26.2.2014 | 22:12
Hvers vegna brattara af stað en í Búsáhaldabyltingunni ?
Útifundahöld á tímum Búsáhaldabyltingarinnar byrjuðu ekki með neinum sérstökum látum haustið 2008. Fyrstu útifundirnir voru mun fámennari en síðar varð og aðeins haldnir vikulega, eftir hádegi á laugardagum þegar flestir eiga frí frá vinnu.
Það var ekki fyrr en komið var langt fram í janúar sem fundirnir stækkuðu og urðu tíðari í blálokin.
Þess vegna má það vekja furðu hve margir hafa komið þrjá daga í röð niður á Austurvöll og að fjölmennasti fundurinn skuli hafa verið á miðjum vinnutíma klukkan 15:00.
Einnig vekur athygli hve mikið af fundarfólkinu er fólk, sem hefur ekki sést á svona fundum áður og segist margt hvert aldrei hafa órað fyrir því að það ætti eftir að taka þátt í mótmælafundum.
Ég efast um að nokkur hafi búist við þessu en hygg að skýringin sé sálfræðileg.
Eitt af því sem gerir fólk reitt er þegar því finnst undir niðri að það hafi verið haft að fíflum og verið niðurlægt.
Reiðin beinist þá að þeim sem fíflaði það.
En hvers vegna út af þessu og það svona stuttu eftir kosningar?
Ekki er hægt að finna neina skýringu skárri en þá að þessi svik á loforðum hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.
Fyrir kosningar hafði verið lofað með fagurgala gulli og grænum skógum og var leitun að öðrum eins loforðalista þar sem svo margt var talið mögulegt og orðið "ómöguleiki" hafði ekki verið fundið upp.
Þar bar hæst að 300 til 400 milljórðum frá "hrægömmum" og vogunarsjóðum áttu að falla þjóðinni í skaut og þar með yrði hægt að framkvæma "stærstu skuldaleiðréttingu í heimi" án þess að það myndi kosta nokkurn Íslending krónu. Því var harðlega andmælt að þessi himnasending myndi á nokkurn hátt felast í því að færa til peninga, frá ríkinu á endanum.
Verðtrygginguna, sem kennt var um háa greiðslubyrði fólks átti að afnema hið snarasta.
Gjaldeyrishöftin áttu að afnema og koma á stöðugleika á sama tíma.
Fleira mætti nefna, sem nú er búið að finna fínt nýyrði yfir sem er orðið "ómöguleiki".
Svo er að sjá sem að þegar það orð er notað nú um loforð sem talin var vel mögulegt að framkvæma fyrir kosningar að mörgum finnist mælirinn fullur og að um þetta gildi það sem hefur verið sagt að það sé hægt að fífla suma stundum en ekki hægt að fífla alla alltaf.
Kallaði ráðherra helvítis dóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þrjátíu og fjögur þúsund undirskriftir komnar - Já Ísland
Þorsteinn Briem, 26.2.2014 kl. 22:28
Hvar er afnám verðtryggingar?
Hvar er afnám gjaldeyrishafta?
Hvar er lækkunin á bensíngjaldinu?
Hvar eru álverin á Húsavík og í Helguvík?
Hvar er hækkunin á öllum bótum öryrkja og aldraðra?
Hvar er þjóðaratkvæðagreiðslan um aðildarviðræðurnar?
Hvar er þetta og hitt?
Ég er viss um að það var hér allt í gær.
Þorsteinn Briem, 26.2.2014 kl. 22:32
"Í kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar vorið 2013 stendur:
"Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu."
Í viðtali við Fréttablaðið 24. apríl 2013 sagði Bjarni Benediktsson formaður flokksins:
"Við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það."
Og daginn eftir á Stöð 2:
"Við viljum opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og ég tel rétt að stefna að henni á fyrri hluta kjörtímabilsins."
Þorsteinn Briem, 26.2.2014 kl. 22:36
Þorsteinn Briem, 26.2.2014 kl. 22:39
Fjórir af fimm ráðherrum Sjálfstæðisflokksins lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu
Þorsteinn Briem, 26.2.2014 kl. 23:00
Það er ekkert til sem heitir pólitískur ómöguleiki, það eru eingöngu til pólitísk úrlausnarefni. Ef stjórnvöld ráða ekki við úrlausnaefnin verða þau að fara frá.
Haraldur Rafn Ingvason, 27.2.2014 kl. 00:54
Gamalt orðtak segir: "Stjórnmál eru list hins mögulega." Ef stjórnmálamenn ætla sér of margt eða stórt sem ekki er mögulegt hafa þeir ekki staðist þessa kröfu.
Ómar Ragnarsson, 27.2.2014 kl. 01:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.