2.3.2014 | 13:56
Viðburður í tónlistarsögu okkar.
Óperan Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson er viðburður í tónlistarsögu okkar, ekki aðeins vegna þess hvílíkt meistaraverk hún er heldur ekki síður vegna þess að hún getur verið lokahnykkurinn í þróun og mótun íslenskrar tónlistar sem hefur staðið yfir hálfa öld, eða síðan Gunnar Þórðarson og rokkkynslóð hans brutust til áhrifa í íslenskri alþýðutónlist / popptónist.
Gunnar og Friðrik hnýta saman órofa tengsl nýrrar tónlistaraldar okkar aftur til fyrri alda í þjóðarsögunni og sögu óperuformsins og varpa út í hafsauga þeim fordómum gagnvart nýrri tónistaröld sem alltaf hafa verið til staðar frá því að áhrif rokksins, kántrítónlistarinnar, nútíma trúbadora og ballaða, pönks, diskó, og rapps urðu afgerandi í íslenskri alþýðutónlist.
Megas og verk hans eru gott dæmi um það hvernig snillingar geta ræktað þessi tengslu og gert að íslenskum stórvirkjum.
Þessi miklu áhrif fyrir hálfri öld voru litin hornauga af mörgum sem voru fastir í eldri tegundum tónlistar og töldu til dæmis réttilega að bestu verk íslenskra tónskálda væru gegnheil íslensk menning.
Enn á hinn bógínn skjátlaðist þeim en að tónlist íslenskra dægurlagahöfunda rokk- og bítlaaldar væru varasöm innrás erlendra áhrifa sem gæti skaðað íslenskt tónlistarlíf og þjóðlíf.
Þessir gagnrýnendur gleymdu því að verk íslenskra tónskálda á fyrri hluta 20. aldar voru sjálf afrakstur innrásar áhrifa af erlendri tónlist í íslenskt tónlistarlíf, sem kom til landsins frá meginlandi Evrópu, að mestu leyti frá Þýskalandi í gegnum Danmörk.
Ég tek oft tóndæmi til að varpa ljósi á þessi áhrif.
Á lýðveldishátíðinni 1944 fengu þrjú sérsamin lög sérstök verðlaun. 1944 var Ísland mikilvæg miðstöð baráttunnar gegn Öxulveldunum á Norður-Atlantshafinu og þess vegna er dálítið skondið að raula fyrir munni sér upphaf þýska þjóðsöngsins og fara beint yfir í lokalínur lagsins "Yfir voru ættarlandi", nokkurn veginn svona:
"Deutschland, Deutscland uber alles,
uber alles in der Welt...."
"...ljós þitt glæð í lýðsins hjörtum,
ljós er aldrei slokkna skal."
Fyrir þá sem kunna bæði lögin er það sláandi að með því að skeyta þessum tveimur lögum saman og syngja í samfellu, verður til svo heillegt nýtt lag, að undravert er.
Og þó ekki undravert. Um leið og tónlist okkar er ævinlega þjóðleg og sönn, þegar hún sprettur fram hjá góðum listamönnum í gerð laga og ljóða, er hún ævinlega lituð af erlendum áhrifum frá einhverjum tíma.
Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson eru einfaldlega listamenn sem hafa í sér neistann sem getur orðið að stóru báli, sem er engu líkt, þótt kveiktur sé undir áhrifum þess besta í heimsmenningunni.
Rétt eins og Gunnar fóstraði af snilld neista áhrifa alþýðutónlistar sinnar æsku, endurtekur hann þetta þegar hann fóstrar neista óperuforms fyrri tíma og notar sígilda snna íslenska harmsögu sem er í stíl við Viktoríu Knuts Hamsuns og Rómeó og Júlíu.
Gunnar Bragi mætti ásamt frúnni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér skilst, eftir því sem tónlistinni var lýst eftir konsertuppfærsluna í Skálholti, að óperan sé ekki neins konar poppópera, eða alþýðutónlistarópera, heldur sé tónmálið aðallega í síðrómantískum "klassískum" óperustíl, sem var upp á sitt besta kringum aldamótin 1900 og beri nokkurn keim af Puccini.
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.3.2014 kl. 09:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.