Útsýnið metið á hundruð milljóna, - eða 0 krónur eftir aðstæðum.

Þegar um íbúðir í íbúðaturnum er að ræða er útsýni metið á tugi milljóna í hverri íbúð og þar með á milljarða alls í hverjum einstökum turni. "Þetta er Ísland í dag" eins og Jón Ársæll myndi orða það.  

Útsýnið felst í því að sjá vel yfir borgina líkt og gerist í mörgum öðrum háhýsum. Sé íbúðin hins vegar lítil, fábreytt og ódýr smíð, eru hins vegar dæmi um að útsýni hafi verið lítils eða jafnvel einskis metið.

Á árunum 1957-61 var ég félagi í byggingarsamvinnufélagi sem reisti háhýsið að Austurbrún 2. Flestir félagsmenn áttu lítinn pening og unnu á kvöldin og um helgar við byggingu hússins og tókst að eignast íbúð í því með vinnu sinni og vegna þess að þetta var langódýrasta hús landsins á hvern fermetra.

Ég vann við járnabindingar og kynntist því vel gerð hússins.  

 Í því voru eingöngu afar einfaldar 44 fermetra íbúðir, allar eins, nema að helmingur íbúðanna var "spegilmynd" hins helmings þeirra. Hönnun hússins var tær snilld, svo einföld, að ég gæti teiknað það á blað eftir minni enn þann dag í dag.

Dregið var um íbúðir 14. mars 1960 og ég dró íbúð á fimmtu hæð, en gat skipt á sléttu við mann sem dró íbúð á 12. hæð, sem var með útsýni yfir nær alla borgina eins og hún var þá. Í þessum skiptum var útsýnið ekki metið á krónu. Hjalladalur.Stapar

Ég hef stundum velt því fyrir mér, af hverju þetta var svona og hallast helst að því, að vegna þess að fyrir neðan blokkina var fínasta og dýrasta hverfið þá í borginni, sem fékk heitið "Snobhill", hafi útsýni úr svona aumingjalegum smáíbúðum lágt setts fólks ekki þótt neins virði ,iðað við útsýnið úr dýrustu og flottustu húsum landsins sem þó var lakara.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var reist lá fyrir, að erlendis var byrjað að nota svonefnt "skilyrt verðmætamat" til að reyna að fá sem réttastan verðmiða á virkjanaframkvæmdir. Hjallad. Rauðaflúð

Við Helga fórum í sérstaka ferð til Sauda í Noregi þar sem slíku verðmætamati hefur verið beitt og töluðum við norskan prófessor, Staale Navrud, sem var sérfróður um þetta.

Í úrskurði umhverfisráðherra var því hins vegar hafnað að setja slíkan verðmiða á landið, sem fórnað var. Það var talið 0 krónu virði.

Þó var þar á ótal stöðum útsýni yfir einstæð náttúruverðmæti, sem hvergi var að sjá annars staðar í heiminum og ferðamenn hefðu getað dáðst að þeim, ef svæðið hefði verið sett á Heimsminjaskrá UNESCO og nýtt í samræmið við það.  Hjalladalur. Stuðlaberg

Ef eða þegar heimildamyndin "Örkin" verður sýnd mun hún sýna allmarga slíka útsýnisstaði, sem sumir lukust ekki upp fyrir mér fyrr en verið var að sökkva landinu í aur. (Lónið á eftir að fylllast upp af auri)

Á meðfyldjandi myndum má sjá svæði við svonefnda Stapa, sem voru fyrir innan Kárahnjúka.

Það var ekki fyrr en tveimur vikum fyrir upphafi drekkingar sem mér vitnaðist, að gljúfrið, sem áin rann þar í, hafði hún grafið á innan við öld og var í óða önn fyrir framan nefið á manni að búa til dýpra gljúfur, sem hefði orðið með eldrauðum gljúfurveggjum innst, hefði hún fengið að halda áfram snilldarverki sínu, sem hvað hraða og sköpunarkraft átti sér engan líka í veröldinni. Hjallad. Stapar

Á ekkert af þessu var minnst í mati á umhverfisáhrifum.

Ástæða þessara dæmalausu afkasta var sú, að Jökla var aurugasta vatnsfall veraldar.

Með tíu milljón tonnum af sverfandi auri á hverju sumri gat hún grafið mestan hluta Dimmugljúfra, dýpstu og mestu gljúfra landsins, á aðeins 700 árum.

Og búið til efni í sethjallamyndun í öllum dalnum, sem líka var einstæð en hefur nú verið sökkt.

Þessi fyrirbæri og mörg önnur voru metin á 0 krónur og einnig það útsýni, sem hægt var að hafa yfir þau. 

Þess má geta, að Stapasvæðið, sem þessar myndir eru frá, lá fyrir neðan 15 kílómetra langa "Fljótshlíð íslenska hálendisins", Hálsinn, sem Hálslón er kennt við, gróinni tveggja til fjögurra metra þykkum jarðvegi, og að alls 40 ferkílómetrum af grónu landi var sökkt í aur vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Það er mesta eyðing gróðurlendis í einni framkvæmd í sögu landsins. Næstum svo mikið af gróðurlendi fór undir Blöndulón og í fyrirhugaðri Hrafnabjargavirkjun verður svipað uppi á teningnum. Gagnstætt því sem hamrað er á og fólki talin trú um, er verið að sökkva gróðurvinjum í langflestum tilfellum en ekki sandi og urð, eins og talað er í síbylju um.

Hjalladalur. Stapar

Öll eiga fyrirbærin, sem fórnað er, það sammerkt að hafa ekki verið metin á svo mikið sem eina krónu.

En ein "penthouse"-íbúð á höfuðborgarsvæðinu getur verið virt á hálfan milljarð.

Íhugunarefni, - já og sorgarefni.       


mbl.is Fáránlega flott „penthouse“-íbúð í 108
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágætur og umhugsunarvekjandi pistill!

Greiðslur fyrir virkjanarétt Kárahnjúka voru aðeins örfáir milljarðar og hljóta því að endurspegla afar lága arðsemi verkefnisins. Í raun hefðu þær trúlegast engar getað orðið, ef tekið hefði verið tillit til umhverfistjónsin.  T.d. skemmdirnar á Lagarfljóti, skert útsýnisverðmæti, áfok úr lónstæði, óþekkt áhrif á lífríki hafsins vegna breytinga á framburði o.sv. frv.   Verkefnið með öðrum orðum ekki arðsamt!

     Hvað svo með jarðvarmavirkjanirnar?  Er nokkur arðsemi þar ef allt er talið.  Skerðing á loftgæðum og hreinar skemmdir á rafmagnstækjum og byggingum,hroðaleg sjónmengun á Hellisheiði, grunnvatnsmengun,truflanir vegna jarðskjálfta! 

Hvers vegna sækir enginn rétt sinn til bóta, hvar er neytendaverndin?   

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.2.2014 kl. 13:09

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Skuggahverfi skín nú sól,
Skugga-Baldur kveður,
í Framsókn ætíð finnur skjól,
Finnur smeðjulegur.

Þorsteinn Briem, 26.2.2014 kl. 17:05

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 26.2.2014 kl. 17:33

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

26.2.2014 (í dag):

"Fram til ársins 2018 eru afborganir Landsvirkjunar á erlendum lánum áætlaðar um 128 milljarðar króna.

Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því líkt og síðustu ár fara í að standa skil á afborgunum erlendra skulda."

Áhersla lögð á að lækka miklar erlendar skuldir Landsvirkjunar næstu árin

Þorsteinn Briem, 26.2.2014 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband