21.2.2014 | 09:45
Þarf að friða mestan hluta hverfisins.
Á árunum 1940-1960 urðu stórstígari breytingar á þjóðarhögum Íslendinga en á nokkru öðru svo skömmu tímabili. Mestan þátt í því áttu stríðið og stríðsgróðinn.
Húsin stækkuðu og víða um land standa enn hús í byggingarstíl, sem aðeins ríkti á þessum árum en hvorki fyrr né síðar.
Þetta voru hús með horngluggum og húðuð að utan með skeljasandsblandaðri steypulögun.
Norðurmýrarhverfið í Reykjavík er gott dæmi en nokkuð stórt og einhæft miðað við hverfið sem reis á Rauðárárholti, er mun minna og því auðveldara að varðveita það, en þó með fjölbreyttari dæmum um byltingu stríðsáranna, sem felast í húsum þess.
Það er einkum gatan Stórholt sem er merkileg því að hún skiptist til helminga á milli húsa, sem voru reist í hreinu einkaframtaki og standa norðan megin við götuna og verkamannabústaða, sem standa sunnan megin.
Holtið var í raun sjálfstætt 1000 manna þorp við jaðar byggðar í Reykjavíkur en aðgreint með auðum svæðum frá annarri byggð. Í Stórholtinu bjuggu á árunum 1940-60 35 þjóðþekktir einstaklingar sem ég nefni með nafni og segi skemmtisögur af þegar ég geng í ímynduðum göngutúr mínum upp og niður götuna í Gaflaraleikhúsinu annað kvöld.
Einkaframtakshúsin við Stórholtið eru áberandi stærri og rýmri en félagslegu húsin hinum megin við götuna, og enda þótt öll hús við götuna séu þannig, að heill brunaveggur aðskilur þau í tvo húsenda, er höfð meiri viðhöfn við einkahúsin að því leyti til að hvor endi hússins hefur götunúmer út af fyrir sig, en hjá sósíalnum er látið nægja að eitt húsnúmer sé á báðum endum í heild!
En einkum eru það byggingarstíllinn og skeljasandslagið utan á húsunum, sem þyrfti að varðveita, því að það er einstakt fyrirbæri, jafnvel á heimsvísu og átt sér mjög stutt tímaskeið.
Ef einhverja opinbera aðstoð þyrfti til þess að viðhalda skeljasandlaginu vegna þess að það sé eitthvað dýrara að endurnýja það en að breyta áferð hússins, held ég að það sé þess virði.
Helst þyrfti að varðveita verkamannabústaðina við Stangarholt og fínu húsin sunnan við verkamannabústaðahverfið við Háteigsveg til þess að sýna byggingar- og efnahagsþróun stríðsáranna, því að bæði verkamannabústaðirnir og fínu húsin, sem risu eftir stríðið, eru umtalsvert stærri en húsin sem risu á stríðsárunum sjálfum.
Það er eftirsjá að iðnaðarhúsunum vestast í hverfinu sem nú er búið að brjóta niður, en auðvitað eru takmörk fyrir því hve mikið á að vernda og verður héðan af ekki aftur snúið hvað þessi horfnu hús varðar
Iðnsagan fær sess á Rauðarárholti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vandinn Ómar er öflun skeljasands. Einu sinn var honum dælt af hafsbotni en það er ekki mjög vistvæn aðgerð. Ég hef bent á Stykkishólm en þar féll til mikið af hörpuskel og nú orðið fellur þó nokkuð til af öðuskel,víða. Blanda af þessu færi nærri að líkjast gömlu skeljasandspússningunni, en gæti aldrei orðið til öðruvísi en með opinberum styrkjum.
stefan benediktsson (IP-tala skráð) 21.2.2014 kl. 11:52
Þetta eru aðeins rúmlega 30 hús af mörg hundruð húsum sem eru þakin skeljasandsblöndu.
Mér dettur ekki í hug að hægt sé að varðveita þau nema með opinberum styrkjum en með því að dreifa þeim yfir sæmilega langt tímabil á þetta að vera hægt.
Ég held að varðveisla svona sýnishorns sé mikilvægari en við gerum okkur enn grein fyrir.
Á engu jafnstuttu tímabili Íslandssögunnar og árunum 1940-1960 urðu jafn gagngerar breytingar á öllum sviðum.
Steinhús tóku við af timburhúsum og torfhúsum. Vélknúin tæki tóku við af hestum og mönnum í landbúnaði. Hitaveita tók við af kolakyndingu. Aldrifsbílar opnuðu þann meirihluta landsins sem hafði aðeins verið fær hestum og gangandi mönnum.
Skipaflotinn tók algerum stakkaskiptum. Landið breyttist úr flugvallalausu og "fluglausu" landi í land flugvalla um allt land, þar sem flugið gegndi hlutfallslega mikilvægara hlutverki en í nokkru öðru landi.
Millilandaflug hélt innreið sína.
Vegna þess að við gleymum því að hvaðeina á eftir að breytast úr nýju í fornt, úr nýjum munum í fornminjar, hafa gríðarleg verðmæti frá þessum tíma farið forgörðum.
Ómar Ragnarsson, 21.2.2014 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.