28.2.2014 | 01:37
Fyrsti fjaðrandi reiðhjólagaffallinn 1955.
Sumarið 1955 gerðist það í fyrsta sinn að settur var reiðhjólagaffall með höggdeyfum framan á reiðhjól hér á landi.
Eigandi hjólsins var ástríðufullur reiðhjólaíþróttamaður fyrir sjálfan sig en aðeins 14 ára gamall og foreldrum hans leist ekkert á það hvernig hann hjólaði í loftköstum á æsihraða niður brekkur á þeim holóttu malarvegum sem þá voru hér.
Töldu móðir og faðir hætta á að framgaffallinn gæti brotnað í þessum átökum.
Hjólaeigandinnn fór þá niður í Fálkann og bað menn þar á bæ að leita að því hvort framgaffall með höggdeyfum væri framleiddur erlendis.
Svo reyndist vera og þrátt fyrir gjaldeyrishöft, miklu strangari en eru núna, var þessi gaffall fluttur inn og settur á hjólið. Hygg ég að liðið hafi nokkrir áratugir þar til fjaðrandi framhjólagafflar voru voru næst á dagskrá hér á landi því að hjólinu var hent árið 1960.
Hjólagaffallinn bognaði og eyðilagðist í misheppnuðu áhættuatriði 1. apríl 1960 þegar stokkið var af hjólinu á fullri ferð niður túnið fyrir neðan M.R. en það misheppnaðist að láta hjólið fara kollhnís með því að síðasta snerting hjólreiðamannsins væri að kippa í stýrið á leið hans af hjólinu.
Það var þaulæft atriði en misheppnaðist samt í þetta eina sinn.
Hjólið brunaði mannlaust áfram og flaug fram af brún túnsins og stefndi beint aftan á konu sem sat á bekk sem þarna var á strætisvagnastöð, sem þá var þar fyrir neðan.
Eitt augnablik leit út fyrir stórslys, en þá beygði konan sig fram til að taka upp skjóðu sína í þann mund sem strætisvagn renndi þar að.
Framgaffallinn lenti því á sætisbakinu og kengbognaði án þess að snerta konuna. Stóð hún upp, hristi sig og leit forviða aftur fyrir sig þegar hún heyrði skellinn og skildi ekkert í þessu, - hvort þetta beyglaða reiðhjól hefði dottið af himnum ofan.
Á þessum tíma var hjóleigandinn búinn að eignast örbíl nokkrum mánuðum fyrr, þannig að þetta atvik markaði endalok reiðhjólatímabilsins í lífi hans og upphaf bílastímabilsins.
Stökk hann þar með yfir skellinöðrutímabilið, sem Jón bróðir hans hafði nýlega innleitt í sitt líf.
Atvikið gerðist í stóru frímínútunum í blíðskaparveðri. Voru tugir nemenda vitni að því og eigandi hjólsins er skrásetjari atviksins.
Gafflarnir á leið í framleiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eigum gamlan emmerring,
ákaflega snjallan,
áður fór í hálfan hring,
hann oft fer nú allan.
Þorsteinn Briem, 28.2.2014 kl. 11:23
Margrét Möller tók strákana í nefið með "selfie"-mynd árið 1900:
Þorsteinn Briem, 3.3.2014 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.