23.2.2014 | 00:21
Ánægjuleg Edduhátíð.
Afhending Edduverðlaunanna í kvöld var ánægjuleg samkoma með hæfilegri blöndu af léttleika og alvöru sem Ólafía Hrönn batt saman með skemmtilegum kynningum.
Undirtónn hátíðarinnar var samt þrenging á fjárráðum kvikmyndagerðar og Ríkisútvarpsins sem meðal annars fólst í því að enda þótt Kastljós hlyti Edduna hefur niðurskurður fjár til RUV skert mannafla þess þáttar mjög eins og svo margs annars.
Tákn um þessa aðför að menningunni var þegar Jóhannes Kristjánsson handlék styttuna með samstarfsfólki sínu, einn þeirra sem sagt hefur verið upp vegna niðurskurðarins og mælti fram hvatningarorð fyrir íslenska rannsóknarblaðamennsku.
Ánægjulegt var að Bogi Ágústsson skyldi valinn sjónvarpsmaður ársins, svo mjög sem hann hefur blómstrað æ meir með árunum.
Edduverðlaun fyrir myndina Hvell var einnig afar ánægjuleg.
Skilningur virðist afar takmarkaður hjá ráðamönnum á möguleikum þess hæfileikafólks, sem hefur gert kvikmyndagerð að mun stærri tekjulind fyrir þjóðina en margir gera sér grein fyrir til að gera hana enn ábatasamari og meira gefandi.
Það er ekki aðeins að erlendir stórleikarar og tónlistarfólk laðist til Íslands, heldur á sú mikla landkynning, sem kvikmyndirnar hafa fært okkur erlendis, mikinn þátt í þeirri stórfjölgun erlendra ferðamanna og þar með gjaldeyristekna, sem ekkert lát virðist ætla að verða á.
Það var vitað, að Benedikt Erlingsson væri snillingur á sviði leiklistar og leikstjórnar, en samt mætti hann upphaflega miklu skilningsleysi þegar hann leitaði eftir nauðsynlegum stuðningi við gerð myndarinnar Hross í oss.
Svo langt gekk þetta skilningsleysi að hann neyddist til að biðja um aðstoð í viðtali í Kastljósi í hitteðfyrra. Í því sýndi hann að hann trú sína á verkefnið og lét ekki bugast af mótlætinu og nú er hann að uppskera það verðskuldað.
Þess vegna voru orð Friðriks Þórs Friðrikssonar um það kraftaverk, sem þessi mynd er, það eftirminnilegasta frá þessu kvöldi.
P.S. Það er ekki á Yngvar Sigurðsson logið hve góður leikari hann er. Nú fékk hann Edduna bæði fyrir leik í aðalhlutverki og aukahlutverki. Ótrúlegur, Yngvar, svo ótrúlegur, að ég myndi trúa því upp á hann að fá Eddur fyrir bæði leik í aðaihlutverki og aukahlutverki í sömu myndinni!
Hross í oss kvikmynd ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það var ekki laust við að það færi aulahrollur um mig þegar ég slysaðist til að horfa á þessa uppákomu í smá stund. Þessi "hátíð" á akkúrat ekkert erindi til almennings í gegnum beina sjónvarpsútsendingu. Einkapartý og samdrykkja þekktra andlita,mishæfileikaríkra. Einhverskonar wannabí óskarsverðlaun 320.000 manna þjóðar.
Gunnar G. (IP-tala skráð) 23.2.2014 kl. 00:38
Óttalegur eymíngji er nú þezzi Gunnar G, að nenna að reyna að skíta út á hæfileikafólk í nágrenni sínu, nafnlaust.
Steingrímur Helgason, 23.2.2014 kl. 01:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.