnarsson.  

Það varð jú að ráða eitt stykki Seðlabankastjóra og því út í hött hjá Sigmundi Davíð að leggja það að jöfnu við það að breyta lögunun núna með því að ráða þrjá menn.

Spurning Gísla Marteins um það hvort Seðlabankinn sé ekki að sinna lögbundnu hlutverki sínu með því að skoða áhrif "stærstu skuldaleiðréttingar heims" eins og forsætisráðherra hefur hana, var fyllilega réttmæt og engin ástæða til þess að fara í fýlu út af henni.

Sigmundur Davíð sagði beinum orðum í viðtalinu að Seðlabankinn hefði fyrst átt að skoða önnur umbeðin atriði, og einkennilegt var að Gísli Marteinn skyldi aftur og aftur þurfa að minna forsætisráðherrann á orðið "óumbeðið" í ræðu hans á Viðskiptaþingi.

Út úr þessu kom þó, þótt það væri ekki sagt beinum orðum, að ríkisstjórnin teldi sig eiga að ráða því í hvaða röð Seðlabankinn sinnir viðfangsefnum sínum.

Lokaorð Sigmundar Davíðs og þar með síðustu orðin í þættinum voru alveg dæmalaus í sögu ríkisútvarpsins, þegar hann segirvið Gísla: "Þú stóðst þig ágætlega og sannaðir að þú værir ekki að tala fyrir ríkisstjórnina."

Með þessum orðum er gefið í skyn að Gísli Marteinn hefði í pólitískum forsendum komið beint úr borgarpólitík annars ríkisstjórnarflokkanna og verið ráðinn inn í eigin þátt í sjónvarpi sem fylgismaður ríkisstjórnarinnar, en að hann hefði (greyið) verið að reyna að þvo það af sér í þættinum.

Ég hef áður skrifað um það hér á blogginu að miðað við frammistöðu Gísla Marteins í hátt í hundrað sjónvarpsþáttum og feril hans á fréttastofunni þar á undan hefði ráðning hans nú til baka til sjónvarpsins verið fyllilega eðlileg og réttmæt.

Þess vegna voru þessi lokaorð forsætisráðherra ómakleg og á lágu plani.

Ég var samstarfsmaður bæði Gísla Marteins og Sigmundar Davíðs á fréttastofu RUV á sínum tíma og líkaði mjög vel við þá báða.

Sigmundur Davíð var skemmtilegur og klár vinnufélagi, gerði ýmsar frumlegar og skemmtilegar fréttir og gerði síðar afar góða hluti með brautryðjenda í að miðla upplýsingum um gildi gamalla húsa og borgarhverfa. Því verki hans er vert að halda á lofti.

Hann gerði líka góða hluti í Indefence hópnum og það hefur fylgt honum ferskur blær síðan hann kom inn í íslenska pólitík Hrunveturinn mikla.

En mér finnst leitt hve hann hefur færst upp á síðkastið í þá átt í rökræðum eða öllu heldur karpi, sem við urðum vitni að í dag.

Þessi stíll er byrjaður að verða honum fjötur um fót og hefur skilað eftirminnilegum nýyrðum eins og "óhefðbundinn þingmaður" sem "hugsar upphátt" og fleiri slíkum ummælum sem skaða hann í stað þess að styrkja.

 


mbl.is „Vá. Þetta var furðulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Gísli á total virðingu inni eftir viðtalið við Sigmund.

Það situr samt óneitanlega eftir sú spurning hvers vegna Bjarni fékk að valsa um í ruglinu í síðasta þætti án þess að Gísli truflaði..

hilmar jónsson, 16.2.2014 kl. 20:49

2 identicon

Það voru ekki spurningarnar sem gerðu frammistöðu Gísla Marteins sérstaka heldur það að hann virtist telja sig vita það betur en viðmælandinn hver afstaða hans væri og þrasaði við hann ef svörin við spurningunum voru "röng".

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.2.2014 kl. 20:54

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Hilmar er ekki mikill aðdáandi Gísla, og fyrst Hilmar hrósar honum eftir viðtalkð, þá hlýtur hann að hafa gert eitthvað rétt.

Wilhelm Emilsson, 16.2.2014 kl. 21:04

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessar tilraunir til að bera fram persónuleg viðhorf til manna og málefna í viðtali, ásamt einbeittum vilja til þess að snúa út úr öllu sem viðmælandinn hafði fram að færa og jafnvel taka fram fyrir honum í svörum við spurningum í viðtalinu, voru fyrir neðan allar hellur og þáttarstjórnandanum til háborinnar skammar.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.2.2014 kl. 21:13

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvaða bull er það að ekki megi gagnrýna stefnu Seðlabankans? Það er gert í öllum öðrum löndum án þess að sjálfstæði bankans sé dregið í efa. Og hvers vegna sagði Gísli Marteinn að SDG væri á einhverri vegferð (skammast út í allt og alla)? Mátti t.d. ekki heldur gagnrýna Viðskiptaráð?

Meira ruglið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.2.2014 kl. 21:15

6 identicon

Eigum við ekki að vona að embættisfærsla Kögunarstráksins verði síðasti þátturinn í niðurlægingar sögu Íslands seinni ára.

Fyrri þættir eru öllum kunnir; valdatími stútanna Dabba + Dóra, kvótakerfið, einkavinavæðingin sem endaði með gjaldþroti og þjófnaði á sparifé, ekki síst útlendinga, endurkjör forseta ræfilsins, sem þegar árið 2006 hélt sína ídíótísku “We Are Different” ræðu í London, yfirtaka LÍÚ á fjórflokknum og Dabbi kominn í ritstjórastól Moggans, rétt búinn að setja Seðlabankann á hausinn.

  

Er ekki nóg komið, en maður er farinn að skammast sín fyrir að vera Íslendingur.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.2.2014 kl. 21:21

7 identicon

Gunnar. Þú ert eins og forsætisráðherra reynir að snúa út úr. Gagnrýni á Seðlabankann á fullan rétt á sér en þegar menn eru svo óánægðir að þeir þurfa að koma sínu fólkí þá er það annað og meira en gagnrýni.

thin (IP-tala skráð) 16.2.2014 kl. 21:32

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Fram að þessu hefur SDH reynt að „framsóknarvæða“ íslenskt samfélag. Það kom vel í ljós þegar stjórn RÚV var endurskipulögð, tveir dyggir „varðhundar“ Framsóknarflokksins komu í stað hófsamra menningarvita á borð við Pétur rithöfund, einn helsta sérfr´ðing okkar í Þórbergi Þórðarsyni.

„Framsóknarvæðingin“mun halda áfram. Nú hyggst SDG „framsóknarvæða“ Seðlabankann og koma fagmanninum Má núverandi bankastjóra burt. Hvort wfnahagur Íslendinga skáni eða versni verður að koma í ljós. En öll pólitísk afskipti eru til þess fallin að við lendum fyrr en ætlast er til í næsta hruni og að þessu sinni að mestu í boði SDG f.h. Framsóknarflokksins.

Mætti biðja aftur um vinstri ríkisstjórn? Ríkisstjórn Jóhönnu var miklu skárri kostur en þessi sem við sitjum uppi með.

Guðjón Sigþór Jensson, 16.2.2014 kl. 21:37

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvar hefur það komið fram að Sigmundur ætli að koma sínu fólki að í Seðlabankanum? Hvar hefur það komið fram að skipt verði um seðlabankastjóra eða þeim fjölgað?

Reyndar rak Jóhanna og Steingrímur pólitískan andstæðing sinn úr Seðlabankanum, en virtust hafa gleymt því að bankastjórarnir vor 3, og settu svo inn "sinn" mann í staðinn. Fyrst norskan krata og svo íslenskan trotskíista.

Allt voða eðlilegt.... er það ekki?

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.2.2014 kl. 21:48

10 identicon

Döpur dagskrá var í dag,

dæmalaus ég segi,

mátti á harðan hanaslag

horfa á sunnudegi…

Þjóðólfur (IP-tala skráð) 16.2.2014 kl. 21:48

11 identicon

Gleymdi Gísli Martein pollagallanum heima?

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 16.2.2014 kl. 22:21

12 identicon

Þessi þáttur var í alla staði undarlegur á að horfa.

Gísli Marteinn greyið virtist líta þannig á að hann væri í kappræðu við Sigmund Davíð og lagði forsætisráðherra ítrekað orð í munn og virtist stressast og svekkjast upp við svör hans og greip ítrekað fram í fyrir Sigmundi ef svörin voru honum ekki að skapi.

Ég hef hingað til í umræðu td. á vinnustað, varið Gísla Martein og þá helst og mest hrósað honum fyrir framlag hans til reiðhjólamenningar hér á höfuðborgarsvæðinu.

Gísli minn, þú verður að taka þig á sem þáttastjórnandi og spyrill og verður að þola svör þó að þau sé ekki þér að skapi, þannig að maður nenni að kveikja á sjónvarpinu og horfa á þáttinn næst og þar næst.

Góðar stundir.

Jón Ingi Kr. (IP-tala skráð) 16.2.2014 kl. 22:27

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um tíma var ég öryggisvörður í Seðlabankanum og sá á hverju kvöldi þegar ég var þar á vakt að skrifborð Jóhannesar Nordal, seðlabankastjóra á árunum 1961-1993, var þakið alls kyns útreikningum og minnismiðum.

Bankastjórar Seðlabankans voru hins vegar þrír þegar ég var þar öryggisvörður og hinir tveir voru framsóknarmaðurinn Tómas Árnason og sjálfstæðismaðurinn Geir Hallgrímsson.

Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra á árunum 1974-1978 en verðbólgan hér á Íslandi fór í um 50% árið 1975.

Tómas Árnason var fjármálaráðherra á árunum 1978-1979 og viðskiptaráðherra 1980-1983 en það ár fór verðbólgan hér í 84%.

Og alþýðubandalagsmaðurinn Ragnar Arnalds, átrúnaðargoð Jóns Vals Jenssonar, var fjármálaráðherra á árunum 1980-1983.

Ekki var hins vegar að sjá að á skrifstofum Tómasar og Geirs væri nokkuð unnið, fyrir utan ræstingar.

Skrifborðin voru auð, engar bækur í hillunum, engar tölvur komnar þá og ekki nokkrar mannvistarleifar yfirhöfuð.

Davíð Oddsson
, fyrrverandi seðlabankastjóri og forsætisráðherra, nú á jötu sægreifanna og kominn út í móa, er einnig mikill töframaður.

Stýrivextir
Seðlabanka Íslands voru komnir í 18% haustið 2008 og verðbólgan hér á Íslandi var 18,6% í janúar 2009, þegar Davíð Oddsson var ennþá seðlabankastjóri og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra.

Verðbólgan hér á Íslandi 1940-2008

Þorsteinn Briem, 16.2.2014 kl. 22:51

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hlustaðí á þennan þátt og mér ofbauð framkoma Gísla Marteins, hann bar á borð sínar ályktanir á því hvað forsætisráðherran væri að hugs, og gaf honum svo ekki færi á að vara spurningunum. Ég er steinhissa á þessari framkomu hins ljúfa drengs Gísla Marteins, og er að velta fyrir mér hvort hann hafi fengi skotveiðileifi á forystumann Framsóknar, ég held nefnilega að vegir sjálfstæðisfokksins séu órannsakanlegir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2014 kl. 23:31

15 Smámynd: Gunnlaugur I.

Alveg svo augljóst í hvaða liði Gísli Marteinn telur sig nú vera.

Nefnilega RÚV liðinu og landsölu- og úrtölu liðinu sem er mjög uppsigað við forsætisráðherra okkar og alveg sérstaklega eftir að hann talaði alveg skýrt gegn þessu landsöluliði á Víðskiptaþingi í liðinni viku.

En þar sagði Sigmundur Davíð alveg skýrt og skorinort að Ísland væri ekki á leið í Evrópusambandið og bætti svo enn frekara salti í sárin þegar hann sagði:

"Iceland is open for business, but not for sale"

Gunnlaugur I., 16.2.2014 kl. 23:58

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Úr kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2009:

"Við viljum að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar, líkt og kveðið er á um í skilyrðum síðasta flokksþings framsóknarmanna.

Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu."

Þorsteinn Briem, 17.2.2014 kl. 00:10

17 identicon

15 segir "Alveg svo augljóst í hvaða liði Gísli Marteinn telur sig nú vera. "

Ég spyr nú eiginlega líka í hvaða liði Ómar telur sig vera?

Er hatrið  og heiftin út í stjórnvöld vegna meints afturkipps í umhverfismálum að rifta hann því ágæta ráði og þeirri góðu rænu sem hann svo oft hefur sýnt sig að hafa?

Vill hann ekki koma út úr skápnum varðandi óánægjuna með sinn gamla Sjálfstæðisflokk og stekkur á fleipur "sjónvarpssjörnunar" til að finna kærkominn blóraböggul í Sigmundi Davíð? 

Var það glæpur Sigmundar Davíðs að tala fyrir málstað landbúnaðar og neytenda á móti verslunarklíkunni sem hefur marg sýnt sig í því að vera þjóðhættulegt fyrirbæri a.m.k. ef horft er til helstu þáttakenda í aðdraganda hrunsins? 

Standa kanski þessir andskotans bændur í vegi fyrir hinni útópísku hugsun um ósnerta og fagra náttúru í huga Ómars og því hljóti þeir pólitíkusar sem voga sér að benda á gildi landbúnaðarins fyrir íslendinga að vera pólitískt réttdræpir með hvaða meðulum sem duga?

Mátti ekki benda á hlutdrægnis/áróðursskrif Þórólfs Mattíassonar gegn landbúnaði, sem virðist hafa tekið upp merkið hjá Þorvaldi Gylfasyni setuvini Ómars í stjórnlagaráði?

Áttu þessar "ertu hættur að berja konuna þína" spurningar Gísla Marteins nokkurn skapaðan hlut skyldann við góða fréttamennsku eða þáttarstjórn? 

Var það heimska sem lá í afneitun Gísla Marteins á einföldustu rökfærslu um val 1 eða 3 seðlabankastjóra eða lá eitthvað annað að baki? 

Hafi Sigmundur Davíð hlaupið á sig rétt á loka metrum viðtalsins þá er a.m.k. hægt að sýna því örlitla samúð þegar "sjónvarpsstjarnan" Gísli Marteinn var búinn að draga þetta viðtal út í fullkomnar ógöngur.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.2.2014 kl. 02:02

18 identicon

"Hard talk" á RÚV, ekki hélt ég að ég ætti eftir að upplifa slíkt. Þótt Gísli Marteinn hafi ekki tærnar þar sem Stephen Sackur hefur hælana, ekki enn, boðað þetta þó vonandi breytingu frá "soft talk" Silfursins.

En niðurlæging Sigmundar Davíðs er slík, að ég sé ekki að hann geti setið áfram í embættinu. Þegar menn opinbera heimsku, hroka og vanhæfni í valdamesta ambætti ladsins, og það "life", verða þeir að víkja eða þeim verður sparkað út.

Forsætisráðherrann hafði ekki einu sinni vit á því að þegja, þegar viðtalinu lauk, nei, hann sendir Gísla Marteini tóninn, vill eiga síðasta orðið, eins og götu strákur. En Gísli Marteinn var nógu skynsamur og sagði bara; takk.

 

Þvílík lágkúra. Vanstilltur eins og karl faðir hans, innherjakóngur klakans.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.2.2014 kl. 06:35

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Margt kemur upp þá hjúin deila!!!

Hér er vakið máls á undarlegum viðtalsþætti og síðuhaldari greinir umræðuefnið vel eins og hans er vani. Hefur jafnframt á því skoðanir.

Síðan koma gestirnir og sýnist nú sitt hverjum en nokkuð ljóst hver andinn til umræðuefnisins er eftir því hver til máls tekur - þó með undantekningum.

Ljósasta dæmið um það hvernig svona vangaveltur eru dæmdar til að verða handónýtar sjáum við í upphafi athugasemdar 17:

"Ég spyr nú eiginlega líka í hvaða liði Ómar telur sig vera?" 

Þá er það ákveðið að til þess að lesandi bloggfærslu geti glöggvað sig á ályktun ritarans þarf hann að vita - og geta séð "í hvaða liði" hann sé!

Er ekki líklegt að ályktanir okkar verði spámannlegar ef það er ljóst "í hvaða liði við erum"? 

Hvenær kemur bíllinn sem útdeilir pólitískum þroska til kjósenda? 

Árni Gunnarsson, 17.2.2014 kl. 09:28

20 identicon

Mér fannst nú Gísli komast í smá paradox strax í upphafi, og vissulega reyna að leggja Sigmundi til orð. Sigmundur átti svo ágætis endasprett í sambandi við landbúnaðinn og Haga.
Unnu þeir ekki saman á RÚV?

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.2.2014 kl. 10:09

21 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér sýnast sumir "gera mér upp skoðanir" í byggðamálum á Íslandi. Í kosningabaráttunni 2007 lýsti ég því margsinnis yfir að mér hugnaðist ekki það Ísland, þar sem í stað þeirrar landsbyggðar í því formi sem þjóðin hefur þekkt frá landnámi væru komin samfelld sumarbústaðabyggð eða eyðibyggð.

Ég hafði til hliðsjónar byggðapólitík Norðmanna, sem byggist á víðari sýn en felst í að líta á landbúnaðinn eingöngu út frá sjónarmiðum búnaðarframleiðslu, heldur jafnvel enn frekar út frá sjónarmiðum fjölbreyttrar þjóðmenningar, bókmennta, lista, ferðamennsku og sjálfsmyndar þjóðarinnar.

Norðmenn "selja" erlendum ferðamönnum upplifun norsku stórskáldanna á sviði bókmennta og tónlistar á borð við Björnson, Hamsun og Grieg.

Þeir vilja gefa öllum kost á að upplifa Sunnudag selstúlkunnar og höll Dofrans. Á einstökumm svæðum er skylda að hafa búsetu á þeim bæjum, sem í dölum og fjörðum standa.

Allar þjóðir Evrópu styrkja landbúnað. Ef ein þjóð tekur sig út úr og hættir því deyr landbúnaðurinn og hin dreifða byggð í því landi vegna ójafnrar og ósanngjarnrar samkeppnisstöðu. Slíkt er einfaldlega óframkvæmanlegt, óréttlátt og óskynsamlegt.

Best væri að landbúnaðarstyrkir yrðu afnumdir að mestu í Evrópu í öllum helstu löndum álfunnar og einnig í Norður-Ameríku, því að hinir miklu styrkir skapa afdrifaríkan og siðlausan ójöfnuð á milli landbúnaðar í hinum ríku vestrænu löndum og landbúnaðarins í þróunarlöndunum.

Í því felst sennilega grófasta óréttlætið í heimsbúskapnum.

Örþjóðin Íslendingar verður hins vegar að horfast í augu við það að hún ræður ekki ferðinni í landbúnaðarpólitík Evrópu og Norður-Ameríku.

Ofangreint breytir því hins vegar ekki að landbúnaðarkerfið á Íslandi þarf sterkt aðhald og lausn úr viðjum einokunar, því að öll einokun er varasöm og skapar hættu á spillingu.    

Ómar Ragnarsson, 17.2.2014 kl. 11:08

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Um 45% af útgjöldum Evrópusambandsins renna til landbúnaðar í aðildarríkjunum og 39% til uppbyggingarsjóða."

"Sænskir bændur um 135 milljarða íslenskra króna á ári í styrki frá Evrópusambandinu, sem er hærri upphæð en nettótekjur bændanna."

Þorsteinn Briem, 17.2.2014 kl. 12:30

23 identicon

Það er því blautur draumur hjá Högum að getað rokkað kerfinu hér á hliðina, og smurt svo vel á niðurgreidda innflutta vöru í staðin. Einföld strategía.
En Ómar, - taki Evrópa upp á alsherjar niðurfellingu stuðnings, þá hækkar þeirra vöruverð til neytenda, og veikir þeirra samkeppnisaðstöðu gagnvart USA (nema þeir hætti líka), og svo sérstaklega þeim sem hafa tökin á framleiðslu annars staðar, - sem mörg hver eru lönd sem varla brauðfæða sig sjálf.....
Allt fyrir $$$$

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.2.2014 kl. 14:05

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu er Ísland nú þegar 80% í Evrópusambandinu og kjör íslenskra bænda væru ekki verri ef Ísland væri að öllu leyti í sambandinu.

Of langan tíma tæki að flytja mjólk frá öðrum Evrópulöndum hingað til Íslands með skipum og of dýrt að flytja mjólkina hingað með flugvélum.

Ostar
frá Evrópusambandsríkjunum yrðu hins vegar ódýrari í verslunum hér en þeir eru nú en tollar féllu niður á öllum íslenskum vörum í Evrópusambandsríkjunum, til að mynda lambakjöti og skyri.

Verð á kjúklingum frá Evrópusambandsríkjunum myndi einnig lækka í íslenskum verslunum en kjúklingar og egg eru hins vegar framleidd hér í verksmiðjum.

Tollar á öllum vörum
frá Evrópusambandsríkjunum féllu niður hérlendis, til að mynda 30% tollur á kjúklingum og eggjum, 20% á sætabrauði og kexi, 15% á fatnaði og 7,5% á heimilistækjum.

Þar af leiðandi myndi rekstrarkostnaður íslenskra heimila lækka verulega, einnig heimila íslenskra bænda.

Þar að auki eru dráttarvélar, kjarnfóður, tilbúinn áburður, illgresis- og skordýraeitur, heyrúlluplast og olía seld hingað til Íslands frá Evrópu.

Vextir
myndu einnig lækka verulega hérlendis og þar með kostnaður íslenskra bænda, bæði vegna lána sem tekin eru vegna búrekstrarins og íbúðarhúsnæðis.

Þorsteinn Briem, 17.2.2014 kl. 14:12

25 identicon

Ómar @21, sé að rökfærnin er enn í lagi og set "like" á mest af  þessu, ekki síst þetta:"því að hinir miklu styrkir skapa afdrifaríkan og siðlausan ójöfnuð á milli landbúnaðar í hinum ríku vestrænu löndum og landbúnaðarins í þróunarlöndunum. "   

Þróunaraðstoð Bandaríkjanna og ESB vegur ekki upp það sem þeir hafa af þessum sömu löndum t.d. Bandaríkin í gegnum niðurgreiðslur á baðmull og ESB með því að múlbinda t.d. Afríku í hutverki hrávöruframleiðandans með tollahindrunum m.a.   Íslendingar geta ekki gengið á undan með neinskonar fordæmi í þessum málum, aðeins gætt þess að vernda sinn landbúnað í þessum ólgusjó heimsmarkaðarins.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.2.2014 kl. 14:18

26 identicon

Steini, - aths:

Málsgrein 1: Afar loðið mál, og líkast til rangt
#2 Rangt
#3 Að mestu rangt.
#4 Sammála. Verst að salmonella er staðalatriði innan ESB en skandall hér.
#5 Rétt, og þ.a.l. minni tekjur í ríkissjóð.
#6 Ekki svo auðtrúa á það. ATH að landbúnaðarvara sem ekki er hér framleidd og hefur þá ekki tollavernd né samkeppni innan lands frá er hlutfalls-dýrari en hin...
#7 Nú já, - og hvað með það?
# Hvernig svo? Af hverju? Okurvextir okkar eru heimatilbúnir og geta haldið áfram að vera það.

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.2.2014 kl. 17:09

27 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Laukrétt hjá Ómari:

,,Allar þjóðir Evrópu styrkja landbúnað. Ef ein þjóð tekur sig út úr og hættir því deyr landbúnaðurinn og hin dreifða byggð í því landi vegna ójafnrar og ósanngjarnrar samkeppnisstöðu. Slíkt er einfaldlega óframkvæmanlegt, óréttlátt og óskynsamlegt."

Því má svo bæta við að æskilegt væri að forsætisráðherra þjóðarinnar setti sig inn í landbúnaðarmálin, sbr. hvernig hann fór með himinskautum um tollkvótann. Hitt er alveg rétt hjá honum að flestir bændur lepja dauðann úr skel m.v. vinnuframlag og menn skyldu leiða hugann að því að það eru ekki síst þeir sem oftast eru taldir mest verndaðir, sauðfjárbændurnir. Hvað veldur því?

Kannski tímabært að Ísland marki sér landbúnaðarstefnu?

Ingimundur Bergmann, 17.2.2014 kl. 17:29

28 Smámynd: Þorsteinn Briem

Neytendur hér á Íslandi sem vilja frekar kaupa íslensk matvæli vegna þess að þeir telja þau betri en innflutt geta það að sjálfsögðu, ef þeir hafa efni á því, enda þótt þau íslensku séu dýrari en þau innfluttu.

Íslenskir kjúklingar eru að sjálfsögðu merkilegri en þeir innfluttu en salmonella hefur margoft fundist í íslenskum kjúklingum.

Ef neytendur hér á Íslandi vilja hins vegar frekar kaupa íslenska kjúklinga er þeim það í sjálfsvald sett, ef þeir hafa efni á því.

22.11.2008:


"Kíló af íslenskum kjúklingabringum með 30% afslætti í Bónus kostar nú 1.554 krónur (merkt verð 2.220 krónur).

Kíló af hollenskum kjúklingabringum með engum afslætti kostar hins vegar 4-5 evrur (680-850 krónur á núverandi gengi).

Verð á kjúklingabringum
á Íslandi er því þrefalt hærra en í Hollandi."

Þorsteinn Briem, 17.2.2014 kl. 17:51

29 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð búa milljónir manna í hverju landi fyrir sig og þessi ríki eru með sterka gjaldmiðla.

Danska krónan er bundin gengi evrunnar og Finnland er á evrusvæðinu, þar sem um 330 milljónir manna búa, fleiri en í Bandaríkjunum.

Íslenska ríkið er hins vegar
með mjög veikan gjaldmiðil.

Hér á Íslandi hefur verið mesta verðbólga í Evrópu, hæsta matvælaverð í Evrópu og miklu hærri vextir en á evrusvæðinu.

Og falli gengi íslensku krónunnar gagnvart evrunni skiptir launahækkun hér á Íslandi upp á nokkur prósent litlu máli, þar sem vörur og aðföng frá evrusvæðinu myndu hækka hér í verði. eins og margoft hefur gerst.

En á meðan hér eru gjaldeyrishöft getur Seðlabanki Íslands að töluverðu leyti stjórnað gengi íslensku krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði.

Og hér á Íslandi var einnig mikil verðbólga þegar vextir hér voru mun lægri en verðbólgan, til að mynda á áttunda áratugnum.

Verðbólga hér á Íslandi á árunum 1940-2008


Hlutfall evrusvæðisins í útflutningsvog Seðlabanka Íslands árið 2010, byggðri á vöruviðskiptum árið 2009, var 60% og hlutfall allra Evrópusambandsríkjanna er að sjálfsögðu hærra.

Árið 2009 komu 65% af öllum vöruinnflutningi okkar Íslendinga frá Evrópska efnahagssvæðinu og þá fóru um 84% af öllum vöruútflutningi okkar þangað.

Við eigum því að fá greidd laun okkar hér á Íslandi í evrum og greiða hér fyrir vörur og þjónustu í evrum, rétt eins og erlendir ferðamenn hér, sem búa á evrusvæðinu.

Við Íslendingar höfum enga góða ástæðu til að skipta hér evrum í íslenskar krónur og þeim svo aftur í evrur með tilheyrandi gríðarlegum kostnaði.

Euro coins - National sides

Þorsteinn Briem, 17.2.2014 kl. 18:36

30 Smámynd: Agla

Ég hélt að  þetta "Sunnudagsmorguns"mál  snerist um aðra og alvarlegri hluti en samanburð á verði á verði á kjúklingabringum  í Hollandi og Íslandi.

Það vill svo til að ég kaupi iðuglega kjúklingabringur í Hollenskum matvælaverslunum. Ég veit  að þessar upplýsingar (frá 22.11.2008) sem þú nefnir eru rangar og  að þær segja þar að auki ekkert um verð á hinum ýmsu kjúklingabringumn sem á boðstólu eru  í Hollandi í dag.

Kannski eru bara að grínast:  Einhverns skonar brandari um að Forsætisráðherrann hafi verið eins og höfuðlaus kjúklingur í Sunnudagsmorguns" viðtalinu?

Agla, 17.2.2014 kl. 19:11

31 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu skiptir engu máli hvað matvæli kosta hér á Íslandi og algjört aukaatriði í lífskjörum hér og verðbólgu.

Þessi samanburður á verði á kjúklingabringum hér á Íslandi og í Hollandi var gerður af manneskju sem bjó í Hollandi á þessum tíma en auðvitað halda sumir því fram að þetta verð sé skáldskapur.

Verð á matvælum hér á Íslandi er að sjálfsögðu ekki alls staðar það sama, frekar en í öðrum löndum.

Bónus hefur hins vegar verið með sama verð í öllum verslunum.

Og þeir sem búa í fámennum byggðarlögum hér hafa margir farið langar leiðir til að kaupa ódýrari matvæli en þau sem hægt hefur verið að kaupa í þeirra heimabyggð.

Sumir alla leið frá Hvammstanga til Reykjavíkur einu sinni í viku og einnig áður en Hvalfjarðargöngin komu.

Þorsteinn Briem, 17.2.2014 kl. 20:07

32 Smámynd: Þorsteinn Briem

http://blog.pressan.is/stefano/files/2013/09/T%C3%ADmakaup-%C3%AD-ESB.jpg

Þorsteinn Briem, 17.2.2014 kl. 20:15

33 identicon

Hvað með verðmuninn á þeim landbúnaðarafurðum sem eru að öllu innfluttar, nú eða kláraðar hér, t.d. brauð. Hveiti. Núðlur. Dósamatur ýmiskonar. Exótískt grænmeti.
Hann er meiri en margan grunar. Hvernig stendur á því?
Hvað með mjólkina? Hún er í ódýrari kantinum hér, og var um tíma sú ódýrasta í álfunni.
Hvað með niðurstöður nýlegar þess efnis að óhagræðið væri mest hjá versluninni?
Þetta er einfalt. Íslensk matvælaframleiðsla vefst fyrir þeim sem vilja kaupa á "dumping market", - það þarf lítið til að hrekkja innlenda framleiðendur á hausinn með lágverði í smá tíma, og svo er hægt að hækka sig upp í "íslenskt" verð og hafa miklu meira út úr sölunni.
Mér er minnisstætt þegar hagkaup vildi fá að flytja inn hollensk egg, og fullyrti að hægt væri að selja þau á 50 kr/kg. En verslunarálagningin á þeim íslensku losaði þá 50 kr/kg!!! En hva, Pálmi heitinn flaggaði því nú stundum að það ætti ekkert að vera stunda landbúnað á Íslandi, heldur láta verslunina bara um þetta!

Jón Logi (IP-tala skráð) 18.2.2014 kl. 07:36

34 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Valio Ltd is a company owned by 18 Finnish dairy co-operatives whose procurement share of Finnish raw milk is around 86%.

Valio Group comprises 9 dairy co-operatives with around 9,000 milk producers, while the total number of milk producers in Finland is a little over 10,000.
"

[Valio Group greiddi hverjum mjólkurframleiðanda að meðaltali um 16 milljónir íslenskra króna árið 2010, miðað við 1. janúar 2010, og fyrirtækið er með um 90% finnskra mjólkurframleiðenda.]

"In 2010, Valio paid 40.9 euro cents per litre of raw milk [73,42 íslenskar krónur, miðað við 1. janúar 2010], which is 0.5 cents higher than in 2009.
"

[En hér á Íslandi var "afurðastöðvarverð mjólkur 1. nóv. 2008 - 31. jan. 2011: 71,13  kr./l."]

Þorsteinn Briem, 18.2.2014 kl. 08:53

35 Smámynd: Þorsteinn Briem

Finnland fékk aðild að Evrópusambandinu árið 1995:

"Fra 1995 til 2004 økte matprisene med 11%, mens konsumprisindeksen økte med 13,4%."

Þorsteinn Briem, 18.2.2014 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband